10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 937 í B-deild Alþingistíðinda. (445)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Jeg óskaði þess strax í byrjun fundarins, að málið yrði tekið út af dagskrá. Það er fljótsjeð, að 3. gr. frv. er gerbreytt, og nýrri grein bætt inn í það og mjer þykir hart, að háttv. landbn. skuli leggja svo mikið kapp á að gera lítið úr þeim breytingum. Nefndinni þótti 3. grein góð eins og hún fór hjeðan og varði hana þá harðlega gegn aðfinslum mínum. Henni þykir hún líka góð eins og hún kemur nú gerbreytt frá Nd. Líklega þætti henni hún allra best, ef hún kæmi í 3. útgáfu. — Jeg held nú satt að segja, að frv. hafi breyst til batnaðar í Nd., þótt jeg hafi ekki getað athugað það nægilega enn. Mjer þykir þetta bara undarleg framkoma hjá hv. nefnd. Jeg skil ekki, að frv. sje stofnað í neina hættu, þó að það sje tekið út af dagskrá í þetta sinn.