10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 938 í B-deild Alþingistíðinda. (447)

12. mál, kynbætur hesta

Eggert Pálsson:

Það er dálítið einkennilegt, að háttv. þm. A.-Húnv. þykir undarlegt, að landbn. skuli samþykkja breytingar Nd., en kannast þó sjálfur við, að þær sjeu til bóta. Viðvíkjandi breytingum á frv. skal jeg taka það fram, að aðalbreytingin er í því fólgin, að fleiri hreppum er leyft að vinna saman að kynbótum hesta. Viðvíkjandi þessu atriði lagði jeg áherslu á það við umræðurnar hjer, að það hlyti svo að verða, að hreppar slægju sjer saman. Þessi hugsun mín, sem jeg bjóst við að leiddi af sjálfu sjer, er nú skýrt tekin fram í frv. Jeg sje ekki, að það geti á nokkurn hátt spilt frv.; hvert á móti. Landbn. hefir ekkert á móti því, að málið sje tekið af dagskrá. En það þarf enginn að búast við því, að hún komi með ítarlegt nál., þótt svo verði. Afstaða nefndarinnar til málsins mun ekki breytast neitt við það. — Hvað viðvíkur athugasemdinni við síðari málsgrein 2. gr., þá hefir hún verið samþykt hjer; og jeg býst ekki við, að deildin sjái ástæðu til að raska þeirri samþykt.