15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 964 í B-deild Alþingistíðinda. (489)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Jón Baldvinsson:

Mjer þykir vera orðinn allmikill úlfaþytur út af þessum brtt. mínum og háttv. þm. Borgf. (PO); svo harðlega hafa menn ráðist á þær.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) og hæstv. atvrh. (MG) vaða fram á vígvöllinn og geta vart fundið nógu sterk orð til þess að mála fjandann á vegginn, er þeir lýsa brtt. okkar.

Hæstv. atvrh. (MG) er jafnan viðkvæmur, ef honum finst eitthvað hróflað við frv. hans, en menn kippa sjer nú ekki upp við það; menn eru orðnir því svo vanir, að hann þoli ekki að einu einasta orði sje haggað hjá sjer. En hann verður samt að una við þetta, og hann má þakka fyrir, að ekki er hreyft við aðalatriðum frv., því það er þó viðurkenning þess, að hann hafi þar eitthvað til síns máls, eða að málið sjálft sje einhvers virði. Hann ræddi um brtt. 327 og 345 og spurði, hvers vegna þetta atriði var sjerstaklega tekið fyrir. Jeg skal upplýsa hann um það, að þetta er samkv. tilmælum, sem einum alþm. í hv. Ed. hafa borist úr kjördæmi sínu. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg lesa hjer upp kafla úr brjefinu, sem er orsök til þess, að brtt. eru fram komnar. Brjefkaflinn er svo hljóðandi:

„Hjer er mentastofnun ein, sem nefnist „billiard“, og kemur að gagni hina mörgu landhelgisdaga, sem verið hafa í vetur. Hitt sýnist minni þörf, að draga þangað smádrengi með þá fáu aura, sem þeir hafa, hvernig sem fengnir eru. Að þessu komst jeg í dag áþreifanlega. Fann bæjarfógeta að máli í dag, og kvað hann vanta alveg ákvæði í lög til að banna þessa veiðiaðferð.“

Þetta er ástæðan til brtt., og þeir eru fleiri en þessi maður, sem vita, að ballskákstofur eru einskonar „letigarður“ fyrir unglinga þá, sem þangað venja komur sínar. Það vita margir um það, að þar eru að venju allófögur læti í þessum skákstofum, og það er til lítillar „uppbyggingar“ fyrir unglinga að dvelja þar.

Hæstv. atvrh. fann að orðalagi brtt. 345. Það er auðvitað, að brtt. á við frv., er bætt hefir verið inn í það ákvæðum um ballskákir, og hæstv. ráðherra veit vel, að þetta tekur ekki til annara laga. Í raun og veru voru aðfinslur hæstv. atvrh. ekkert annað en útúrsnúningur, og nenni jeg ekki að eltast við það.

Hv. 2. þm. N.-M. (ÁJ) komst í æsing, er hann fór að minnast á þessa „bann“tillögu okkar háttv. þm. Borgf. (PO), og hann kallaði okkur banngráðuga og bannæsingamenn. Það mætti alveg svara hv. þm. (ÁJ) í sama tón og segja, að hann vildi helst hafa alt stjórnlaust, þ. e. a. s. vildi hvergi láta setja neinar takmarkanir í löggjöfinni um það, hvernig menn mega hegða sjer. Ef hann skipar mjer og háttv. þm. Borgf. (PO) í flokk hinna stjórnlyndu, þá sje jeg ekki betur en að hv. þm. verði, eftir kenningu fjrh., að teljast í flokki stjórnleysingja.

Það er annars undarlegt með suma menn, að það er eins og þeir sleppi sjer alveg, ef bornar eru fram tillögur til að bæta eftirlitið með bannlögunum, eða tillögur, sem reyna að hefta ólöglega vínsölu. Ekki þykjast þeir þó vera andbanningar, og ávalt eru þingmenn annaðhvort „hlyntir“ bannlögunum eða stækir bannmenn, þegar komið er til kjósendanna í landinu og kosningar standa fyrir dyrum. Miklu drengilegra væri að koma hreint fram, segjast vilja afnema öll vínbannslög og allar takmarkanir um sölu áfengis. Í því væri meira samræmi heldur en að vera bannfjandi á þingi, en bannvinur og augnaþjónn kjósenda utan þings.