29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 218 í B-deild Alþingistíðinda. (50)

1. mál, fjárlög 1927

Forsætisráðherra (JM):

Það er ekki margt, sem jeg þarf að tala um við þessa umræðu. Jeg skal nefna einstaka liði í brtt., sem mjer finst þó, að jeg þurfi að athuga lítillega.

Jeg er hv. fjvn. þakklátur fyrir það, að hún hefir tekið upp nokkra uppbót til dómkirkjuprestsins í Reykjavík, vegna skýrslugerðar. Það er mjög sanngjarnt og rjett, að dómkirkjupresturinn hafi eitthvað meiri laun heldur en hinn presturinn. Enda var það svo, áður en þessi launalög komu, að dómkirkjupresturinn hafði dálítið hærri laun en aðrir prestar, enn hærri viðbót en hjer er farið fram á.

Þá held jeg það sje mjög rjettmætt að veita Ögurþingum erfiðleikauppbót. Það er ekki ofsögum sagt af því, hvað örðugt er fyrir prestinn eins og nú stendur — og líklega verður framvegis — að þjóna þessu prestakalli.

Þar á móti get jeg ekki sagt, að jeg sje þakklátur háttv. fjvn. fyrir brtt. um að fella burt fjárveitingu til að malbika mentaskólagarðinn. Þetta er gömul ósk, að fá hann malbikaðan eins og barnaskólagarðinn, sem var gert fyrir löngu. Og það er mikil þörf á þessum umbótum.

Jeg fellst alveg á það, sem fjvn. hefir lagt til um skömtun — í nokkuð stórum skömtum — á fje því, sem veitt er handa skáldum og listamönnum. Jeg ljet þetta í ljós í viðtali við hv. nefnd. Það er betra, að umsækjendur viti það fyrirfram, að skamtur þessi er ekki ætlaður mjög mörgum.

Hv. frsm. sagði — sem jeg er honum þakklátur fyrir — að það hefði verið örðugt eins og á stóð að fara öðruvísi að en gert var, að skamta smátt. Og jeg held það væri tiltækilegra og betra að hafa þetta þannig í framtíðinni, eins og háttv. fjvn. vill, að hafa skamtana stærri.

Jeg held það hafi ekki verið vel ráðið hjá nefndinni að vilja fella burt ferðastyrkinn handa mönnum til þess að sækja ýmsa fundi erlendis. Það er oft svo, að það er varla hægt að komast hjá því að senda menn til útlanda á ýmsa fundi, svo sem nú tíðkast. Sambandið við önnur lönd, og þá sjerstaklega Norðurlönd, er orðið þannig, að undan þessu getur varla orðið komist. Og það hefir verið svo einatt, að það hafa komið fjölmargar umsóknir til þingsins á hverju ári um utanfararstyrki, og tekið býsna mikinn tíma. Oft hefir fengist meira og minna af þeim, en oftar held jeg, að engin úrlausn hafi verið gerð. Það er mjög leiðinlegt að þurfa að vera að tala fram og aftur um þessi mál. Miklu betra að hafa ákveðna fjárveitingu í fjárlögum. Jeg held það væri bara búhnykkur af Alþingi að ákveða einhverja fasta fjárhæð til þess að veita sem ferðastyrk til útlanda, og ekkert þar framyfir. Vitanlega verður sú fjárhæð bindandi, en ekki áætlunarupphæð. Jeg er að vona, að nefndin, þegar hún hefir athugað þetta nánar, geti sannfærst um það, að það er eiginlega það rjetta að láta þessa fjárhæð standa í fjárlögum. Hún er ekki svo stór, að miklu muni, en sparar tíma þingsins. Auk umr. tekur það tíma að lesa öll skjöl þeirra, sem biðja um utanfararstyrki. En margar af slíkum beiðnum mundu fljótt falla burt, þegar menn væru búnir að sannfæra sig um það, að aðeins þessi veiting, sem stjórnin hefir í fjárlögum, yrði notuð til þeirra hluta. Jeg furða mig á því, að hv. nefnd skuli vilja fella styrkinn burtu. Ekki getur það verið af því, að nefndin hafi neitt á móti utanförum; því það er öllum vitanlegt, að frá því fyrsta hafa þær haft yfirleitt mjög mikil og góð áhrif í þessu þjóðfjelagi. Maður hefir að vísu heyrt stundum heldur grunnhygnislega talað um þetta „flakk utanlands“. Náttúrlega geta utanfarir stundum verið óþarfar, eða fremur til ills, en yfirleitt er það ekki gild ástæða á móti því að styrkja menn til utanfara. Okkur er sem sagt ómögulegt að halda okkur út af fyrir okkur; við verðum að fylgjast með öðrum þjóðum og taka þátt í störfum þeirra, sjerstaklega Norðurlandaþjóðanna.

Þá skal jeg ekki frekar minnast á brtt. fjvn. Mjer þykir skylt að nefna eina brtt. frá einst. þm.; það er nr. 22 á þskj. 230.

Jeg ætla ekki að fara að færa rök fyrir rjettmæti hennar sjerstaklega, það mun hv. flm. gera. Till. er um að veita styrk til Önnu Borg til leiklistarnáms erlendis. En þess vegna nefni jeg þessa till., að rjett áður en móðir þessarar stúlku fór síðast utan, kom hún til mín og talaði við mig um þessa dóttur sína og bað mig að vera henni innan handar. Jeg sagði, að mjer væri það ljúft. Móðirin sjálf, Stefanía Guðmundsdóttir, finst mjer hafa átt gott skilið og tel, að rjett sje að heiðra minning hennar með því að styrkja nú dótturina. Jeg bjóst við, að það mundi koma umsókn frá Önnu Borg um styrk af því fje, sem úthlutað var til listamanna eftir nýárið, en það var ekki, enda hefði munað litlu. En vegna þessa loforðs míns vildi jeg nefna þetta, og þykist sannfærður um, að margir hv. deildarmenn muni svo frú Stefaníu Guðmundsdóttur, að þeir geti greitt atkv. með þessari till.