26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 983 í B-deild Alþingistíðinda. (520)

20. mál, bankavaxtabréf

Sigurður Eggerz:

Það má vera, að það hafi verið nauðsynlegt að gera bráðabirgðaráðstafanir í þá átt, sem hjer er farið fram á, en þær hefðu átt að vera aðeins bráðabirgðaráðstafanir. Hæstv. stjórn tók nú að vísu fram, að binda þyrfti bráðan enda á fyrirkomulagið á fasteignaveðlánum í framtíðinni. Þessi ummæli ber síst að lasta, en mjer finst aftur á móti, að þær ráðstafnir, sem gerðar hafa verið, bendi í þá átt, að hjer sje í rauninni um meira en bráðabirgðaráðstafanir að ræða. Átta miljónir, sem milliþinganefndin leggur til, að bankavaxtabrjef verði gefin út fyrir, benda í þá átt, að hjer sje um nokkuð meira en bráðabirgðalög að ræða, og hæstv. stjórn hefir hækkað þessa upphæð úr átta miljónum upp í tíu miljónir; og loks þykir mjer það undarlegt, að í málgagni stjórnarinnar, Morgunblaðinu, er talað um, að í frv. því, sem hjer liggur fyrir, sem er aðeins enn stofnun nýrrar veðdeildar, sje um verulega rjettarbót að ræða. Hæstv. fjrh. (JÞ) tók það líka fram, að hjer væri verið að bæta við 5. veðdeildarflokki og að engar verulegar breytingar væru á ferðinni; það má að vísu lána nokkuð hærra, en það er alveg lagt á vald bankastjórnarinnar. Jeg held þess vegna í raun og veru, að þetta lof í stjórnarblaðinu kunni að verka fremur villandi á ýmsa, að þeir kunni að halda, að einhver ný bjargráð sjeu fundin, og bendir þetta ekki alt á það, að við þetta fyrirkomulag eigi að una? Þó að jeg sje ekki vanur að koma fram sem vandlætari, verð jeg að segja, að mjer finst, að það hefði átt miklu betur við, fremur en að vera að ausa lofi á stjórnina fyrir þetta frv., að finna að því, að á síðasta þingi voru ekki gerðar ráðstafanir um nýja veðdeild, þar sem gamla veðdeildin þraut fyrir nýár. Jeg þarf ekki að lýsa því, að það er litið svo á hjer í bænum — og jeg hefi nú síðast átt tal um það við borgarstjóra, og sagði hann þá hið sama um það og aðrir —, að það væri „örðugasti hjallinn“ fyrir þennan bæ, hvað fasteignáveðlán væru örðug, og mestan þátt ætti það í dýrtíðinni hjer, að ekki væri hægt að fá lán til þess að byggja fyrir og koma húsaleigunni niður. (BK: Það er ekki veðdeildinni að kenna). Hv. l. þm. G-K. (BK), sem vanalegast er mjög tillagnagóður um bankamál, segir, að þetta sje ekki að kenna veðdeildinni; en það er þó af því, að það hefir ekki tekist að útvega markað fyrir veðdeildarbrjefin. Jeg skal víkja að því aftur, að það er fleira en jeg drap á áðan, sem bendir á, að enn eigi að líða langur tími þangað til að leitast er við að koma þessu máli í nýtt og betra horf. Þannig telur meiri hl. milliþinganefndarinnar nú vera óheppilegan tíma til þess að fastákveða slíkt endanlegt fasteignalánafyrirkomulag, og auk þess getur hann þess, að ræktunarsjóðurinn sje nýtekinn til starfa og enn engin reynsla fengin fyrir honum. Og ennfremur segir hv. 3. landsk. (JJ) nokkuð líkt, en þó nokkuð ákveðnara, með leyfi hæstv. forseta:

„Enn er ósjeð, hversu Ræktunarsjóður bætir úr lánsþörf bænda, og óvíst, hver reynslan verður, ef selja skal erlendis vaxtabrjef tveggja eða fleiri íslenskra veðlánsstofnana.“

Svo stendur ennfremur, og þar verð jeg að líta svo á, að það bendi mjög ákveðið á frestun, eins og málinu er nú komið, með leyfi hæstv. forseta:

„Eftir nokkurra ára reynslu og athugun verður síðan að taka málið fyrir að nýju og leitast við að finna varanlegt, fast skipulag, sem Íslendingar geta búið að til frambúðar og fullnægir þörfum þjóðarinnar.“

Hvað er það, sem á að fara að útvega reynslu um? Hjer er því slegið föstu af hv. 3. landsk. (JJ), og það virðist vera í samræmi við meiri hl. milliþinganefndarinnar í bankamálum, að það þurfi að fá meiri reynslu til þess að geta ákveðið fyrirkomulag þessa máls, sem einmitt má fullyrða, að þjóðin gerir mestar kröfur til, að fljótt verði leyst af hendi. Að því er snertir veðdeildina sýnist ekki þurfa meiri reynslu, því að hún hefir þegar starfað lengi. Að því er snertir ræktunarsjóðinn, þá verður líka að líta svo á, að það sje fyrirfram gefið, að sú lánsstofnun muni alls ekki geta fullnægt bændum þessa lands, og ætti því heldur ekki að þurfa að leita reynslu í því máli, því að sá sjóður er svo takmarkaður á alla vegu, að hann getur á engan hátt stutt að stórstígum framförum í landbúnaði í landinu. Þar sem háttv. 3. landsk. vill una við þetta ófullnægjandi fyrirkomulag í mörg ár, þá virðist mjer hann allkröfuljettur fyrir hönd landbúnaðarins. En ef bændurnir sjálfir vilja ekki gera frekari kröfur — en því trúi jeg nú ekki, — þá verðum vjer hinir að gera kröfurnar fyrir þá.

Ef litið er á lög og reglugerð ræktunarsjóðsins, þá sjáum við, að í hverju lánsspori, sem bændur þurfa að stíga, eru ótal takmarkanir, t. d. í 9. gr. reglugerðarinnar er talað um, að veita megi lán til jarðræktar og húsagerðar á býlum í sveit, og talið upp í 8 liðum það, er sjerstaklega verði veitt til; en svo stendur í reglugerðinni, að til hinna tveggja síðastnefndu má ekki veita lánið nema verkinu sje að fullu lokið og reynsla fengin fyrir, að það komi að fullum notum. Með öðrum orðum, menn eru látnir framkvæma verkið að mestu í von um að fá lán út á það, en ef það svo mistekst eitthvað, þá fæst ekkert fje til að ljúka við það, — og hvaða hjálp er það? (Atvrh. MG: Það gerir Landsbankinn til bráðabirgða). Þetta voru aðeins tvö dæmi, sem jeg nefndi, en yfirleitt er það reglan um þessi lán, að þau eru aðeins veitt eftir að verkið er framkvæmt; en ef lán er veitt á meðan á verkinu stendur, verður auðvitað að setja tryggingar. Jeg hefi áður vikið að því, hve sala brjefanna væri þýðingarmikil fyrir sjóðinn, en í framhaldi af því, hvað sjóðurinn er takmarkaður, vil jeg benda á, að þó maður eigi fje fyrir jörð og geti keypt hana, þá getur hann ekki fengið lán til að kaupa bústofn á jörðina. Þá eru þarfir bæjanna fyrir lánsstofnun afarmiklar. Ef á annað borð á að reyna að minka eitthvað dýrtíðina í landinu, þá verður að sjá um betra fyrirkomulag á fasteignalánsstofnunum. Háttv. 3. landsk. (JJ) hefir nú að vísu viljað benda á það, að með þeim till., sem gerðar væru af meiri hl. nefndarinnar, væri að ýmsu leyti greidd gata að því að fá betri fasteignaveðslán, og meðal þeirra atriða, sem hv. þm. bendir á, er það, að það stendur í frv. meiri hl. nefndarinnar, að Landsbankinn komi á fót sölu á verðbrjefum og kaupi sjálfur. Það má vel vera, að það geti gert nokkuð fyrir sölu verðbrjefa, en það fer líka nokkuð eftir því, hvernig Landsbankinn kynni að meta þau. Sjálft matið mun nú geta tekið allmikinn tíma, því að fleiri en bankastjórnin eiga að fjalla um það.

Jeg ætla ekki í þetta sinn að ræða till. bankanefndarinnar um seðlafyrirkomulagið, en aðeins benda á, að það lítur svo út, sem meiri hl. nefndarinnar hafi litið svo á, að hann gæti leyst nokkuð af þeim flóknu málefnum, sem hjer eru á ferðinni, með því að búa til svona afskaplega stórt höfuð á Landsbankann. Hver myndi trúa því, að svo lítill banki hefði yfir sjer þriggja manna bankastjórn, svo 5 manna bankaráð, svo 15 manna nefnd, sem er nokkurskonar yfirbankaráð, og loks fjármálaráðherra?

Þá er eitt atriði, sem hv. 3. landsk. (JJ) segir, að muni verða til þess að tryggja fasteignalánsstofnun betri lífsskilyrði, að bankinn hafi 1/3 af sparisjóðsfje sínu í innlendum verðbrjefum. Þetta skilst mjer, að ekki komi frá bankanefndinni, heldur frá landsstjórninni, en það skiftir reyndar engu máli. En í þessu sambandi mætti benda á, að ef svona mikið fje væri lagt til fasteignalánanna, sem í sjálfu sjer væri gott, þá má vera, að ekki lagaðist til á öðrum sviðum, því eitthvert fje þyrfti að koma í skarðið fyrir þetta sparisjóðsfje, sem dregið er frá hinum almennu lánum. Svo segir hv. 3. landsk. (JJ) á bls. 36, að hann bendi á nýja og áður óþekta leið til þess að efla fasteignaveðlán á Íslandi. En sú leið segir hann að felist í því, að bankaráðið ákveði nú vextina. Þetta er nú skrítið. Hjer er engin ný leið. Mismunurinn aðeins sá, að nú ákveður bankastjórnin sjálf vextina, en með þessu fyrirkomulagi í samráði við bankaráð. Í framkvæmd mundu þó bankastjórarnir vitanlega ráða, hvernig vextir yrðu settir. Jeg sje því ekki, að það sje með nokkru móti verjandi að hallast að stefnu meiri hluta bankanefndarinnar, að halda áfram að bíða í svo og svo mörg ár enn. Jeg veit, að hv. meiri hluti, og sjerstaklega hv. 3. landsk. (JJ), heldur því fram, að tímarnir nú sjeu sjerstaklega örðugir og gengið hvikult, og því muni örðugt að fá fast samband milli væntanlegrar fasteignastofnunar og erlends markaðs. En til þess að verulegt líf og fjör komi í viðskiftin, verður að útvega brjefunum erlendan markað og veita þannig nýju fje inn í landið. Það er auðvitað hægt að segja, að tímarnir sjeu örðugir, en þeir eru það ekki fremur á þessu sviði en öðrum. Hvað myndi sagt um ráðstafanir stjórnarinnar, ef hún vildi fresta öllum verklegum framkvæmdum þar til þær yrðu ódýrari? Hæstv. stjórn skilst það, sem raunar ætti að vera ljóst öllum mönnum, að ófært er að skapa hjer slíka kyrstöðu, þó að örlög krónunnar verði ekki sjeð fyrir. Að því er Danmörk snertir eru nú líkur til, að krónan sje að fara upp í gullgildi þar, og þarf þá ekki að óttast örðugleika við þær sveiflur. Jafnframt þessum athugasemdum verð jeg að leggja áherslu á það, að bundinn verði bráður bugur að því að koma skipulagi á þessi mál. Ríkisveðbankinn á að taka til starfa, og skal vandlega athugað, hvernig best má takast að fá markað fyrir brjefin erlendis. Hv. 3. landsk. var mjer áreiðanlega sammála um þetta efni áður. Jeg man ekki betur en að hann væri mjer þakklátur fyrir afskifti mín af þessu máli, þegar jeg barðist fast fyrir því, að þessi bankastofnun kæmist á fót. Jeg hefi litið svo á, að happadrýgst væri, að þessi lánsstofnun væri bæði bundin við landbúnað og fasteignalán í bæjum. Að því er snertir ræktunarsjóðinn; þá er það vitanlega góður maður, sem veitir honum forstöðu, en þetta er þó aðeins aukastarf, þar sem maðurinn rekur málafærslu að aðalstarfi. Það liggur í hlutarins eðli, að ef hin leiðin væri farin og ríkisveðbanka komið á fót, yrðu settir fyrir hann hinir færustu menn, og þeir mundu gera alt, sem í þeirra valdi stæði, bankanum til styrktar. Væru þá góðar horfur á, að hægt yrði að útvega hagfeld lán landbúnaðinum til handa.

Jeg vildi óska, að hv. 3. landsk. færi nú að endurskoða sína gömlu og góðu stefnuskrá í þessu máli, því að hún var verulega góð. Jeg teldi rjett stefnt, ef hann vildi nú hallast á þá sveif að vinna að því í samráði við landsstjórnina að koma málinu inn á þessa gömlu og góðu braut.

Jeg læt nægja þessar stuttu athugasemdir. Jeg veit, að það hefir ekki mikil áhrif hjer, hvað jeg segi, þar sem jeg hefi annarsvegar á móti mjer 8 íhaldsmenn og hinsvegar 5 framsóknarmenn. Jeg hefi auðvitað engin áhrif á þessa stóru flokka í þinginn. En jeg skoða það skyldu mína meðan jeg á sæti hjer á hinn háa Alþingi að halda fram í hverju máli því, sem jeg álít rjettast og þjóðinni hollast. Ef litið er á reynslu fyrri ára, má sjá, að jeg hefi oft verið í minni hluta í málum, sem síðar hafa sigrað. Jeg þarf því ekkert að óttast, þó að jeg fái hjer ekki atkvæði með mjer, til þess að halda fram rjettum málstað. Jeg get t. d. minst á baráttuna um verslunarfrelsið, þegar verið var að útrýma einokunardraugnum. Jafnvel sumir þeirra, er þátt áttu í að innleiða þann draug, voru með í að kveða hann niður. Afl röksemdanna sneri þeim frá villu síns vegar. Ef fast er haldið á góðum málstað, sigrar hann jafnan að lokum. Jeg skal játa það hreinskilnislega, að jeg treysti hvorki þessum 8 nje þessum 5 til þess að taka athugasemdir mínar til greina. En utan þings veit jeg, að margir eru sömu skoðunar og jeg í þessu máli og fleirum, og þar á meðal eru ýmsir af vitrustu mönnum þjóðarinnar, sem jeg vona, að næstu kosningar eigi eftir að draga inn í þennan þingsal.

Annars hafði jeg vænst þess af íhaldsstjórninni, sem var með í því að vísa verslunareinokuninni á dyr, að hún mundi ekki vinna að því að koma á einokun í bankamálum. En ef til vill hefir einokunarbakterían verið búin að bíta sig svo fasta í íhaldskroppinn, að fleirum hætti til að sækja í sama farið. — Jeg sagði íhaldskroppinn. Á sálina minnist jeg ekki. Fæst orð hafa minsta ábyrgð.