13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 949 í B-deild Alþingistíðinda. (463)

12. mál, kynbætur hesta

Jónas Jónsson:

Jeg fæ ekki varist því að segja fáein orð í þessu stórmáli, sem virðist vera orðið eitt af mestu málum á þessu þingi, ef ráða má nokkuð af þeim ræðufjölda, sem kominn er í þessu máli.

Hæstv. atvrh. (MG) heldur því fram að ekki sje ástæða til að laga 2. gr. frv.; hún sje vel glögg. En ef 2. gr. er borin saman við brtt. hv. þm. A.-Húnv., sjest, að brtt. er gleggri en frv. Hv. 4. landsk. (IHB) hefir tekið upp aðra stefnu í þessu máli en hún hafði, er sveitarstjórnarmálin voru hjer á ferðinni. (Atvrh. MG: Það ætti hv. 3. landsk. að gera líka). Þetta er það, sem hæstv. atvrh. vill fá deildina til að gera. Hann er sjálfur vanur að snúast í málum, t. d. tóbakinu, en má ekki heimta jafnmikið af öðrum.

Nú hefir þessi háttv. deild slegið fastri stefnu sinni í því, að hún ætlast til, að konum beri jöfn skylda og körlum til að taka þátt í sveitarstjórnarmálefnum. Auðvitað væri snúningur í þessu máli ekki meiri vansæmd fyrir deildina en snúningur hennar í Blönduósskólamálinu, þar sem meiri hl. mentmn. er nú á alt annari skoðun en í fyrra, eða sendiherramálinu; þar held jeg, að hæstv. atvrh. (MG) hafi nú greitt öðruvísi athv. en hann gerði fyr.