15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 962 í B-deild Alþingistíðinda. (488)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg hafði gert mjer von um, að frv. þetta gengi breytingalaust fram. Mjer brá því í brún, þegar jeg sá hóp af brtt., og einkum þar sem sömu nöfnin voru við þar allar. Mjer þykir skrítið, að þær skyldu ekki allar fluttar á sama þskj., en það er nú aukaatriði.

Jeg tel enga þessara brtt. nauðsynlega. Jeg sje ekki ástæðu til, að tekinn sje skattur af billiardstofum sjerstaklega. Með því væri farið út fyrir þann ramma, sem miðað er við, því að með frv. er verið að skatta atvinnurekstur, en ekki skemtanir. Jeg held, að fyrir flm. till. vaki það, að þeir haldi, að venjulega sjeu reknar veitingar í sambandi við billiardstofur. Þar sem svo er, falla þær undir þessi lög. En ef billiardstofur eru reknar án veitinga, finst mjer ekki ástæða til að leggja á þær skatt. Jeg tel ekki þennan leik saknæmari en hverja aðra skemtun.

Síðari hluta brtt. á þskj. 327 get jeg ekki heldur fallist á. Hjer er farið lengra en annarsstaðar, ef 1. brot skal varða atvinnumissi. Mjer skildist hv. 2. þm. Reykv. (JBald) líta svo á, að 3 ný brot þyrfti til þess að fyrirgera leyfi samkv. 6. gr. frv. Jeg lít svo á, að taka megi eldri brot til greina, þannig, að sá, sem tvisvar hefir brotið áður en leyfi var veitt samkv. þessum lögum, missi rjett sinn við 1. brot. Samanborið við önnur lög tel jeg of hart, að sá, sem ekki hefir orðið brotlegur áður en leyfi var veitt, missi rjett sinn við 1. brot.

Að banna unglingum yngri en 18 ára að sækja jafnsaklausa skemtun og „billiard“ finst mjer ástæðulaust. Jeg er viss um, að sá leikur er yfirleitt minna spillandi en t. d. bíó. Það mundi líka erfitt að framkvæma slík ákvæði, og það er altaf varhugavert að setja í lög það, sem enginn nauður rekur til.

Jeg sje ekki, að 15. gr. frv. sje bætt með því að setja inn í frv. orðin „eða annað“. Jeg vil spyrja háttv. flm., hvað er þetta „annað“, sem um er að ræða? Ef með þessu er átt við billiard, hví á þá ekki að taka það fram? Því að ella má heimfæra þessi orð upp á margt fleira, t. d. meðalasölu o. fl., sem leyfisbrjef þarf til að selja. (PO: Það er átt við eftir þessum lögum). Ef svo er, þá getur það aðeins átt við billiard, og hví á þá ekki að taka það fram berum orðum? Þetta er mjög óviðkunnanlegt orðalag á brtt. Jeg verð því að leggja á móti þessu, eins og öllum breytingartillögunum yfir höfuð, og jeg vænti þess, að háttv. deild samþykki frv. óbreytt, svo að það geti orðið afgreitt í dag sem lög frá Alþingi.