10.02.1926
Efri deild: 3. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 955 í B-deild Alþingistíðinda. (471)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Í lögum vorum eru engin almenn ákvæði um gistihúshald og veitingasölu, og afleiðingin af þessu er sú, að hver og einn getur sett á stofn veitingasölu eða gistihús, án þess að fullnægja þeim skilyrðum, sem rjettmætt er að setja fyrir því að hafa slíka atvinnu á hendi. Í kauptúnum úti um land hefir þetta eflaust alls ekki komið að baga, en í kaupstöðunum, og sjerstaklega Reykjavík, mun naumast hið sama verða sagt. Því mun varla verða neitað, að hjer má finna þess dæmi, að þeir menn fari með veitingasölu, sem alls ekki eru til þess færir eða hæfir. Og það er alveg óhæft, að ekki skuli eftir gildandi lögum vera unt að banna þeim manni veitingasölu, sem hvað eftir annað hefir orðið uppvís að t. d. óleyfilegri vínsölu.

Af þessum ástæðum hefir stjórninni þótt rjett að leggja fyrir Alþingi frv. í þessa átt. Gert er ráð fyrir, að gjald nokkurt sje greitt í ríkissjóð fyrir veitingaleyfi, en jafnframt heimilað, ef sjerstaklega þykir standa á, að gefa gjaldið eftir, með sjerstöku tilliti til þess, að sumstaðar úti um land er beinlínis æskilegt, að gistihús sjeu sett á stofn.

Að sjálfsögðu nær frv. þetta aðeins til opinberra veitinga, en alls ekki til greiðasölu eða gistinga í sveit eða annarsstaðar, þar sem almenningur á ekki aðgang.

Frv. þetta nær ekki heldur til vínveitinga yfirleitt, því að reglur um þær eru þegar til.

Jeg leyfi mjer að leggja það til, að frv. þessu verði að aflokinni þessari umræðu vísað til allshn.