29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1056 í B-deild Alþingistíðinda. (580)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Bernharð Stefánsson:

Það er aðeins örlítið, sem jeg þarf að segja, því að mjer hefir aldrei dottið í hug að gera þessa brtt. að beinu kappsmáli. Hv. frsm. nefndarinnar (JBald) hjelt því fram, að maðurinn hefði fengið svar í fyrra, þar sem nefndin hefði ekki viljað taka hann upp og leggja til, að hann fengi ríkisborgararjett. Þetta kom í raun og veru hvergi fram, því að það stóð ekkert um það í neinu nál. eða nein neitun um það frá nefndinni að bera málið fram, nje heldur neinar ástæður fyrir því, að það var ekki gert, heldur þagði nefndin um málið. Hv. frsm. sagði, að hann áliti það rjett, að svona mál væru afgreidd í nefndum; það væri verra að vera að ræða þau fram og aftur í þingsölunum. Jeg get verið hv. frsm. sammála um þetta, en vil geta þess, að það hefir ekki fengist, að háttv. nefnd tæki ákvörðun um málið. Jeg sneri mjer til hennar með málið, með tilmælum um, að hún tæki afstöðu til þess, og hefði nefndin tilkynt mjer það, að hún hefði beinlínis á móti því, að þessum manni væri veittur ríkisborgararjettur, þá hefði jeg látið þar staðar numið. En þegar jeg kom á fund nefndarinnar til að ræða þetta við hana, þá var það svar hennar, að nefndin tæki ekki ákvörðun um þetta fyr en bein till. kæmi um það. Jeg gat því ekki sjeð, að hægt væri að fá svar með öðru móti en því að bera fram slíka brtt. Hv. frsm. gat þess, að jeg hefði átt sæti í nefndinni í fyrra, og er það rjett; en nefndin stakk þá undir stól frv. stjórnarinnar um veiting ríkisborgararjettar, en flutti í þess stað frv. um að veita aðeins einum manni ríkisborgararjett. Og þótt jeg gerði ekki ágreining, þá býst jeg við, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) muni það, að jeg var ekki allskostar ánægður með þessa aðferð. Út af því, sem háttv. 1. þm. Árn. (MT) sagði, að það væri eðlilegast, að slík mál sem þessi kæmu frá stjórninni sjálfri, þá hefir hæstv. forsrh. vikið að því, að stjórnin hefir áður flutt tillögu um að veita þessum manni ríkisborgararjett. Í þessu sambandi skal jeg einnig geta þess, að áður en jeg flutti þessa brtt., spurði jeg hæstv. dómsmálaráðherra að því, hvort hann hefði nokkuð á móti því, að þessi till. kæmi fram, og kvað hann það ekki vera. En hvað það snertir, sem hæstv. forsrh. mintist á, að maðurinn hefði ekki nú snúið sjer til stjórnarinnar, og hún þess vegna ekki borið fram málið, þá mun orökin vera sú, að hann áleit, að beiðnin lægi enn fyrir, þar sem hann hefir ekki fengið svar við þessari málaleitun sinni, því eins og eðlilegt er, er hann ekki svo kunnugur því, hvernig svona mál eru rekin hjer.

Jeg ætla ekki að lengja mál mitt frekar; hv. þm. verða að eiga það við sjálfa sig, hvort þeir vilja líta sanngjarnlega á málefni þessa manns eða ekki.