29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 209 í B-deild Alþingistíðinda. (49)

1. mál, fjárlög 1927

Sveinn Ólafsson:

Jeg hefði heldur kosið að þurfa ekki að taka svona fljótt til máls, en þó skal jeg ekki láta á mjer standa, úr því að hæstv. forseti hefir engan framar á mælendaskrá.

Jeg ætla mjer ekki að halda neinn búkonufyrirlestur um sparnað að þessu sinni; þess tel jeg sem sje ekki þörf, er aðrir hafa svo fagurlega um hann mælt, og jeg býst ekki við, að þeir mundu láta skipast af sparnaðaráminningum frá mjer, sem svo eru stórtækir, að vilja leggja í miljóna járnbrautarfyrirtæki, svona eins og dálitla aukagetu úr ríkissjóði.

Jeg þarf ekki að færa háttv. fjvn. neitt þakkarávarp fyrir undirtektir hennar við mín erindi. Svör hefi jeg engin fengið ennþá frá háttv. nefnd um þau erindi, en vera má, að þau komi síðar. Jeg tek það samt fram, að jeg ætla ekki að deila neitt á hættv. fjvn. Yfirleitt kannast jeg við, að hlutverk hennar er mjög erfitt, og víðast get jeg orðið henni samferða um till. á þskj. 184. Það, sem á milli ber, kemur fram við atkvæðagreiðslu. En við það vil jeg kannast, að um margt hafi nefndin sýnt hyggindi og forsjá í till. sínum.

Að svo mæltu verð jeg að víkja að þeim till., sem jeg er við riðinn í þessum kafla fjárlaganna.

Sjálfur á jeg aðeins 2 brtt., en auk þeirra eru aðrar tvær brtt., sem jeg er meðflm. að, ásamt öðrum háttv. þdm.

Fyrsta brtt. mín er á þskj. 230, XVII, við 14. gr. Það er aðeins lítil aths., sem jeg fer fram á að verði bætt við þennan lið í fjárl., þ. e. að heimila, að helminginn af þeim 600 kr., sem ætlaðar eru til að halda uppi búnaðarnámsskeiði við Eiðaskóla, megi nota til verðlauna handa nemendum, sem sýnt hafa alúð við námið. Skólastjóri hefir sjálfur óskað eftir að mega verja þessu fje þannig, og jeg veit til þess, að undanfarið hefir hann greitt nokkurt fje í þessu skyni úr eigin vasa, til þess að örva nemendurna til náms. Það er því alveg útlátalaust að samþykkja þetta, því hjer er ekki um neina nýja fjárveitingu að ræða.

Þá er næsta brtt., á sama þskj., XVIII, sem jeg flyt ásamt hv. þm. V.-Sk. (JK). Hún er um það að veita 2500 kr. til að rita og safna gögnum til menningarsögu. Það er sjálfsagt öllum háttv. þm. kunnugt, og munu þeir enda hafa veitt því eftirtekt, að einmitt á síðustu 70 árum — eða frá því um miðja síðastl. öld — hafa gerst meiri breytingar á þjóðlífi voru en nokkurn tíma áður á jafnstuttum tíma. Á þessu tímabili hefir orðið fullkomin bylting og alhliða bæði í andlegum efnum og veraldlegum. Hugsunarháttur fólksins, menningargögn, uppeldisvenjur, trúarbrögð, búnaðarhættir, híbýlahættir, klæðaburður o. fl., alt hefir þetta umturnast á örstuttnm tíma: en í endurminningu þeirrar kynslóðar, sem nú er í þann veginn að deyja út, teymist ennþá margt, sem tilheyrir horfinni kynslóð og hennar menningu. Kynslóðin sem nú er að hverfa, hefir lifað viðreisnartímann allan frá 1874 og man jafnvel margt frá því um 1850. Á þeim tíma var enn margt við lýði af fornum þjóðháttum, sem menningarsögulegt verðmæti hefir og lítið sem ekkert hefir verið skráð um. Sá fróðleikur má eigi glatast komandi kynslóðum, því að þess má vænta, að sumt af því, sem nú er vanrækt og lagt fyrir óðal, verði síðar tekið upp af nýju í einhverri mynd. Því er nefnilega svo varið, að meðan byltingin stendur yfir, eru menn alt of flaumósa til að gefa gaum þeim einstöku menningarþáttum, sem forgörðum fara af vangá, en hagnýir eru á öllum tímum. Svip útlendrar kaupstaðamenningar ber nú á hvarvetna hjá oss, og með honum afmást smámsaman forn og frumleg þjóðareinkenni. Frændþjóðir vorar á Norðurlöndum hafa lagt meiri alúð en vjer við að safna og geyma alt það, sem lýtur að hinni fornu bændamenningu, sem þar er horfin eða að hverfa. Þeir gefa meiri gaum þeim þjóðlegu háttum, sem þróast hafa meðal bændanna um langan aldur, en vjer. En yrði nú að því horfið að safna með vandvirkni öllum þessum menningarsögugögnum, mætti það verða eftirkomendum vorum til ómetanlegs gagns og jafnvel til fyrirmyndar.

Mjer dettur í hug að nefna t. d. þrjú atriði, sem koma hjer til greina við söfnun þjóðlegra fræða. Allir, sem kunnugir eru í sveitum eða hafa dvalið þar langvistum, vita það, að til er hjer á landi þjóðleg og forn veðurfræði. Það var ráðið veður eftir útliti lofts, láðs og lagar, háttum fugla og annara dýra og fleiru. Nú er á þetta litið eins og fávisku og forneskju. Í staðinn er komin hávísindaleg veðurfræði, sem auðvitað hefir mikla yfirburði yfir þá fornu, og nú er verið að koma hjer á fót sjerstakri veðurstofu. En enginn hefir ennþá rannsakað það, hve margt í þeirri fornu og þjóðlegu veðurfræði hafði við rök að styðjast, eða hitt, hve vel hún skerpti eftirtekt þeirra, sem hana stunduðu.

Annað atriðið er þjóðleg og forn læknisfræði. Um miðja fyrri öld var fátt um lækna hjer á landi, aðeins landlæknir og 3–4 læknisfróðir menn aðrir. Þá stunduðu ýmsir reyndir menn lækningar, þótt ólærðir væru, og bygðu um margt á aldagamalli reynslu. Enginn veit nú neitt með vissu um það, hvað mikið í þessum fornu fræðum var á rökum bygt eða hvað mikið var aðeins hjátrú og hindurvitni.

Þriðja atriðið er ein tegund þjóðlegra skemtana, sem háskólakennari Sigurður Nordal vakti nýlega athygli á í tímaritsgrein, sem hann nefndi „Íslensk yoga“, ef jeg man rjett. Veit jeg ekki til, að aðrir hafi fyr athugað þessi þjóðlegu yogafræði, sem annars mun miklu meira af en í nefndri ritgerð er talið. En það er víst, að ýmislegt af þesslegum æfingum og skemtunum var bygt á hugvitslegum ályktunum.

Þetta alt, sem jeg hefi nefnt, er ástæða til að taka til athugunar og ýmislegt fleira, sem ennþá er geymt í minnum gamalla manna. Hjer hefir að vísu verið safnað þjóðsögum og kveðskap, sem að góðu gagni mun koma síðar meir, þegar fræðimenn vilja rannsaka þessi efni. Eru ýmsir aðrir flokkar þjóðlegra fræða, sem lítt eða ekki hefir verið hugsað um. Jeg þekki aðeins til tveggja nýlátinna fræðimanna, sem hafa dregið saman nokkuð af þessu efni og munu hafa látið eftir sig nokkur söfn af þessu tægi; það eru þeir sjera Jónas heitinn frá Hrafnagili og Þorvaldur prófessor Thoroddsen. Jeg veit, að Thoroddsen lagði hug á söfnun þessara hluta, er hann var kennari við gagnfræðaskólann á Möðruvöllum, og ljet hann lærisveina sína rita um ýmsar sveitavenjur og erfikenningar, hvern úr sínu hjeraði, og dró þetta svo saman. Hygg jeg, að í söfnum þeirra sjera Jónasar og hans megi margt af fornum fróðleik finna.

Til þess að fjárveiting þessi komi að fullu gagni, verður einhver að hafa forystu og framkvæmd um starfið og varðveita það, sem safnað er. Við flutningsm. gerum ráð fyrir, að þetta verk verði falið landsbókaverði og þjóðminjaverði. Líklega hefði þó best farið á því að 3. maðurinn til framkvæmda hefði verið aðalsögukennarinn við háskólann, en þetta er fyrirkomulagsatriði, sem síðar mætti ákveða, ef fjeð verður veitt.

Verkefni þessara forystumanna ætlumst við flm. til, að verði í því fólgið að leita uppi fróða menn, helst aldraða og reynda, víðsvegar um land, og fá þá til að rita um þessi efni. Ritsöfn þau og endurminningar gamalla manna, sem menningarsögulegt gildi hafa, ætlum við svo þessum forystumönnum að meta og greiða ritlaun fyrir af því fje, sem veitt kann að verða; en síðan verði ritsöfn þessi eign landsskjalasafnsins og geymist þar til afnota þeim, er síðar takast á hendur að rita menningarsögu, umfangsmeiri og stærri en til þessa hefir skráð verið.

Jeg hefi fundið ástæðu til að fjölyrða nokkuð um þetta vegna þess, að hjer er um nokkuð nýnæmislegt efni að ræða, sem till. sjálf skýrir ekki nógsamlega. Hugði jeg hv. þdm. fúsari að styðja þetta með atkv. sínu, er stefnu og tilgangi till. væri nánar lýst.

3. brtt. er XXI. á þskj. 230 og fer fram á, að veittar verði 3 þús. kr. til Þórarins Jónssonar tónlistarnema í Berlín. Jeg fór fram á þetta sama á síðasta þingi, en fjekk þá enga áheyrn. Í það skifti lágu fyrir, eins og nú, ágæt meðmæli með þessum manni og upplýsingar um hann og starf hans, sem jeg verð að segja, að eru í raun og veru mjög frægilegar. Nú að þessu sinni var sótt um 6 þús. kr. námsstyrk honum til handa í erindi til fjvn. Hún hefir, eins og þegar er búið að skýra frá, ekki sjeð sjer fært að verða við þeirri beiðni. Og fyrir þá skuld hefi jeg leyft mjer að koma fram með þessa brtt. og hefi fært upphæðina niður um helming í 3 þús. kr.

Jeg tek það fram, að þessar 3 þús. kr. eru aðeins, ef svo mætti segja, dálítil viðurkenning, en engan veginn sá námsstyrkur, sem maðurinn hefir þörf fyrir. Hann hefir nú um þrjú ár stundað tónlistarnám, fyrst tvo vetur í Reykjavík undir handleiðslu þektra tónlistarmanna og hlotið eindregið og mikið lof hjá þeim. En á síðasta ári hefir hann stundað námið í Brunsvick á Þýskalandi og sumpart í Berlín, á tónlistarháskóla, kominn þangað eftir margar erfiðar brekkur, sem hann hefir orðið upp að klifa. Námið hefir hann til þessa stundað með fjestyrk nokkurra vildarmanna. Hann er umkomulaus og fjelaus og varð á uppvaxtarárunum að vinna fyrir fátækri móður og yngri systkinum. Fjelaus varð hann því að draga út á djúpið, til þess að afla sjer frama í þeirri grein, sem hann er hneigður fyrir, þegar hann var kominn yfir tvítugsaldur. Af eigin ramleik gat hann það ekki, eins og jeg áður tók fram, heldur hefir hann notið hjálpar óskyldra vina sinna og vildarmanna á Austurlandi, sem meta kostgæfni hans og hæfileika og hafa stutt hann alt að þessu. Honum hefir þannig verið lagt til alls, sumpart í lánum, sumpart í styrk, fram að þessu um 11 þús. kr. Það er því ljóst, að þetta er ekki nema lítil upphæð, sem beðið er um, lítilfjörlegur styrkur móts við aðalframlögin, svo hann geti fremur náð því marki, sem hann hefir sett sjer. Og jeg verð að segja, að hann er meira til uppörvunar heldur en til hjálpar yfir erfiðleikana. En jeg skal líka geta þess, að jeg veit, að þeir, sem hafa styrkt Þórarin að þessu, munu ekki sleppa af honum hendi eftirleiðis. Þeir munu í lengstu lög reyna að hjálpa honum til þess að ná settu marki. En mjer finst það vera sæmdaratriði fyrir Alþingi að sýna honum einhverja viðurkenningu, því hann á hana vissulega skilið. Ekki aðeins fyrir það, að hann er, ef til vill, sá allra færasti og efnilegasti maður í sinni grein, svo sem jeg síðar mun sýna, heldur vegna hins, að hann úr helberri örbyrgð og fátækt hefir brotist áfram með karlmannlegum kjarki og er kominn langt á listabrautinni. Jeg veit, að fyrir Þórarni vakir sá drengilegi metnaður, að geta lagt boðlegt tónverk — helst meistaraverk — á borðið fyrir þá, sem lifa 1930, verk, sem gæti velgt einhverjum um hjartaræturnar á þeirri hátíðlegu stund, sem þá rennur upp yfir þessa þjóð. Náttúrlega er ekki víst, að honum auðnist þetta eða að æfin endist, en það veit jeg, að þetta er eftirlætishugsjón, sem fyrir honum vakir.

Enn sem komið er hefir Þórarinn engrar opinberrar viðurkenningar notið, nema þeirrar, sem jeg þakklátlega vil viðurkenna, að stjórnin veitti honum 300 kr. af því fje, sem úthlutað var af listamannastyrk þessa árs í febrúarmán. síðastl. Mjer er kunnugt, að þessi litla upphæð, sem fjell í hlut Þórarins, var honum mikil uppörvun og gleðiefni. Hefi jeg heyrt frá honum, að hann langi að launa hana áður langt líður með einhverju boðlegu tónverki, sem sendist hingað.

Jeg vil geta þess, að þótt Þórarinn sje byrjandi í tónlistarháskólanum í Berlín, þá er hann búinn að ljúka af einskonar þrekvirki í sinni grein. Jeg hygg, að hv. þdm. hafi veitt eftirtekt lítilli grein, sem stóð í Morgunblaðinu síðastl. sunnudag, þar sem skýrt var frá tónverki einu — tvífúgu svo nefndri — sem spilað var í Garnisonskirkjunni í Potsdam 5. febr. síðastl. og var eftir Þórarin. Í Potsdamer Tageszeitung frá 8. febr. eru mjög lofsamleg ummæli um þetta tónverk hans og þaðan eru að nokkru leyti tekin ummælin um Þórarin í nefndri grein Morgunblaðsins. En fiðlusnillingur að nafni Wollner, sem ljek tónverkið 5. febr., hefir ákveðið að leika það í Köln og víðar.

Það er af þessu auðsjeð, að þessi byrjandi í listinni er kominn það á veg, að nafn hans er frægt orðið út um þýskumælandi lönd, og víðar ef til vill.

Jeg vil ekki tefja tímann með því að fara að lesa hjer upp meðmælaskjöl þau, sem fylgja umsókn Þórarins; þau eru hjer harla mörg fyrirliggjandi; en hver, sem vill, getur fengið að kynna sjer þau. Meðmælin eru meðal annars frá kennara hans próf. Fr. Koch og fiðlaranum E. Schacht, sem hjer dvaldi fyrir tveim árum. Ennfremur frá innlendum tónfræðingum, svo sem Páli Ísólfssyni og fleirum. Sömuleiðis frá ýmsum dómhæfum mönnum, sem kyntust Þórarni austur á landi og hjer syðra. Frekar skal jeg ekki fjölyrða um þetta, enda hygg jeg, að mörgum hv. þdm. sjeu kunn ýms af þessum skjölum. Mjer finst jeg mega fastlega vænta þess, að hv. þdm. vilji sýna þessum efnilega listamanni okkar dálitla viðurkenningu.

Þá kem jeg loks að síðustu brtt., sem nafn mitt er tengt við; hún er XL. liður á þskj. 230, brtt. við 23. gr. Jeg flyt þessa brtt. ásamt háttv. 1. þm. N.-M. (HStef), og förum við þar fram á, að ríkisstjórnin ábyrgist lán fyrir tóvinnufjelag á Reyðarfirði, að upphæð 25 þús. kr. Tóvinnufjelag þetta er verið að stofna, og er tilætlunin, að það geti tekið til starfa á næsta hausti. Ýmiskonar undirbúningur hefir verið framkvæmdur í vetur, og hugmyndin er, að þarna verði reistar kembingar- og lopavjelar, nokkuð í líkingu við þær, sem starfa hjer í bæ, og þær, sem starfað hafa síðustu tvö ár á Húsavík. Áætlað stofnfje er 50 þús. kr. Fer fjelagið fram á ábyrgð ríkisstjórnarinnar á láni, sem svarar helmingnum af þessari upphæð. Við flm. vildum ekki fara fram á lán úr viðlagasjóði, með því viðsjála skilyrði, að það skyldi veitast, ef fje yrði fyrir hendi. Okkur þótti rjettara að fara þessa leið og láta fjelagið sjálft um að útvega sjer lánið.

Engin hætta getur til greina komið vegna slíkrar lánsábyrgðar, því að bæði er hjer um lítið fje að ræða, og í öðru lagi er stjórninni innan handar að heimta þær endurtryggingar, sem hún telur óyggjandi. Meðan verið er að koma fyrirtækinu á fót er mjög mikils vert að geta stuðst við lánsfje að einhverju leyti og þurfa ekki, jafnframt og stofnfje verður að öðru leyti lagt fram og rekstrarfje til byrjunar, að hafa allan stofninn í einu undir til greiðslu.

Á síðasta þingi var veitt fyrirheit um samkynja stuðning við tóvinnufjelag á Vestfjörðum, þó með þeim mun, að gert var ráð fyrir, að lánið yrði veitt úr viðlagasjóði. Jeg vona því, að hv. þdm. sjái ekkert varhugavert við það að hlaupa undir bagga með þessu fjelagi á líkan hátt, og síður varhugavert, þar sem aðeins er um ábyrgð að ræða, en ekki framlag. Þess vegna er heldur ekki hjer nein ívilnun að því er snertir lága vexti eða langan afborgunarfrest.

Að því er kemur til brtt. annara háttv. þdm., sem jeg felli mig ekki við, þá læt jeg mjer nægja að gera grein fyrir aðstöðu minni með atkvæðinu.