26.02.1926
Efri deild: 14. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1004 í B-deild Alþingistíðinda. (525)

20. mál, bankavaxtabréf

Jónas Jónsson:

Jeg get nú verið stuttorður. Það er hart, að jeg skuli þurfa að standa oft upp til þess að verja stjfrv. En hv. 1. landsk. (SE) hefir nú að mestu dregið sig inn fyrir víggarðana. Hann talaði hjer um bankamálin líkt og hann talaði á fundinum í Borgarnesi í haust, þar sem viðstaddir voru um 400 manns. Jeg get vitnað það, að hv. 1. landsk. hafði þar enga samúð, og hygg jeg, að hann hafi getað sjeð þar, að annaðhvort eru bændur þar villuráfandi sálir, eða þá að honum hefir brugðist bogalistin. Hv. þm. er kunnugt um átökin í fyrra milli íhaldsins og Framsóknarflokksins um það, hvort ræktunarsjóðurinn gæti runnið inn í ríkisveðbankann eða ekki. Íhaldið varð þar sterkara og því slegið föstu, að stofnanirnar skyldu vera aðskildar. Þar er jeg ósammála hæstv. atvrh. (MG). Jeg áleit heppilegra í framtíðinni að hafa stofnunina ekki nema eina, en það er ekki hægt að sameina þær, nema með sjerstökum lögum. Það kom fram í umræðunum, að Svíar hefðu tvær sjerstakar stofnanir, en við erum smærri en Svíar, og má ekki líkja blint eftir fordæmi þeirra.

Jeg býst við því, að hæstv. forseti leyfi mjer að segja nokkur orð út af árásum hv. 1. landsk. Það kom greinilega í ljós hjá hv. 1. landsk., að það var bankastjórinn, en ekki þingmaðurinn, sem talaði, og að hann rjeðist sem slíkur á stjórnina fyrir það, að hún væri að setja hengingaról að hálsi bankans. Út frá þessari lífsstöðu sinni ásakaði hann mig einnig fyrir það, að jeg væri að reyna að kippa fótum undan bankanum. Jeg benti bara á það, eins og svo oft áður, að jeg veit engin dæmi til þess í allri Skandinavíu, að banki, sem var eins illa stæður og Íslandsbanki og var veitt eins mikil hjálp og hjer var gert, gæti skotið sjer undan því að láta athuga plögg sín. Hv. l. landsk. heimtar með frekju hins vanþakkláta, sem hvergi á sinn líka, að þegar sá seki hefir spilað út peningunum á skammarlegan hátt, þá skuli sökudólgurinn undanþeginn því, að lánardrottinn athugi ástand hans. Hann játar, að ef það hefði verið gert og upp hefði komist um ástand sjúklingsins, þá hefði hann tafarlaust dáið. (SE: Nú er það Tíminn. — Tíminn. Jónas!). Nei, jeg er aðeins að segja hv. þm. til syndanna. Jeg skora á hann að koma með í blaði stjórnarinnar, — hann fengi vafalaust rúm fyrir það þar, — með lýsingu á einhverjum banka á Norðurlöndum, öðrum en Íslandsbanka, sem var eins illa staddur og Íslandsbanki og hefir leyft sjer þá ósvífni að nota sjer þingstyrk til þess að hindra sjálfsagða athugun, um leið og hjálpin var veitt. Ef hann getur ekki gert þetta, falla allar hans ásakanir á hann sjálfan. Hv. þm. segir, að Íslandsbanki vildi ekki seðlaútgáfuna, þótt honum væri boðin hún. Hvílík dæmalaus breyting! Hvernig hefir það gengið hingað til? Hvernig var það á öllum stríðsárunum? Hvernig var það 1919, er Íslandsbanki vildi selja hindrunarrjettinn fyrir ærið fje? Nei, bankinn vildi feginn hafa seðlaútgáfuna áfram.

Skoðun mín er bygð á því, að jeg álít heppilegast, að Landsbankinn fari með seðlaútgáfuna, en það vill nú svo vel til, að það eru fleiri en jeg, sem vilja þetta, svo sem tveir fjármálaráðherrar, sem lagt hafa fram stjfrv. um þetta, hv. þm. Vestm. (JJós) í fyrra og loks Jón Krabbe skrifstofustjóri. Eru þá allir þessir menn í óleyfilegum ástum við Landsbanka Íslands, eða gengur þeim til blint hatur á Íslandsbanka? Á eftir kemur það svo í ljós hjá hv. þm. (SE), að hann elskar Landsbankann. Er það þá svo, að hjarta hv. þm. sje svo stórt, að hann geti bæði elskað sína stofnun og svo líka aðra stofnun þá, sem hann er að áfella aðra fyrir óleyfilegar ástir við? Jeg býst annars við, að þetta komi til af því, að hjarta hv. þm. er að sínu leyti eins stórt og maðurinn er í sjálfu sjer vörpulegur.

Viðvíkjandi þeirri þýðingu, sem það mundi hafa fyrir veðdeildina að starfa eins og hjer er gert ráð fyrir og með umræddum breytingum á Landsbankanum. vildi jeg segja það, að þar sem Landsbankinn nú hefir stærstan sparisjóð, sem til er á öllu landinu, og þar sem svo er gert ráð fyrir í frv. að hann kaupi vaxtabrjef fyrir 1/3 hluta af sparisjóðsfje sínu, þyrfti ekki að líða langur tími þar til yrði markaður fyrir tíu miljónir af fjenu, — og er þetta nú ekki mikils virði fyrir hv. þm. (SE), sem elskar alla, sem þurfa fjárins með? Þetta ætti hv. þm. að athuga. En það, hvort þjóðbankinn, eins og hann yrði útbúinn, kæmi til að ráða miklu um vexti og annað fleira, segist hv. þm. ekki vita, en jeg og mínir skoðanabræður álítum, að bankarnir verði að dansa eftir pípu þjóðbankans, og það er atriði, sem ekki aðeins hefir gildi út á við, heldur líka inn á við, að hafa húsbónda á heimilinu, sem getur tekið í taumana, ef með þarf. Jeg tók eftir, að hv. þm. gekk framhjá því, sem jeg sagði um sparisjóðinn á Eyrarbakka, hvort ekki hefði verið hægt að laga hann með því, ef hann hefði orðið að taka tillit til annarar stofnunar, sem hefði verið nógu sterk og getað ráðið fram úr vaxtamálinu.