09.03.1926
Efri deild: 23. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1017 í B-deild Alþingistíðinda. (532)

20. mál, bankavaxtabréf

Frsm. (Jóhann Jósefsson):

Hæstv. fjrh. (JÞ) hefir nú talað um brtt. nefndarinnar, og skal jeg ekki fara langt út í athugasemdir hans við sumar þeirra, en jeg vil geta þess, að það var með ráðnum huga, að nefndin lagði til, að hvor flokkur yrði 2½ miljón. Nefndin leit svo á, að þeir tveir til samans þyrftu ekki að lokast fyr en einn flokkur lokaðist áður. 4. flokkur er búinn að vera 11 ár á leiðinni. Hinsvegar er rjett, að nefndin athugi þetta í samráði við hæstv. fjrh. til 3. umr.

Við aðrar brtt. hafði hæstv. fjrh. ekki neitt sjerstakt að athuga, nema við fyrirsögn frv. Frv. heitir frv. til laga um heimild fyrir Landsbanka Íslands, en ekki veðdeild Landsbanka Íslands. (Fjrh. JÞ: Það er þá prentvilla í frv.). Það er alveg rjett hjá hæstv. fjrh. Það á að vera frv. til laga um heimild fyrir veðdeild Landsbanka Íslands. En hvað sem því líður, er þó hjer um fleiri en einn veðdeildarflokk að ræða, og er ætlast til, að heimildin gildi fyrir fleiri flokka en einn, og fanst okkur því rjettara að kalla frv. heimild til útgáfu nýrra flokka veðdeildarbrjefa.

Nefndin talaði um sölu veðdeildarbrjefa í líka átt og jeg sagði fyr, en hún komst ekki svo langt, að hún treysti sjer til að gera till. um sölu brjefanna nú. En vel má vera, að hún reyni það síðar, og þá í samráði við hæstv. stjórn. Jeg held það sje einna ríkasta ástæðan fyrir því, að nefndin vildi ekki fara lengra, hvað peningamál okkar eru nú ótrygg. En mjer þætti líklegt, að það tilefni, sem hæstv. fjrh. gaf með sinni ræðu, yrði til þess, að mál þetta yrði tekið til athugunar til 3. umr., og er gott til þess að vita, að þá má eiga von á góðri samvinnu við hæstv. fjrh.