31.03.1926
Neðri deild: 45. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 975 í B-deild Alþingistíðinda. (500)

10. mál, bryggjugerð í Borgarnesi o. fl.

Pjetur Þórðarson:

Jeg vil gera athugasemd við ræðu hv. þm. Str. (TrÞ), og er jeg á þeirri skoðun, að það sje misskilningur, að erfiðleikar þeir, sem hjer er um að ræða, stafi af því, hve erfitt sje að komast á milli hafna hjer í Reykjavík og við Borgarfjörðinn, heldur stafa þeir af því, að það er oft svo erfitt vegna grynninga við land, straums, og þá sjerstaklega í landsynningsveðrum, að komast úr og í land með fólk og flutning; en þetta má alt bæta með því að byggja góða bryggju. En ferðirnar tefjast ekki, eins og áður er sagt vegna þess, að erfitt sje að komast á milli, heldur vegna þess, hve erfitt er að komast út í skipin. Þess vegna væri bryggjan nauðsynleg, auk þess sem hún myndi bæta til fullnustu úr erfiðleikum þeim, sem eru samfara uppskipunum eins og nú hagar til þar efra.

Fyrst jeg er á annað borð staðinn upp. vil jeg láta álit mitt í ljós um það, sem hv. frsm. (KlJ) kom inn á, hvort betra væri að byrgja sundið með garði eða byggja brú yfir það. Jeg er nákunnugur á þessum slóðum og hefi heyrt menn láta í ljós álit sitt um þetta. Jeg er fyrir mitt leyti á þeirri skoðun, að ef sundið yrði brúað, myndi það vitanlega ekki breyta höfninni eða straumunum; en hinsvegar tel jeg líklegt, að miklu ódýrara og líka tryggara væri að gera garð yfir sundið, enda hið fyrsta, sem þarna ætti að gera. Að því búnu væri það þá spurningin, hvort straumurinn færði ekki meira af sandinum en nú er inn fyrir bryggju, sem við eyjuna á að koma. Jeg held, að þetta myndi ekki valda neinu verulegu tjóni, því að þarna er svæðið fyrir innan alt þurt um lágsjávað, og sundið með garðinum sunnan og austan við svæðið verður straumlaust, því að sandurinn hleðst upp austanmegin og straumurinn kemur ekki inn í höfnina fyr en við háflæði. En það gæti verið hætta að gera brú þarna, þó góð væri, því að vjelalausir bátar væru ver staddir, ef straumurinn bæri þá undir brúna um hásjávað. Auk þess yrði brúin dýrari. En jeg vil ennþá taka það fram, að það getur ekki komið til nokkurra mála, að leiðin milli hafna í Reykjavík og Borgarfirði sje svo örðug, að það valdi töfum á ferðunum. Það er hafnleysið, sem er orsök þeirra og sem gerir þetta mál nauðsynlegt.