29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 188 í B-deild Alþingistíðinda. (46)

1. mál, fjárlög 1927

Fjármálaráðherra (JÞ):

Þó að það skifti raunar ekki miklu máli fyrir þann ágreining, sem hjer hefir komið fram í umr. á milli hv. frsm. fjvn. (ÞórJ) og hv. 3. þm. Reykv. (JakM), um grundvallarreglur við áætlun á tekjuhlið fjárlaganna, ætla jeg samt að segja hjer fáein orð.

Háttv. 3. þm. Reykv. segir, að grundvöllurinn undir skattalækkun, ef skattar eru of þungir, fáist með því að áætla tekjurnar sem allra næst því rjetta. Háttv. frsm. fjvn. segir, að þetta náist að mun betur með því að áætla tekjurnar gætilega. Jeg verð að segja það, að jeg fellst algerlega á skoðun hv. frsm. fjvn. Eina ráðið til að halda sköttunum niðri er að hafa hemil á útgjöldunum, en til þess er besta ráðið gætileg tekjuáætlun. Þetta vita allir, sem við þingstörf hafa fengist að nokkru ráði, að besti hemillinn á útgjöldunum er sá, ef tekjurnar eru gætilega áætlaðar. Það má ætíð ganga að því vísu, að hver einasta hækkun á tekjuáætlun hefir tilsvarandi aukning á útgjöldum í för með sjer. Þetta vita allir, og er það hinn raunverulegi grundvöllur undir allri skattaálagningu. Það er að vísu gott að geta haft tekju- og gjaldaáætlanirnar sem næst því rjetta, og er vitanlega gert að því leyti sem því marki verður náð. Til þess að fá allar áætlanir sem næst því rjetta yrði því að fara að eins og hygginn verkfræðingur gerir, er hann býr til kostnaðaráætlanir um einhver fyrirtæki, — þ. e. að leggja ofan á hæfilega mörg % af útgjaldaupphæðinni, til þess að vera viðbúinn ófyrirsjáanlegum atvikum. Jeg skal játa, að ef bætt yrði við ca. 10–15% ofan á útgjaldahlið fjárlaganna, mætti komast að mun nær því rjetta; en þetta er samt aldrei gert, enda eru fjárlögin ekki þannig sniðin, að hægt sje að „slumpa“ þannig til um ofanálagsupphæð, og því er ekki annað að gera en að hafa tekjuáætlunina sem gætilegasta, til þess að auðveldara verði að halda útgjöldunum í horfinu.