29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 250 í B-deild Alþingistíðinda. (59)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Baldvinsson:

Jeg ætla að minnast lítillega á þær brtt., sem jeg á í þessum kafla fjárlaganna. Jeg ætla ekkert að hæla mjer af því, að jeg eigi þær fáar, því að jeg tel það enga dygð. Ef menn sjá, að eitthvað það vantar, sem þeir vilja að fram komi og þjóðinni má verða til gagns, þá eiga þeir að gera brtt. og berjast fyrir þeim.

Fyrsta brtt. mín er á þskj. 257, þess efnis að veita Karli O. Runólfssyni 3000 kr. styrk til hljómlistarnáms erlendis. Þetta er ungur iðnaðarmaður, hefir lengi starfað í Hljómsveit Reykjavíkur og hefir lagt á sig mikið starf við það og er fullur áhuga á hljómlist. Hann hefir hin prýðilegustu meðmæli frá mönnum, er þekkja hann og list hans, og eigi nokkur maður að fá styrk sakir meðmæla, þá á þessi maður að fá styrk. Efnahagur hans er ekki þannig, að hann geti lagt með sjer neitt verulega, því að þótt hann hafi unnið að iðn sinni, þá hefir hann haft mikil útgjöld einmitt í sambandi við þessi störf sín í þágu hljómlistarinnar. Sökum þessa undangengna kostnaðar getur hann ekki haldið áfram að kosta sig til frekara náms, en hann er nú á hljómlistarskólanum í Kaupmannahöfn. Hann hefir lagt fram meðmæli frá kennara sínum þar, og auk þess frá Sigfúsi Einarssyni og Páli Ísólfssyni. Þau eru á þá leið, að ekki er efi á því, að styrkja ber þennan mann. Sigfús Einarsson segir, að hann sje „óvenjulega áhugasamur og duglegur maður“ og hafi „kent og stjórnað flokkum á Ísafirði og Hafnarfirði og ef til vill víðar með góðum árangri.“ Umsögn Páls Ísólfssonar er stutt og ákveðin, og vil jeg, með leyfi hæstv. forseta, lesa hana upp:

„Herra Karl Runólfsson er gæddur mjög miklum músikhæfileikum. Hann er og fyrirmynd í ástundunarsemi og dugnaði. Þykist jeg þess fullviss, að hann verði hjer þarfur maður á þessu sviði, verði honum veittur styrkur til námsins. Jeg mæli eindregið með því, að hið háa Alþingi veiti umsækjanda hina umbeðnu fjárupphæð.“

Jeg hygg, að eindregnari meðmæli en þetta sjeu ekki fáanleg, og ættu þau að verða nokkuð þung á metunum hjer. Jeg hefi farið fram á 3000 kr., og er það vitanlega það allra minsta, sem hann getur komist af með. En þó hefi jeg komið með till. til vara um 2500 kr., og vænti jeg, að ekki þurfi til hennar að taka. Fyrir utan þessi meðmæli skal jeg geta þess, að nokkrir áhugasamir kunningjar þessa manns hafa lagt á sig gjöld til styrktar honum, en það er nú svo með slíkt, að þótt viljinn sje góður, þá trjenast menn upp á því til lengdar, svo og líka af því, að flestir eru þetta fátækir menn, sem ekkert mega missa. En af þessu má sjá, hvílíkt álit menn hafa á Karli Runólfssyni, og ber hjer alt að sama brunni og vænti jeg því, að jeg þurfi ekki að fara fleiri orðum um þennan lið.

Önnur brtt. mín er viðvíkjandi styrknum til Þórbergs Þórðarsonar. Í fjárlagafrv. stjórnarinnar hefir styrkur verið upptekinn eins og í fyrra. Þetta er nú lítil fjárupphæð, en starfið er af öllum álitið mjög mikilsvert, að safna orðum úr alþýðumálinu, sem nú eru óðum að gleymast. Er ekki nema einstaka maður fær um slíkt. Það hefir af sumum verið fundið að því, að of mikið hafi verið tekið af orðum. En það er einmitt kostur við starfið, því að þá er síður hætt við því, að nokkuð hlaupi framhjá. Þeir Sigfús Blöndal og Björn M. Olsen hafa veitt Þórbergi hin bestu meðmæli til þessa starfa, enda hefir hann sýnt, að hann er honum vel vaxinn. En fjárveiting þessi er svo lág, að það er ekki von á því, að hann geti lagt mikla stund á starf þetta. Því hefi jeg farið fram á þessa hækkun. Og því fremur ætti Alþingi að hækka við mann þennan, sem hann var ómaklega sviftur starfa þeim, er hann hafði við opinbera skóla hjer. Vænti jeg þess, að Alþingi láti í ljós vanþóknun sína á því athæfi með því að samþykkja hækkunina til þessa óvenjulega fjölhæfa og gáfaða manns.