26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 982 í B-deild Alþingistíðinda. (519)

20. mál, bankavaxtabréf

Fjármálaráðherra (JÞ):

Eins og getið er um í aths. þessa frv., er 4. flokkur veðdeildarbrjefa Landsbanka Íslands þrotinn og þegar fyrir nokkru ekki hægt að veita lán úr honum. Þess vegna er óhjákvæmilegt þegar á þessu þingi að setja einhverja löggjöf um framhald á veðbankastarfsemi hans. Það mál hefir legið fyrir milliþinganefnd í bankamálum, og ávöxturinn af starfi hennar í því er frv. það, sem hjer liggur fyrir. Hefir stjórnin aðeins gert lítilfjörlegar breytingar á því. Mjer hefði þótt betra, að nefndin hefði sjeð sjer fært að gera endanlegar till. um skipun þessa máls, en það hefir hún ekki sjeð sjer fært og fært ástæður fyrir því, sem að miklu leyti verður að taka gildar. Það er líka sjerstaklega erfitt að gera endanlega skipun á þessu máli á meðan peningagildið er á hreyfingu, eins og nú er.

Þetta frv. fer fram á, að haldið sje áfram veðdeildarstarfsemi bankans í framhaldi af 4. flokki veðdeildarinnar, og hefir mjer því þótt rjettast að gera ekki aðrar breytingar en þær, sem reynslan í hinum fyrri flokkum hefir sýnt, að beinlínis væru æskilegar. Jeg læt ekki frv. fylgja fleiri ummæli að þessu sinni, og vil leyfa mjer að leggja til, að því verði, að þessari umr. lokinni, vísað til fjhn., og vil um leið biðja háttv. nefnd að gefa mjer tækifæri til að ræða við hana um einstök atriði, sem mjer sýnist, að gæti komið til mála að hafa öðruvísi en hjer er haft.