26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1002 í B-deild Alþingistíðinda. (524)

20. mál, bankavaxtabréf

Atvinnumálaráðherra (MG):

Jeg skal ekki vera langorður. Jeg vil taka í sama streng og hæstv. forseti, að umræðurnar hjer í dag hafa snúist um annað meir en það, sem fyrir liggur. Hjer er um að ræða nýjan flokk bankavaxtabrjefa, en um alt annað hefir verið rætt. Ástæðan til þess, að jeg kvaddi mjer hljóðs, er sú, að hv. 1. landsk. (SE) var að gera lítið úr ræktunarsjóðnum fanst hann hafa litlu fje yfir að ráða. En hv. þm. hefir ekki athugað það, að ef hann hefir úti alt það fje, sem hann má, þá hefir hann um 16 miljónir króna. Jeg heyrði, að honum uxu í augum 8 mjljónir áðan, og finst mjer vera í þessu lítið samræmi. Þá mintist hann á, að vextir væru háir í ræktunarsjóðnum. Vextir eru þó ekki nema 6%, og mundi almenningi þykja gott, ef hv. l. landsk. lánaði fje úr banka þeim, er hann stjórnar, fyrir þá vöxtu.

Þá sagði hann, að sjer litist svo á, sem stjórnin væri að reyna að eyðileggja Íslandsbanka. Með því á hann víst við annað frv., sem nú liggur fyrir þinginu, og skil jeg ekki í, hvað það kemur þessu máli við. Annars verð jeg að segja það, að mjer finst það sitja illa á honum sem bankastjóra að vera að breiða það út, að stjórnin sje að reyna að eyðileggja bankann, þó aldrei nema það væri nú satt og rjett, hvað þá þegar það er eintómur misskilningur eða annað verra.

Þá hjelt þessi hv. þm. (SE) því fram, að sama lánsstofnunin ætti að vera fyrir landbúnaðinn og bæina. En reynslan hefir sýnt, að það er ekki hagkvæmt; með því verður landbúnaðurinn ávalt útundan. Því var það, að í fyrra var samþykt að koma á fót sjerstakri lánsstofnun fyrir landbúnaðinn, sem betur fer, og iðrast jeg þess ekki, þótt með því væri ríkisveðbankinn eyðilagður í bili, eins og hv. 3. landsk. (JJ) tók rjettilega fram. Ræktunarsjóðurinn hefir hingað til getað fullnægt öllum eftirspurnum um lán og hefir enn ekki þurft að krefjast þeirrar heimildar, að Landsbankinn kaupi af honum vaxtabrjef, og öll brjef hans hafa selst affallalaust.

Þá fór hv. 1. landsk. að tala um einokunarbakteríu í íhaldskroppnum. Vildi hann víst með þessu sýna, að hann vissi, að bakteríur færu ekki í sálina. Ennfremur barmaði hann sjer yfir því að vera í minni hluta nú. (SE: Nei, nei !). Jeg skal fúslega viðurkenna, að hann má muna tvenna tímana. Sú var tíðin, að hann var í blómlegum meiri hluta, en flokkurinn kringum hann hefir sí og æ farið minkandi, og vissulega eru nú fáir eftir. En sú er þó bót í máli, að hann er hugsjónamaður og hugmyndaflugs og huggar sig nú við þá von, að fylgismennirnir streymi að honum við næstu kosningar. En vera má, að draumsýn þessi rætist ekki og að hv. 1. landsk. fái að vera dálítið meira en baktería í íhaldskroppnum.