13.03.1926
Efri deild: 27. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1036 í B-deild Alþingistíðinda. (547)

20. mál, bankavaxtabréf

Sigurður Eggerz:

Seinasti liðurinn hjá hv. 3. landsk. (JJ) var ekki annað en endurtekning á umr. við 1. umr. Það er því ekki mörgu að svara.

Það er ómögulegt að stöðva framkvæmdir til þess að bíða eftir því, að peningamarkaðurinn lagist fullkomlega. Hv. þm. getur alla ekki neitað því, að ef byggja ætti bryggju í Borgarnesi t. d., og krónan kemst svo í gullgildi einu ári seinna, þá var langtum betra að bíða. Svona er þetta á öllum sviðum. Eins er auðvitað, að þessi aðstaða krónunnar hefir einnig áhrif á fasteignalánin, en þar fyrir má til að hugsa um að bæta þau. Hæstv. fjrh. rak í rogastans þegar hann heyrði um þá „effektivu“ vexti af fasteignalánunum. Hvað mundi þá, ekki almenningurinn segja, ef hann gerði sjer grein fyrir þessu?

Það er auðvitað, að jafnvel þó að meiri hl. milliþinganefndarinnar hefði athugað þetta í sambandi við gengið, þá var hægt að hugsa sjer fyrirkomulagið á fasteignalánunum, þótt ekki væri það sett í framkvæmd strax.

Jeg sje ekki, að þýði að svara hv. 3. landsk. meira en þetta.

Þó er eitt atriði, sem sje, að jeg óski að Íslandsbanki fengi alla seðlaútgáfuna. Jeg teldi það einmitt mikið óhapp fyrir bankann. Jeg tel reynsluna hafa sýnt, að það var honum óhapp, en ekkert happ.

Þar sem hæstv. forsrh. (JM) var að segja, að jeg blandaði hjer óskyldum málum saman, þá leyfi jeg mjer að mótmæla því. Þetta mál var komið frá milliþinganefnd í bankamálum. Þessi nefnd, sem kemur með frv., var sett til þess að rannsaka fasteignalánafyrirkomulag og bankafyrirkomulag. Og þá er ómögulegt að ámæla þingmanni fyrir það, þótt hann komi inn á bankamálin. En jeg fór þó sjerstaklega lítið inn á sjálft fyrirkomulag á seðlaskipuninni. Ef jeg hefði ætlað að fara inn á þau mál, þá hefði jeg þurft að tala meira en hálftíma og klukkutíma, Mig furðar, að hæstv. forsrh. skuli víta mig fyrir þetta. Jeg sje ekki, að hann hafi neina ástæðu til að gera mjer getsakir um, að jeg hafi viljað koma að einhverri kunnáttu í bankamálum. Jeg get ekki litið öðruvísi á en að jeg hafi skyldu til að koma með þær litlu upplýsingar í þinginu, sem jeg hafði ráð á, hvort svo sem jeg er bankastjóri eða ekki. Jeg skil ekki, að hæstv. forsrh. þurfi að taka í strenginn með hv. 3. landsk. En aðstaða hæstv. stjórnar er orðin að aðstöðu hv. 3. landsk. í bankamáluum. Það er auðsjeð, að háttv. 3. landsk. er blátt áfram að soga landsstjórnina niður í vasa sinn í bankamálunum.

Jeg þarf ekki að bera neinn kinnroða eða sæta neinum ásökunum af hæstv. forsrh. fyrir það, að jeg tala um bankamálin, ekki meira en jeg fór inn á þau í sambandi við þetta mál, sjerstaklega þegar hæstv. stjórn veit ekkert, hvað sú „effektiva“ renta er af fasteignalánum í landinu. Það er sannarlega ekki úr vegi, þótt jeg láti þessa þekkingu mína koma fram, sem jeg hefi útvegað með því að láta fagmann reikna út.

Hæstv. forsrh. sagðist ekki vera skyldugur til að láta sína meiningu í ljós um bankamálin undir þessum umræðum. Vitanlega er hæstv. forsrh. ekki skyldugur til þess. En jeg hjelt, að jeg hefði gert honum greiða með því að gefa honum tilefni til að láta sínar skoðanir í ljós, ef þær kynnu að vera sæmilega heilbrigðar. En nú sje jeg, að hann hefði ekki grætt á því, hæstv. forsrh., þótt hann færi að láta þær skína.

Þá var hæstv. forsrh. að ámæla mjer fyrir að hafa ekki sett ríkisveðbankann á stofn. Það getur verið, að hæstv. forsrh. hafi rjett fyrir sjer í því, að jeg hefði átt að ganga betur fram í því máli. En jeg færi mjer það til afbötunar, að þegar fjármálaráðherrann, sem þá var, spurði mig um það, hvort jeg vildi gjalda því jákvæði, að ríkisveðbankinn yrði stofnaður, sagði jeg hvað eftir annað, að jeg samþykti það. Jeg skal játa, að ef jeg hefði þá verið búinn að setja mig inn í bankamálin eins og jeg hefi gert í seinni tíð, þá hefði jeg verið ennþá harðari og ákveðnari að heimta, að þetta yrði gert.

Jeg sje, að hæstv. forseti (HSteins) gefur mjer hendingu um, að aths. sje orðin nokkuð löng, svo máli mínu verður að vera lokið að þessu sinni. Aðeins vil jeg henda á, að það var engin áreitni í því fólgin í garð hæstv. stjórnar, þótt jeg segði við l. umr., að hæstv. stjórn ætti að leitast við að komast inn á rjetta braut í þessu máli, þá braut, sem lögð er í áliti minni hluta bankamálanefndarinnar. Ef stjórnin fylgdi þessu heilræði mínu, þá mundi henni áreiðanlega ljettara um vik.