26.03.1926
Neðri deild: 41. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1047 í B-deild Alþingistíðinda. (567)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Jón Baldvinsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv., og leggur hún til við þessa háttv. deild, að það verði samþykt. Nefndin hefir við nána athugun málsins ekki fundið neitt athugavert við að veita þessum mönnum íslenskan ríkisborgararjett.

Hæstv. forsrh. (JM) var í framsöguræðu sinni, er hann lagði þetta frv. fram fyrir þessa deild, allóbilgjarn í garð allsherjarnefndar síðasta þings og brá henni um ósanngirni og óviðeigandi meðferð á þessu máli, þegar nefndin hafði það til meðferðar á síðasta þingi. En sannleikurinn í þessu er sá, að þegar nefndin hafði rannsakað málið, sá hún, að þar var fyrst og fremst um einn íslenskan mann að ræða, sjera Friðrik Hallgrímsson, og þótti því sjálfsagt að taka hann út úr og flytja um hann sjerstaka frv. Jeg þarf ekki að endurtaka nú þær rökfærslur, sem þá voru færðar fyrir þessu, en jeg vísa algerlega á bug öllum aðdróttunum hæstv. forsrh. viðvíkjandi starfi nefndarinnar á síðasta þingi.