10.04.1926
Efri deild: 47. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 939 í B-deild Alþingistíðinda. (448)

12. mál, kynbætur hesta

Guðmundur Ólafsson:

Hv. form. landbn. (EP) sagði, að sjer þætti undarlegt, að jeg skyldi vilja láta taka málið út af dagskrá, þar sem jeg teldi breytingarnar til batnaðar. En mjer þykir enn undarlegra, að nefndin skuli vera jafnánægð með frv. hvernig sem það er. Hv. þm. (EP) segist ekkert hafa á móti því, að málið sje tekið út af dagskrá, og þó berst hann mjög kröftuglega móti því að það sje gert. Mjer þykir þetta alt ákaflega undarlegt.