15.03.1926
Neðri deild: 31. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (565)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Forsætisráðherra (JM):

Eins og getið er um í greinargerðinni fyrir frv., hafa 2 menn af þeim, sem sóttu um íslenskan borgararjett í fyrra, endurnýjað umsókn sína til ráðuneytisins.

Jeg skal ekki tala neitt um rök þau, sem til þess liggja, að rjett er, að menn þessir öðlist borgararjett, því að hv. deild eru þau kunn frá því í fyrra. Aðeins vil jeg mælast til þess, að hv. allshn., sem hafði málið til meðferðar í fyrra, taki nú vinsamlegar í erindin en þá. Jeg var satt að segja hissa á því, sjerstaklega um þessa tvo menn, að þeir skyldu ekki fá áheyrn. Vona jeg, að þeir fái betri undirtektir nú, og frv. sæmilega meðferð.