09.03.1926
Efri deild: 23. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1015 í B-deild Alþingistíðinda. (531)

20. mál, bankavaxtabréf

Fjármálaráðherra (JÞ):

Jeg vil þakka nefndinni fyrir góða afgreiðslu á þessu frv. Jeg hefi ekkert að athuga við 2. og 3. brtt. En viðvíkjandi 1. brtt., um að hafa tvo flokka með mismunandi vöxtum starfandi í senn, vil jeg segja það, að jeg álít, að hún sje til bóta. En jeg hefi ekki orðið var við það, að fram sjeu komnar ástæður fyrir því, að það þurfi að einskorða upphæð hvors flokks við 2½ milj. kr. Jeg er hræddur um, að það ákvæði sje að minsta kosti óeðlilegt og geti valdið erfiðleikum í framkvæmd. Ef maður hugsar sjer t. d., að byrjað yrði með 5% vaxtaupphæð, en svo gæti komið til mála að lækka vextina niður í 4½%. Nú veit enginn, hve lengi sá rentufótur getur staðið, nje heldur hvernig gangi að selja bankavaxtabrjef úr þessum nýju flokkum. Þó tilgangurinn sje sá, að útvega betri lánskjör, þá gæti farið svo, að sala á bankavaxtabrjefum af lægri flokknum hætti áður en hann væri útseldur, en svo yrði að loka hærri flokknum þegar seld væri 2½ milj. kr., enda þótt nóg eftirspurn yrði eftir brjefum úr þeim flokki. Jeg held því, að þetta ákvæði sje óeðlilegt og jeg hefi enga gilda ástæðu fundið fyrir því. Hinsvegar getur verið ástæða til þess að ákveða, hve lengi megi halda flokknum opnum, því það tímatakmark hefir áhrif á það, hvenær menn geta vænst þess, að þeir fái peninga sína losaða aftur. Það er því venjulegt í slíkum tilfellum, að það sje takmarkað, hve lengi einn og sami flokkur skuli haldast opinn. Það getur verið gott, enda þótt ástæða þyki til að opna alveg samskonar flokk aftur, vegna þess að þar með er endir bundinn á þá spurningu, hvenær búið verði að skila öllu því fje, sem lagt hefir verið í brjef þess flokks. Jeg vildi gjarnan tala um þetta atriði við nefndina, og mætti ef til vill lagfæra þetta með brtt. við 3. umr. Menn verða að gæta þess, þegar verið er að tala um að skifta þessum 5 milj., að þó að það sje stærsti veðdeildarflokkur, sem hingað til hefir verið stofnaður, þá hafa miljónirnar minkað frá því, sem áður var. Og þó krónan nái gullgengi, þá verður kaupmagn hennar ekki nema helmingur eða rúmlega það frá því, sem var fyrir styrjöldina miklu.

Um 4. brtt. er það að segja, að jeg er ekki sem best ánægður með hana. Mjer finst fyrirsögn frv. ekki verða sem lögulegust, þegar búið er að gera á henni þá breytingu, sem hjer ræðir um. Mjer virðist það ekki venjulegt mál að tala um að gefa út veðdeildarflokk. Nær væri að segja: setja á stofn veðdeildarflokk. Jeg vildi óska þess, að nefndin tæki þessa till. aftur til nánari athugunar til 3. umr.

Út af því, sem hjer hefir verið talað um sölu brjefanna, þá er það málefni, sem full ástæða er að taka til sjerstakrar athugunar. Það er efalaust, að það má með auglýsing um og þess háttar gera dálítið fyrir sölu brjefanna. En jeg hygg þó, að á meðan sparisjóðirnir gera ekki nema lítið að því að kaupa slík brjef, þá muni salan innanlands ekki aukast mikið frá því, sem nú er. Það eru einkum sjóðir og fáir einstaklingar, sem leggja fje sitt í svona brjef. En annarsstaðar eru sparisjóðirnir aðalkaupendur að slíkum brjefum. Þetta stafar af sparisjóðslöggjöfinni hjer og þeirri sjerstöku þróun sparisjóðsstarfseminnar, sem hjer hefir orðið, og sem vitanlega stafar af sjerstakri þörf, að sparisjóðirnir yrðu slíkir sem þeir eru. Því held jeg það, að ekki sje mikils árangurs að vænta af auglýsingum í sambandi við sölu veðdeildarbrjefanna innanlands. Þess má og vænta, að þegar þessir flokkar verða opnaðir, þá berist að svo miklar umsóknir um lán, sumpart af þeirri stöðvun, sem orðið hefir á veðdeildarlánum, og hinsvegar af því, að margir leggja nú hug á byggingar, svo það muni reynast erfitt fyrst í stað að selja eins mikið af veðbrjefum og þarf til þess að fullnægja eftirspurninni. Má því búast við því, að verð brjefanna verði í fyrstu fremur óhagstætt. Það er að vísu til leið, sem hefir áður verið farin til þess að ráða bót á þessu.

Jeg vildi gjarnan skjóta því til háttv. nefndar, að hún tæki til athugunar, hvort ekki þarf að gera sjerstakar ráðstafanir til þess að selja brjefin eða útvega markað fyrir þau, einkum í byrjun.