13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 947 í B-deild Alþingistíðinda. (460)

12. mál, kynbætur hesta

Atvinnumálaráðherra (MG):

Út af orðum háttv. 1. landsk. (SE) vil jeg segja það, að það er ekki nauðsynlegt, að rjettindi og skyldur fylgist að. Það eru aukin rjettindi, að geta skorast undan tilteknum störfum. Þetta er gefinn hlutur.

En hvernig var það annars, — var ekki þessi hv. þm. í gær að beita sjer á móti frv., sem var mjög þýðingarmikið fyrir konur þessa lands? Eða var hv. þm. að mæla með því frv.? (SE: Nei, það held jeg, að jeg hafi ekki gert). Jeg vil þá spyrja þennan hv. þm.: Hvort telur hann meira virði fyrir konur að fá tvo sjerskóla fyrir sig, sem haldið er uppi af ríkinu, eða að fá skyldur til að sitja í kynbótanefndum? Jeg læt þá dæma hjer í milli, sem í raun og veru berjast fyrir rjettindum kvenna. En þessi hv. þm., sem jeg nú tala til, á ekki að vera að flagga með vináttu í garð kvenna og að hann vilji gera sitt til að auka rjett þeirra, því að þessi hv. þm. hefir gert sig beran að áreitni við rjettindi kvenna, og brtt. hans eru bornar fram af tilbekni einni saman og til þess að sýnast.

Jeg skal út af því, sem háttv. þm. A.-Húnv. sagði, geta þess, að það er ekki nauðsynlegt, að sömu reglur gildi um kosningar í kynbótanefndir og hreppsnefndir, og frv. sjálft sýnir, að þetta er svo. Það er greinilegt, að ef það væri sjálfsagt, að sömu reglur giltu um þetta, þyrftu engin ákvæði að vera um þetta í frumvarpinu.

Jeg endurtek svo aðeins, að jeg tel rjettast að fella þessa brtt. frá háttv. þm. A.-Húnv.