29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 192 í B-deild Alþingistíðinda. (48)

1. mál, fjárlög 1927

Frsm. (Tryggvi Þórhallsson) :

Jeg ætla ekki að gera neinar almennar athugasemdir um fjárhagsástandið við framsögu þessa kafla, enda er það ekki venja. Skal jeg reyna að hafa framsögu mína eins stutta og unt er og vísa aðallega til nál.

Hinsvegar skal jeg gefa stutt yfirlit um brtt., bæði þær, sem fjvn. hefir borið fram, og eins um brtt. einstakra þingmanna, og bera þær saman við brtt. í fyrra. Kem jeg þá fyrst að brtt. fjvn. Hækkunartill. hennar við frv. eru þessar:

Við 14. gr. .... kr. 50300

— 15. — .... — 6000

— 16. — .... — 118700

— 17. — ..... — 5000

— 18. — ..... — 9600

þar með talin dýrtíðaruppbót, og verða þetta samtals kr. 189600,00. Lækkunartillögur fjvn. eru þessar:

Við 14. gr. .... kr. 5000

— 15. — .... — 8200

— 16. — .... — 3000

— 18. — .... — 2640

þar með talin dýrtíðaruppbót, og verða þetta samtals kr. 18840,00. Raunverulegar hækkanir hjá fjárveitinganefnd nema því kr. 170760,00.

Þá eru hækkunartillögur einstakra þm.

Við 14. gr. .... kr. 24800

— 15. — .... — 27300

— 16. — .... — 76500

— 18. — .... — 1280

með dýrtíðaruppbót. Verða þetta samtals kr. 129880,00. Þar frá dragast kr. 1200,00, sem er eina lækkunartillaga einstakra þm., og verða þá eftir kr. 128680,00. Jeg skal geta þess í sambandi við þessar tölur, að þar sem um varatillögur er að ræða, þá er ætíð tekin hærri upphæðin.

Hækkunartillögur, að frádregnum lækkunartillögum, eru því:

Frá fjvn. ........... kr. 170760,00

— einstökum þm. .. — 128680,00

eða samtals . . . . kr. 299440,00

En við umr. þessa kafla fjárlaganna í fyrra námu hækkunartillögur:

Frá nefndinni um .... 220000 kr.

— einstökum þm. um . . 380000 —

eða samtals um . . . 600000 kr.

Eins og sjest á þessu yfirliti, eru hækkunartillögur fjvn. nú um 50 þús. kr. lægri en í fyrra. En hækkunartillögur einstakra þm. eru rúmlega þrisvar sinnum lægri en þær voru í fyrra við 2. umr. þessa kafla fjárlaganna. Í fyrra voru hækkunartillögur einstakra þingmanna miklu hærri en fjvn., en nú eru till. nefndarinnar stórum hærri en einstakra þingmanna.

Jeg skal þá ekki hafa fleiri inngangsorð í þessari ræðu, en vík að hinum ýmsu brtt. og kem þá fyrst að brtt. við 14. gr.

Þar lágu fyrir fjvn. um 50 erindi. Var mörgum þeirra sint, en fleirum þó vísað á bug og sum hafa ekki verið athuguð til fullnustu, eða ekki fengist um þau nægar upplýsingar.

Um 1. brtt. a., um 1004 kr. til dómkirkjuprestsins í Reykjavík fyrir skýrslugerðir, get jeg vísað til nál. Kirkjumálaráðherra bar þetta erindi upp fyrir nefndinni, og þótti henni sjálfsagt að fallast á að taka þetta upp. Geri jeg ráð fyrir, að þetta hafi gleymst í launalögunum. Jeg skal benda á, til viðbótar því, sem stendur í nál., að ef þessi upphæð væri ekki veitt, þá mundi enginn prestur sækja úr embætti annars prests í Reykjavík í dómkirkjuprestsembættið, því að hann hefði ekki annað upp úr því en stórkostlegt erfiði. Því að hjer er um mjög mikla vinnu að ræða, sem eingöngu hvílir á dómkirkjuprestinum fyrir alt kallið. Og mjer finst sjálfsagt, að sá prestur, sem hefir virðulegasta prestsembætti landsins á hendi, hafi dálítið hærri laun en aðrir prestar.

Þá kemur b.-liður till., um erfiðleikauppbót til Ögurþinga. Um það vísa jeg til nál. og svo getur hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) gefið nánari upplýsingar um það, ef óskað er. Það var farið fram á 600 kr., en fjvn. leggur til, að veittar verði 300 kr., en ætlast svo til þess, að það verði árleg greiðsla.

Í fjárlagafrv. hæstv. stjórnar voru ætlaðar 20 þús. kr. til húsabóta á prestssetrum, samkvæmt till. biskups. Hefir hann gert þá grein fyrir því, hvernig styrkur þessi eigi að notast, að hann eigi að verða lokastyrkur til Staðar í Steingrímsfirði, til Steinness og Saurbæjar í Eyjafirði og ef til vill til Skeggjastaða. Hækkunin, sem hjer er farið fram á, ætlast nefndin til að gangi til Holts undir Eyjafjöllum, og vísa jeg þar um til nál. En jeg skal þó bæta því við, að þarna er ákaflega veðrasamt, en húsið er orðið gamalt og feyskið og svo illa gengið frá þaki þess, að stórhætta er á, að þakið sviftist af og jafnvel að húsið fjúki. Enda fauk járn af því ekki alls fyrir löngu. Það er ómögulegt að gera við gamla húsið eins og það er, en viðir úr því og járn geta komið að gagni. Hjer þarf að reisa nýtt hús úr steini, en vitanlega fer um það eftir fyrirsögn húsameistara ríkisins. Jeg skal og geta þess, að meðmæli biskups eru með þessu. Jeg minni aðeins á það að lokum, að hjer er ekki um styrk að ræða, heldur lán, en að vísu með góðum kjörum. Og jeg get enn tekið það fram, sem jeg vjek að nánar í fyrra í sömu framsögu og þessari, að ríkinu ber tvímælalaus skylda til að bjóða prestum sæmileg kjör til að húsa prestssetrin. Má búast við nokkrum fjárframlögum í þessu skyni um takmarkaðan tíma, en því næst rekur að því, að það smáhverfi.

Fjvn. vill, að niður falli liðurinn í frv. um malbikun á mentaskólagarðinum. Jeg hefi ekki margt um þetta að segja. Vitanlega væri þessi till. og aðrar till. landlæknis, sem nefndar eru í nál., mjög æskilegar. En jeg get sagt það fyrir mitt leyti, að mjer finst margt kalla meira að, t. d. það, að setja miðstöðvarhitun í skólahúsið. Að því yrði bæði sparnaður og hollusta. Hjer er að vísu ekki um mikið fje að ræða, en þegar þess er gætt, hvað öðrum skólum er sniðinn þröngur skór, þá gat fjvn. ekki fallist á, að þetta væri aðkallandi. Og satt að segja hefði það næstum þótt hlægilegt í minni tíð í skóla, ef átt hefði að mylja þannig undir okkur.

Nefndin hefir fallist á það, að keypt yrði skuggamyndavjel og fleiri kensluáhöld til Akureyrarskólans, og vísa jeg um það til nál. Það er fullvíst, að náttúrufræðikennarinn, Guðmundur G. Bárðarson, hefir unnið mikið og óeigingjarnt starf með aðstoð lærisveina sinna um að bæta söfn skólans og kensluáhöld, og virðist því einsætt, að nokkuð eigi að koma á móti af ríkisins hálfu.

Jeg skal fara fáum orðum um 25. brtt. Fjvn. fjellst á till. stjórnarinnar um að veita 10 þús. kr. til aukningar Hólabúsins, en hún vildi, að um leið væri sett það skilyrði, að skólastjóri tæki sjálfur við því. Skólastjóri hefir ekki haft búið sjálfur að undanförnu, heldur annar maður, en hann mun nú vera á förum í vor.

Þá er till. um að veita 1000 kr. í stað 500 til kensluáhaldakaupa handa Hvanneyrarskóla. Hjer er um fjölsóttari skóla að ræða en Hólaskóla, og verður ekki annað sagt en sanngirni mæli með þessu.

Þá koma 6 þús. kr. til miðstöðvarhitunar og raflýsingar Blönduósskólans. Fjvn. varð að kannast við, að sá skóli hefði ekki verið neitt eftirlætisbarn Alþingis. Honum hefir ekki verið lagður stofnkostnaður neitt í líkingu við aðra hjeraðsskóla, en sýslurnar hafa staðið þar myndarlega undir, og nú er komin mjög farsæl reynsla um hið nýja skipulag hans. Þar eru ágætis kenslukraftar og fjölbreytilegri kensla en áður. Og þar á nú að hefja enn fjölbreyttari starfsemi en áður, svo sem með því að rækta í kringum skólahúsið og koma þar upp gróðrarstöð og garðyrkjukenslu, og mun Búnaðarfjelagið styrkja að einhverju þá umbótaviðleitni.

Þá koma þrjár till. um hjeraðsskóla. Er þá fyrst 20 þús. króna framlag, sem háttv. deild veit að er í beinu framhaldi af fjárveitingu í fyrra, sama upphæð og með sömu skilyrðum og í núgildandi fjárlögum og ætlað er til þess að reisa hinn nýja hjeraðsskóla í Árnessýslu. Það er nú svo langt komið, að lokaákvörðun verður tekin um það á 3. í páskum, hvar skólinn á að standa. Og meðal annars mun það ráðið, að besti kennimaður Árnessýslu verður skólastjóri, og er það vel farið.

Þá er önnur tillaga um lokastyrk til Hvítárbakkaskólans, og vísa jeg um það til nál. Er þetta gert til samræmis um stofnstyrk annara hjeraðsskóla. Borgfirðingar hafa lagt mikið á sig til að halda skólanum uppi, og nú ætlar formaður skólanefndar að flytja sig þangað búferlum, og er enginn efi á, að það verður skólanum til góðs.

Þá er þriðja fjárveitingin til skólans á Laugum í Þingeyjarsýslu. Jeg skal geta þess, að það er prentvilla í þskj., 2/3 í stað 2/5, sem er það hlutfall, er gilt hefir. Það lágu fyrir upplýsingar um skólann og reikningar, er sýna, að skólinn á sanngirniskröfu til þessa lokastofnstyrks. Mun ekki ofmælt, að þetta er einhver fullkomnasti hjeraðsskólinn. Annars getur hv. þm. S.-Þ. (IngB) gefið nákvæmari upplýsingar um skólann.

Þá kemur styrkur til húsmæðraskólans á Ísafirði. Styrkur til hans hefir um hríð verið í fjárlögum. Nú vill nefndin hækka hann um 1500 krónur. Annars vísa jeg um þetta til nál., en get þess aðeins, að nefndin hefir fengið góðar fregnir af skólanum.

Þá eru ekki fleiri brtt. við 14. gr., og kem jeg þá að brtt. við 15. gr.

Fyrir nefndinni lágu 62 erindi frá stofnunum og einstaklingum, og var þar á meðal fjöldi utanfararstyrkja. Nefndin hefir orðið allharðhent á þessum erindum, og bið jeg ekki afsökunar hennar vegna út af því. Hún hafnaði flestu, enda erfitt að gera upp á milli.

Kem jeg þá að 1. brtt. við þessa grein. Hún hefir engin aukin eða minkuð útgjöld í för með sjer, heldur er það aðeins orðalagsbreyting, gerð samkvæmt ósk þjóðskjalavarðar.

Önnur brtt. er gerð samkvæmt ósk fornmenjavarðar. Að vísu hafði hann farið fram á ýmislegt fleira safninu viðvíkjandi, en nefndinni fanst rjett að taka þetta til greina.

Þá er 3. brtt. við þessa grein, 3000 kr. til bókasafns Þingeyinga á Húsavík, og er það húsbyggingarstyrkur til minningar um Pjetur heit. Jónsson frá Gautlöndum. Það á nú að fara að reisa hús yfir hið myndarlega bókasafn Þingeyinga, og er sú bygging gerð til minningar um stofnendur og aðalstuðningsmenn þess, Pjetur Jónsson og Benedikt Jónsson frá Auðnum. Fjvn. fanst sjálfsagt að styrkja þetta, bæði vegna þess, að hjer er um myndarlegasta hjeraðabókasafn að ræða, og eins vildi hún heiðra minningu Pjeturs Jónssonar. En hún lækkaði þó þá upphæð, sem farið var fram á að fá til þessa.

Um 4. brtt. get jeg vísað til nál., því að engin ástæða er til þess að fjölyrða þar um. Nefndin áleit, að þegar styrkur til skálda og listamanna væri bútaður svo smátt sem verið hefir, þá kæmi hann að litlu gagni, og þess vegna vill hún, að þetta skilyrði sje í fjárlögunum, að engum sje veittur minni styrkur en 1000 kr.

5. brtt. er ekki annað en tilfærsla milli greina, þannig, að styrkur Hjálmars Lárussonar hins oddhaga færist aftur í 18. gr. Um þetta vísa jeg til nál. Þessi maður er heilsulaus öryrki, og nefndin áleit rjett, að hann fengi því ríflegri styrk sem dýrtíðaruppbót nemur.

Þá hefir nefndin orðið sammála um að fella niður þann styrk, er Ed. kom inn í fyrra til dr. Guðbrands Jónssonar fyrir að rita menningarsögu Íslands á miðöldunum. Fyrir nefndinni lágu umsóknir frá landsbókaverði og fornmenjaverði um ritstyrk. Nefndin treystist ekki til þess að sinna þeim, og því til samræmis vill hún fella niður þennan lið.

Næst er tillaga nefndarinnar um að fella niður styrkinn til Sveinbjörns Högnasonar. En hún er tekin aftur eftir nánari athugun, að fengnum frekari upplýsingum.

Þá er styrkurinn til Helga Briems, sonar Páls heitins Briems amtmanns. Það eru 1500 kr. til þess að ljúka námi í hagfræði. Hefir hann lagt stund á skattamál sem sjerfræði. Er landinu mjög nauðsynlegt að fá fræðimann í þessari námsgrein. Vill nefndin því fyrir sitt leyti styrkja þennan unga og efnilega mann við námið. Er þessi liður sambærilegur við styrkinn til Gunnlaugs Briems til sjerfræðináms.

Í fyrra lagði fjvn. til, að dr. Jóni Stefánssyni yrði veittur styrkur til þess að rita sögu Íslands á ensku, og átti hún svo að koma út í stóru ritsafni, þar sem dr. Jón hefir áður ritað sögu hinna annara Norðurlanda. Hefir hæstv. landsstjórn nú felt niður styrkinn, enda átti hann ekki að vera nema í eitt skifti. Dr. Jón Stefánsson kom á fund nefndarinnar og óskaði eftir, að styrkurinn yrði tekinn upp aftur, þar sem hann mundi verða lengur með þetta verk en nefndin hafði upphaflega gert ráð fyrir. En hann vill, að myndarlega verði frá því gengið. Samkvæmt ósk hans ber því nefndin fram þessa brtt., og er ætlast til, að styrknum verði þar með lokið.

Síðast í 15. gr. er svo tillaga um að fella niður lið þann, er nefnist í frv.: Ferðastyrkur til útlanda. Er ekki ástæða til þess nú fremur en áður að hafa þennan lið. Hefir hæstv. landsstjórn ætíð tekið slíka styrki upp í aukafjárlög, og má svo einnig gera hjer eftir. Lítur nefndin svo á, að með því að hafa slíkan lið standandi í fjárlögum sje ýtt undir um að veita slíka styrki, og er engin ástæða til þess að gera það.

Þá er komið að 16. gr. Lágu þar fyrir nefndinni 50 erindi, og skal jeg geta þess, að við þá gr. hefir nefndin sint hlutfallslega langflestum erindum. Eru því flestar og mestar hækkunartillögur við þá gr. Þykir mjer og hin mesta ánægja að bera fram og mæla með þessum tillögum.

Fyrsta tillaga nefndarinnar er að hækka liðinn til sandgræðslu um 15 þús. kr. Er hún gerð samkvæmt tillögum atvrh. og búnaðarmálastjóra, en var þó beiðni þeirra nokkru hærri en hjer er farið fram á. Get jeg að mestu vísað til nál. um þetta mál. Á nú að taka upp nýja stefnu í þessu máli, taka fyrir og girða stærri landssvæði en áður, og á að byrja austur í Rangárvallasýslu. Jeg skal benda á, að alt það fje, sem veitt er til sandgræðslu, fer til framkvæmda, því að stjórnarkostnaður er enginn. Atvinnumálaráðuneytið og Búnaðarfjelag Íslands annast yfirstjórnina án sjerstaks kostnaðar. Er gleðilegt til þess að vita, að alstaðar þar, sem lagt hefir verið fram fje til þessara framkvæmda, er árangurinn þegar orðinn ágætur. En allvíða mun þörf slíkra framkvæmda svo fljótt sem efni leyfa.

Þá er hjer tillaga um að hækka styrkinn til búnaðarfjelaga úr 15 þús. upp í 20 þús. kr. og láta honum fylgja athugasemd. Þetta er gamall kunningi, sem allir kannast við. Það hefir verið talað um það áður og háttv. Nd. ávalt verið sammála um að láta athugasemd þessa, er nefndin ber hjer fram, fylgja styrknum. Segir hún fyrir um, hvernig verja skuli styrkveitingunni. Hækkunin gerir það að verkum, að upphæðin er sú sama og í núgildandi fjárlögum, en stjórnin hafði lækkað hana um 5 þús. kr.

Næst er tillaga um að veita 32 þús. kr. til þess að kaupa fljótandi skurðgröfu. Hvað snertir þetta atriði get jeg að mestu vísað til nál. Er málið vel undirbúið. Hefir Búnaðarfjelag Íslands, samkvæmt beiðni áveitufjelagsins Freys í Skagafirði, látið rannsaka það, og verkfæraráðunautur þess skrifað eftir tilboðum um að smíða vjelina. Jeg skal benda á, að þarna er um fyrirtæki að ræða, er koma mun að almennum notum, því að þótt byrjað verði að nota hana á Staðar- og Víkurmýrum í Skagafirði, mun hún að sjálfsögðu verða notuð á svo mörgum stöðum sem hægt er. Enda mætti nefna marga fleiri staði en nú eru nefndir í nál. Upphæðin er miðuð við tilboðin, er Búnaðarfjelaginu bárust, og kostnaðinn við að koma vjelinni hingað. Og nú vill svo vel til, að maður sá, er væntanlega mun í fyrstu stjórna vjelinni, á erindi utan á sumri komanda, og mun hann því geta haft eftirlit með smíði vjelarinnar og geta lært að fara með hana. Þessi vjel er ekki ný að öðru leyti en því, að hún hefir útbúnað til þess að vinna seigan jarðveg og þarf, ef til vill, fleiri breytingar til þess að koma hjer að notum.

Næst er nýr liður, 5 þús. kr. til áveitufjelags Þingbúa, og er það ¼ kostnaðar við áveituna. Hjer er um sjálfsagt mál að ræða. Lágu öll gögn fyrir nefndinni. Verkið er fullgert og eru lokareikningar fyrir hendi. Hefir áveitan tekist ágætlega og gefur þegar af sjer arð. Jeg skal bæta því við, að að nokkru leyti er hjer um opinbera eign að ræða. En það hefir verið föst regla hingað til að styrkja slík mannvirki að einum fjórða hluta.

Næst er um allstóran lið að ræða, þar sem farið er fram á að veita til vegarlagningar í Vestmannaeyjum 17500 kr., gegn jafnmiklu framlagi frá Eyjarskeggjum sjálfum.

Er mjer sönn ánægja að mæla með þeim styrk. Það er gleðiefni, ef ríkið sem landsdrottinn getur stuðlað að því, að eitt stærsta sjávarútvegspláss landsins fái aðstöðu til þess að stunda jarðrækt og landbúnað í mun stærri stíl en áður. Hefir búnaðarmálastjóri rannsakað ræktunarmöguleika í Eyjunum og samið um það rækilegt erindi, er verður prentað í Búnaðarritinu. Hjer er um stórt land að ræða, sem skiftir jafnvel hundruðum hektara og er mjög vel hæft til ræktunar. Og til þess að opna þetta land er nauðsynlegt að leggja veg; en þessa vegar gerist ekki þörf til annara hluta. Var nefndin á einu máli um, að ríkissjóði væri skylt að leggja fram fje. En spurningin var aðeins um það, í hvaða hlutföllum skyldi veita það. Kom nefndin sjer saman um, að það yrði veitt á sama grundvelli og veitt er til engjaveganna um Flóaáveitusvæðið, þannig að ríkissjóður leggi fram fje að hálfu leyti. Allur kostnaðurinn við þessa vegarlagningu er talinn 60–70 þús. kr., og ætti því framlagið alls að vera um 35 þús. kr., sem kæmi þá væntanlega niður á tvö ár.

Jeg skal leyfa mjer að skjóta því fram frá mjer persónulega, að jeg áleit, að ríkið ætti að veita fjeð á öðrum grundvelli, sem sje þeim, að ríkissjóður legði fram 2/3 kostnaðar, sem er sambærilegt við það, að leiguliðum á landssjóðsjörðum er heimilt að láta 2/3 kostnaðar við jarðabætur koma upp í afgjald jarðarinnar.

Þá er næst tillaga viðvíkjandi skógræktinni, 4000 kr. framlag til þess að kaupa Sigríðarstaðaskóg í Suður-Þingeyjarsýslu. Hefir þetta legið fyrir fjvn. áður. Kom til hennar í fyrra erindi frá eiganda Sigríðarstaða, þar sem hann lætur skóginn falan fyrir 5000 kr. Nefndin hefir fengið upplýsingar um þennan skóg hjá, ýmsum kunnugum, þar á meðal frá búnaðarmálastjóra, sem ólst upp þar í nágrenninu. Má óefað telja, að hjer sje um eitt fegursta skóglendi á Norðurlandi eða jafnvel á öllu landinu að ræða, og vill nefndin því fastlega mæla með þessari tillögu.

Því skal ekki neitað, að sorglega er komið fyrir skógræktarmálum vorum, en sú var tíðin, að hin unga kynslóð vildi vinna að því máli með áhuga og kappi. Hefði verið í lófa lagið fyrir skógræktarstjórnina að ná samvinnu við hina ungu og áhugasömu menn í ungmennafjelögunum, og mátti af því vænta mikils árangurs. Því miður hefir reyndin orðið önnur. Samvinna hefir engin getað orðið milli skógræktarstjórnar og ungu kynslóðarinnar, af ástæðum sem eru kunnar. Árangurinn af hinni opinberu starfsemi hefir orðið lítill, og eins og sakir standa er því ekki óeðlilegt, að framlög af hálfu hins opinbera hafi minkað. Nú verður lítið annað gert en að stuðla að því að ríkið eignist góð skóglendi og að girða þau, sem það á fyrir. Svo verður að bíða betri tíma, og er gleðilegt, að til er ætlast samkvæmt frumvarpinu að fara að undirbúa ungan mann innlendan til að geta haft forystu um þetta þýðingarmikla framtíðarmál.

Þá leggur nefndin til, að við efnarannsóknastofuna komi nýr liður, 4200 krónur til aðstoðarmanns. Er gerð grein fyrir þessari till. í nál. Hjer er um stofnun að ræða, sem ætíð fær meiri og meiri verkefni að leysa en forstöðumaður hennar er langsamlega ofhlaðinn störfum. Fyrir utan hin auknu störf við efnarannsóknastofuna, hefir hann á hendi kenslu við háskólann, og það jafnvel meiri kenslu en sumir prófessorarnir. En það er ljóst, að þessi stofnun má síst af öllu komast í vanhirðu. Og þar sem nú er völ á hæfum aðstoðarmanni, verður nefndin að mæla eindregið með þessari fjárupphæð.

Næst er till. um að hækka liðinn til bryggjugerða úr 15 þús. upp í 35 þús. kr. Lágu fyrir nefndinni umsóknir frá sex stöðum um styrk til bryggjugerða, og ætlar hún þeim þessa upphæð. Lágu fyrir nefndinni nákvæmar upplýsingar frá öllum þessum stöðum. Aðrar umsóknir lágu ekki fyrir nefndinni, sem fullnægðu settum kröfum. Vísast til nál. um sundurliðun styrkjanna.

Endurveitingar eru til þriggja þessara staða. Eyrarbakka, Stokkseyrar og Húsavíkur. Hafa styrkir til þeirra verið áður samþyktir hjer í deildinni og er því óþarft að ræða frekar um þá. Þá eru hinir staðirnir. Stærsta fjárveitingin er þar til Akraness, 13 þús. kr. Lágu fyrir nefndinni fullnægjandi gögn, áætlun um kostnaðinn, sem verður alls 40 þús. kr., og álitsskjal frá vitamálastjóra um nauðsyn þessarar bryggjugerðar. Skal jeg lesa upp nokkur orð úr skjali hans. Jeg skal geta þess, að bryggjan á að vera á svokölluðu Lambhússundi. Þar segir svo:

„Það er staðreynd, að mótorbátar hafa þurft að liggja dögum saman á sundinu, án þess að geta afgreitt sig við þá bryggju, sem nú er á Akranesi, en mundu geta það við þessa, ef upp væri komin, og þyrftu þá ekki að sitja af sjer fiskirí í fleiri daga í annars færu sjóveðri. Á sama hátt væri hægt með mótorbátum að afgreiða stærri skip við þessa bryggju, þar sem það er ómögulegt við hina. Að öllu athuguðu virðist það vera knýjandi nauðsyn að fá þessa bryggju bygða, og því meiri sem bátaútvegur Akurnesinga vex.“

Þá er næst styrkur til Króksfjarðarness í Barðastrandarsýslu. Lagði hv. þm. Barð. (HK) tillöguna fyrir nefndina, og fylgdu meðmæli frá samgmn. Nemur styrkurinn 2 þús. kr. Annars getur háttv. þm. Barð. gefið frekari upplýsingar.

Þá er styrkurinn til bryggjugerðar í Haganesvík. Er búið að gera tilraun með, hvort bryggja fái þar staðið, og tókst sú tilraun vel. En án bryggju er afarerfitt að skipa þar upp. Þarna liggja einnig stór og mannmörg hjeruð, er sækja kaupstað í Haganesvík. Er því mjög bagalegt, að bryggju skuli vanta. En nú er fullráðið að ganga þar frá bryggju, og mun kostnaðurinn nema 5 þús. kr.

Þá er næst nýr liður, verðlaun til mjólkurniðursuðuverksmiðjunnar Mjallar í Borgarfirði, 2 kr. fyrir hvern kassa, 8 þús. kr. Er gerð grein fyrir þessari till. í nál. Vakti það deilur í fyrra, hvernig ætti að styðja verksmiðjuna, en niðurstaðan varð þá þessi. Ástæðan til þess, að upphæðin var ekki tekin upp í frv. nú, mun hafa verið sú, að verksmiðja Mjallar brann í haust og óráðið, hvernig færi um framtíð fjelagsins, þá er frv. var samið. En nú mun afráðið, að það starfi áfram, og þykir því tilhlýðilegt að veita því hin sömu verðlaun og áður.

Næst er svo hækkun á styrk til Ungmennafjelags Íslands. Lá fyrir umsókn um þús. kr., en nefndin vildi ekki fara hærra en upp í 3 þús. kr. Jeg álít óþarft að ræða þessa tillögu. Það er alkunnugt, hvílíkt gagn slíkur fjelagsskapur hefir gert bæði í sveitum og kaupstöðum, og mun nú aftur vera að færast nýtt líf í hann. Leggur því nefndin til, að þessi tillaga verði samþykt. Skal aðeins geta þess, að þessi styrkur er mun minni nú en áður var, vegna verðfalls peninganna.

Þá er loks tillaga um styrk til að koma upp vindknúinni rafmagnsstöð, 5 þús. kr. Er rækilega drepið á þetta í nál. Hjer er um nýmæli að ræða, er getur komið að miklu gagni, enda fengin reynsla fyrir því ytra. Komu tvær umsóknir, frá Ormssonum og Höskuldi Baldvinssyni rafmagnsfræðingum. Auk þess er hv. þm. Mýr. (PÞ) með þriðju umsóknina.

Nefndinni þótti nægilegt að styrkja aðeins eina tilraunina. Áleit hún, að líklegust væri umsókn Ormssona, þar sem þeir bjóðast til þess að útvega nægileg ljós fyrirhuguðu hressingarhæli í Kópavogi. Ef stöðin verður ekki reist, þarf rafmagn handa hælinu, sem mun kosta um 20 þús. kr. En hjer þarf aðeins 5 þús. kr. En að það er þó þetta mikið, kemur af því, að hælinu verða að vera trygð nægileg ljós, og því þarf þar meiri rafgeyma heldur en ef tilraunin væri gerð annarsstaðar.

Þá er loks síðasta brtt. við 16. gr. Þar leggur nefndin til að lækka fjárframlagið til skipulagsnefndar bæja og kauptúna úr 8 þús. og niður í 5 þús. kr. Telur hún óþarfa að verja meira fje til þessa en er í núgildandi fjárlögum. Var þessi liður alveg feldur niður í hitteðfyrra. Lítur nefndin svo á, að þetta sje ekki það nauðsynlegt, að það megi ekki bíða að nokkru, þar sem svo margt annað miklu þarfara verður að sitja á hakanum,

Þá er komið að 17. gr. Ber nefndin fram aðeins 4 brtt. við hana. Sú fyrsta er um að hækka styrkinn til Goodtemplarareglunnar eða til bindindisstarfsemi úr 6 þús. kr. upp í 10 þús. kr. Reyndar lá fyrir beiðni um mun hærri styrk, en samkomulag varð í nefndinni um þetta. Jeg geri ekki ráð fyrir öðru en að allir, sem vita, og það vita allir, hve drykkjuskapurinn hefir aukist hjer á landi í seinni tíð, einkum meðal yngri manna, að allir verði sammála um að styrkja bindindisstarfsemina. Það hefir verið oft látið klingja, að ef bannlögin yrðu afnumin, þá mundi fyrst bindindisstarfsemin njóta sín og þá mundi ekki skorta fjárframlög til hennar. En tillögum í þá átt hefir þó oftast verið tekið hryssingslega hjer á Alþingi. En jeg vil nú vona, að eins og fjvn. hefir fallist á þessa hækkun, muni háttv. deild einnig gera það.

Næst er hækkun til Rauða krossins úr 1 þús. upp í 2 þús. kr. Einnig hjer lá umsókn fyrir um hærri styrk. Það er kunnugt, að þessi fjelagsskapur er svo til nýr hjer á landi, en er þegar byrjaður að vinna hjer mjög þarft verk. Er honum stjórnað af áhugasömum mönnum. Get jeg hætt því við, að mikið fje er lagt fram af fjelagsmönnum. Þótti því nefndinni rjettmætt að koma hjer nokkuð á móti.

Þá eru tvær tillögur um fjárframlög til slysatryggingarsjóðs Dagsbrúnar og sjúkrasjóðs Fellshrepps. Hafa þessir liðir ætíð fylgst að, og hafa hæstv. atvrh. og háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) róið hjer á tveggja manna fari og tekist að láta styrki þessa fljóta hvorn á öðrum. Hefir nefndin fallist á þetta eins og áður.

Þá kem jeg að brtt. við 18. gr. frv. Þar eru fyrst tvær og eru báðar sjálfsagðar, þar sem bæði eru látin síðan frv. var samið. Þá eru og næst smástyrkir, einnig sjálfsagðir, til ekkna látinna merkismanna, er setið hafa á Alþingi, góðrar minningar, og ýmsir aðrir svipaðir styrkir, sem einnig verður að telja mjög rjettmæta. Þá er og liðurinn til Hjálmars Lárussonar sjálfsagður; þar er aðeins um tilfærslu að ræða, og hefi jeg getið um þennan lið áður.

Þá ber nefndin fram brtt. samkv. tilmælum biskups um styrk til uppgjafaprests, sjera Jóns Ó. Magnússonar, sem orðið hefir sjerstaklega hart úti um eftirlaun. Er hjer um alkunnan mætismann að ræða, hniginn að heilsu, og á þessi tillaga við fylstu rök að styðjast.

Þá hefir nefndin og lagt til að hækka tillagið til Friðriks Klemenssonar, og munu allir kannast við aðstöðu hans, og bætt við einum nýjum lið, til Einars Árnasonar fyrv. pósts, sem er farinn að heilsu. Er það aðeins smáupphæð.

Þá er ein háöldruð ljósmóðir, Þórunn Gísladóttir, sem nefndin leggur til, að tekin verði upp í fjárlögin, og er það einnig örlítil upphæð. Nefndin fjekk upplýsingar frá sjera Birni á Dvergasteini um konu þessa, og samkv. þeim er hún styrksins vel verð; hafði hún um alllangt skeið lagt stund á lækningar í Skaftafellssýslum, en gegnt ljósmóðurstörfum síðar um langt skeið og alstaðar getið sjer hið besta orð.

Þá er næst mætur maður, Páll sundkennari Erlingsson, sem nefndin vill að verði veitt smávægileg launahækkun; hann hefir áður samkv. 18. gr. haft 800 kr., en nefndin vill hækka það í 1200 kr. Hann er nú hniginn mjög að heilsu, en um æfistarf það, sem hann hefir afkastað, leikur ekki á tveim tungum, að það hafi verið hið nýtasta, og munu það vera fleiri en jeg einn, sem geta þakkað sundkenslu Páls lífið. Þessa brtt. verður að telja alveg sjálfsagða.

Þá er sjálfsagt, að tekið verði upp aftur í fjárlög ákvæði um heimild til lánveitinga til að koma upp íshúsum á kjötútflutningshöfnum, og ekki síst af því, að þingið nú nýlega hefir afgreitt lög um kæliskipsútbúnað í eitt af skipum Eimskipafjelagsins. Jeg geri ráð fyrir, að stjórnin hafi ekki tekið upp í frv. ákvæði um þetta vegna þess, að þegar frv. var samið voru skýrslurnar frá S. Í. S. um útflutningstilraunir á frystu kjöti enn ókomnar. Um hitt þarf ekki að ræða, að ríkissjóður beri kostnaðinn af þessum tilraunum á næsta hausti; það er svo sjálfsagt.

Þá er næst lánsheimild úr viðlagasjóði til Malínar Hjartardóttur, til kaupa á nýtísku prjónavjelum, og telur nefndin þetta sjálfsagt, ef fje er til. Hafa allmargir þm. sjeð iðnað þennan og ljúka miklu lofsorði á.

Þá er það síðasta brtt. um lánsheimild til mjólkurfjelagsins „Mjallar“ í Borgarfirði. Gamla lánið hefir þegar verið endurgreitt af brunabótafjenu, þegar hús fjelagsins brunnu á síðastl. hausti. Þetta er því aðeins endurábyrgð á láninu, þó nú sje um nýtt lán að ræða, og er eins sjálfsagt að veita þetta nú eins og þegar það var veitt í fyrstu. Fjelagið hefir þegar fengið allmikla reynslu í þessum iðnaði, og má því vænta alls góðs af því þegar það tekur til starfa aftur.

Þá hefi jeg lokið máli mínu að þessu sinni og skal ekki lengja þessar umr. frekar.