29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1054 í B-deild Alþingistíðinda. (579)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Björn Líndal:

Jeg vil leyfa mjer að mæla eindregið með því, að þessi brtt. á þskj. 242 verði samþ. Jeg þekki manninn persónulega, og aðeins að góðu, og veit ekki til, að hann hafi hjá nokkrum manni áunnið sjer annað en gott álit. Hann er mjög vinsæll maður í sinni sveit. Upp lýsingar um hann í stjfrv. í fyrra eru á þá leið, að hann sje fæddur í Noregi 20. sept. 1882. Hann hefir nú dvalið hjer á landi í 12 ár og er giftur íslenskri konu. Hann talar að vísu ekki lýtalausa íslensku, enda mun það ekki svo títt um menn, sem ekki hafa dvalið hjer lengur. En hann skilur þó íslensku fullkomlega, og hver maður, sem ekki kann annað en íslensku, skilur hann vel. En mjer er ekki grunlaust um, að ástæðan til þess, að honum var synjað um ríkisborgararjett í fyrra, hafi verið sú, að hann átti heima í Krossanesi og er í þjónustu verksmiðjunnar þar. En það var algerlega rangt að láta hann gjalda þess, að þarna kom upp ágreiningur út af mælingu síldar. Hann hefir þar alt annað starf með höndum en mælingu á nýrri síld. Hann hefir þar einkum á hendi umsjón með síldarmjöli og sölu á því hjer innanlands, og hefi jeg engan heyrt kvarta undan þeim viðskiftum. — Hæstv. forsrh. gat þess, að það kynni að vera minni ástæða til þess nú en áður að veita honum íslenskan ríkisborgararjett, þar sem hann væri giftur íslenskri konu, og þar sem fyrir þinginu lægi nú frv. um það, að kona glataði ekki ríkisborgararjetti sínum, þótt hún giftist útlendingi, ef hún dveldist eftirleiðis í landinu. Þetta er að vísu mikil bót, en því aðeins kemur slík löggjöf að fullu gagni, að hún sje í samræmi við löggjöf annara þjóða, og þá sjerstaklega þeirra, sem næstar okkur eru og við höfum mestar samgöngur við og viðskifti. Ósamræmi í löggjöf nágrannalanda í þessum efnum getur haft ýmiskonar alvarleg óþægindi í för með sjer. Af því getur meðal annars leitt, að sami maður hafi samtímis ríkisborgararjett í tveim löndum, og er það litlu betra stundum og undir vissum kringumstæðum en að eiga hvergi þennan rjett, og getum við búist við, að óþægindi geti leitt af, ef hvortveggja löggjöfin er ekki í neinu samræmi. Jeg vil eindregið mæla með því, að þessi brtt. verði samþykt, og jeg þori óhikað að fullyrða, að við það verður íslenska þjóðin einum góðum borgara ríkari en áður.