18.03.1926
Efri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 956 í B-deild Alþingistíðinda. (473)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Hæstv. stjórn hefir lagt þetta frv. fyrir Alþingi sjerstaklega af því, að ýms almenn fyrirmæli vantar í núgildandi lög um gistihúshald og veitingasölu. Allshn. hefir athugað frv., og er það álit hennar, að samning þess hafi vel tekist, og þykir henni frv. gera nauðsynlegar umbætur á þessari löggjöf. Hún leggur því til, að frv. verði samþykt að mestu leyti óbreytt. Aðeins hefir hún viljað gera 2 smábreytingar, aðra við 3. gr., og má vel vera, að hún sje leiðrjetting á prentvillu, en af því að í stjfrv. er stundum nokkuð undarlegt orðalag, hefir nefndinni dottið í hug, að hjer sje ekki víst, að um prentvillu sje að ræða, sem sje þar sem í 3. gr. 5. tölulið stendur: „bæjarstjórnar og hreppsnefndar“, leggur nefndin til, að „eða“ komi í staðinn fyrir „og“. Hin breytingin er við 15. gr., þar sem eru ákvæði um sektir. Í frv. er lágmarkið 200 kr. Þetta þykir nefndinni alt of hátt, ekki síst þegar miðað er við, hvaða sektir eru nú fyrir þessi brot, en þar er lágmarkið 20 kr., þó að auðvitað þurfi krónutalið að hækka vegna breyttra tíma. Nefndin hefir því lækkað lágmarkið niður í 50 kr., en hámarkinu, 2000 kr., vildi hún ekki hreyfa við.

Þá mun jeg ekki þurfa að taka fleira fram fyrir nefndarinnar hönd, en vænti þess, að hv. deild samþykki frv.