13.04.1926
Efri deild: 49. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 952 í B-deild Alþingistíðinda. (466)

12. mál, kynbætur hesta

Gunnar Ólafsson:

Jeg skildi ekki það, sem hv. l. landsk. sagði um, að með þessu ákvæði væri verið að draga úr rjettindum kvenfólksins. Mjer sýnist augljóst, að það eru einmitt aukin rjettindi þeirra með þeirri undanþágu, að þær þurfa ekki að inna af hendi verk, sem þeim er meira eða minna ógeðfelt, en aftur á móti er þeim það hvergi bannað. Hugsum okkur einhverja hreppsnefnd, sem væri líkt sinnuð og þeir, sem vilja fella þetta ákvæði burtu, og hreppsbúar gerðu það af eintómri gletni að kjósa konu í kynbótanefndina. Hreppsbúar gætu með því móti neytt hana til þess að taka sæti í þeirri nefnd, sem henni væri óljúft að starfa í og sem hún væri í flestum tilfellum óhæf til. Jeg álít þetta óþarft og jeg sje ekki betur en að rjettindi konunnar sjeu aukin með því, að hún getur skorast undan kosningu.

Hv. 3. landsk. sagði, að það væri algengt hjer, að menn skiftu um skoðun, og var sem hann talaði þar af mikilli reynslu. Hvort hann hefir talað af eigin reynslu eða reynslu annara, veit jeg ekki, en mjer finst ekki sjálfsagt að breyta um skoðun í öllum málum, þó að það hafi einhverntíma verið gert. Í þessu máli hafa ekki komið neinar nýjar upplýsingar, sem gæfu ástæðu til að skifta um skoðun. Það er alt annars eðlis, þó að skift sje um skoðun á löngu tímabili, vegna nýrra upplýsinga og breyttra kringumstæðna.