15.04.1926
Neðri deild: 54. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 966 í B-deild Alþingistíðinda. (490)

9. mál, veitingasala, gistihúshald o. fl.

Frsm. (Árni Jónsson):

Háttv. 2. þm. Reykv. (JBald) kvartaði yfir því, að jeg hefði viðhaft stór orð og komist í hita, er jeg talaði um brtt. hans áðan. Þetta er rjett, jeg get vel komist í hita, þegar um slík mál og þessi er að ræða, því að þetta á sjer djúpar rætur í eðli mínu og lífsskoðun. Jeg get vel gert þessum háttv. þm. það til geðs, að lýsa því yfir fyrir hann, að þó jeg sje ekki stjórnleysingi, er langt frá því að jeg sje stjórnlyndur, og jeg tel mjer sóma að því. Hv. þm. (JBald) talaði um þá þm., sem væru bannmenn aðeins er þeir töluðu við kjósendur. Þetta snertir mig ekki; því jeg hefi aldrei talið mig bannmann. En um það er heldur ekki að ræða hjer, og hjer er ekki afnám á bannlögum til umræðu. Þvert á móti er það einhver banngræðgi og bannofstæki, sem hefir gagntekið hugi manna, og þessar brtt. hjer eru aðeins tilraunir til að ganga enn nær persónufrelsi manna en þó hefir verið gert áður, og var þó síst á bætandi. Þetta bann gegn saklausri skemtun, sem unglingar leggja stund á, nær ekki nokkurri átt.

Mjer þykir það annars undarlegt, að hv. 2. þm. Reykv., sem ár eftir ár og þing eftir þing hefir barist fyrir því, að unglingar um tvítugsaldur fái kosningarrjett og þátttöku í opinberum málefnum, að hann, þessi sami þm., nú vill telja 18 ára unglinga svo óþroskaða, að þeir geti ekki sjer að skaðlausu lagt stund á jafnmeinlausa íþrótt og billiard er. Hann berst fyrir því, að allir tvítugir unglingar fái kosningarrjett, en þó telur hann þá vera óþroskuð börn 18 ára. Það er ekki svo lítil framför til þroska, sem þessi hv. þm. gerir ráð fyrir, að eigi sjer stað á 2–3 árum, ef unglingarnir þá eru orðnir færir um að dæma um vandamál þjóðarinnar.

Hv. þm. (JBald) talaði um, að þetta væri óviðeigandi veiðiaðferð til að plokka fje af unglingum, sem sækja billiardstofur, en hann hefir ekkert við það að athuga, þó fjölskyldumenn eyði kaupi sínu, máske hverjum eyri, til þessa. Ef hann væri í raun og veru hræddur um, að hjer væri um fjárglæfra að ræða, væri honum miklu nær að koma fram með till. um að banna billiard með öllu hjer á landi.