15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 961 í B-deild Alþingistíðinda. (487)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Frsm. (Árni Jónsson):

Allshn. hefir ekki getað orðið sammála um þessar brtt.

Þær hafa því ekki verið teknar til umr., og get jeg því ekkert sagt um þær frá nefndarinnar hálfu. Fyrir mitt leyti get jeg felt mig við fyrri brtt. á þskj. 327, og þar af leiðandi við fyrri brtt. á þskj. 345. Þm. úr Ed. óskaði eftir, að þessar till. væru fluttar, og fanst mjer ekkert á móti því, þar sem billiardstofur geta verið arðsamur atvinnuvegur. Aftur er jeg algerlega á móti hinum brtt.

Hv. flm. (JBald) lagði aðaláhersluna á síðari brtt. á þskj. 327, þar sem hert eru ákvæðin gagnvart þeim, sem gerst hafa sekir um brot á bannlögunum. Jeg skal ekki fara mikið út í þetta hjer, en jeg lít svo á, að ekki þurfi að gilda harðari ákvæði um þessi brot en önnur.

Einna fáránlegust finst mjer sú till., sem vill banna unglingum innan 18 ára aðgang að „billiard“-stofum. Jeg lít svo á þennan leik, að hann sje eitt af því, sem telja má ungs manns gaman, og það eru víst helst unglingar á þessum aldri, sem sækjast eftir þessari skemtun. Jeg er þessu að vísu ekki mikið kunnugur, en jeg veit ekki annað en hjer sje um saklausan leik að ræða, sem ekki sje nein ástæða til að telja skaðlegan fyrir unglinga á þessum aldri, þó að þeir hafi hann sjer til dægrastyttingar. Hjer skýtur bara upp einum anga af þessari alkunnu banngræðgi, sem þjáir suma menn. Þeir eru aldrei ánægðari en ef þeir geta komið inn einhverjum bannákvæðum. Það er eins og þeir hafi sjerstaka ánægju af að heyra brakið og brestina í þeim lögum, sem þeir láta frá sjer fara.

Jeg vona, að deildin felli þessar tillögur, því að af þeim mundi ekkert gott leiða.