29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 189 í B-deild Alþingistíðinda. (47)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Þórarinn Jónsson):

Það var einn liður, sem jeg gleymdi áðan að tala um, en það var 8. brtt. á þskj. 230, frá hv. þm. Ak. (BL), um 4 þús. kr. til Jóns Kristjánssonar veitingamanns, til að bæta honum skaða af sóttvarnarráðstöfunum. Það er alveg rjett, að þingið hefir áður gengið inn á þessa braut; eftir margítrekaðar tilraunir um fleiri ár var það að lokum samþykt, en fjvn. hefir ávalt verið á móti þessu, og eins er hún það nú. Það er að vísu satt, að ástæður geta verið alveg sjerstakar, og fordæmið er til, því verður ekki neitað, en menn verða oft allhart úti og verða oft fyrir miklum útgjöldum, en ríkið getur ekki altaf hlaupið undir bagga með hverjum einstökum manni. Þrátt fyrir fordæmi það, sem til er í þessu efni, legg jeg þó fyrir hönd nefndarinnar eindregið á móti því, að þessi brtt. verði samþykt.

Þá voru það fáein orð, sem jeg átti eftir til háttv. þm. Borgf. (PO). Hann vildi gera brtt. sína hliðstæða við brtt. hv. þm. Ísaf. (SigurjJ) og taldi það eftirgjöf, sem sú brtt. fer fram á. En þar er ekki um eftirgjöf að ræða. Stjórnin var búin að gera þær ráðstafanir, að þetta varð að gera. Háttv. þm. drap á aðra brtt., en hún kemur mjer ekki við, því hún tilheyrir þeim kafla fjárlaganna, sem jeg hefi ekki framsögu fyrir, en jeg veit, að hv. þm. Str. (TrÞ) muni svara þar til. Háttv. þm. veit, að þetta er ekki samkv. till. fjvn., og hann hefir sjálfur oft lagst á móti eftirgjöfum.

Þá ætla jeg heldur ekki að fara að stæla um það, hvort 8 þús. sje ekki meira en 7 þús., en nefndin er öll á móti þessari brtt., og ef hv. flm. vill fá brtt. framgengt, væri betra að taka brtt. aftur til 3. umr.

Háttv. 3. þm. Reykv. (JakM) og háttv. þm. A.-Sk. (ÞorlJ) þarf jeg ekki að svara; það hefir hæstv. fjrh. (JÞ) gert, og þarf jeg því ekki að tala frekara að þessu sinni.