30.04.1926
Efri deild: 63. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1061 í B-deild Alþingistíðinda. (593)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Frsm. (Eggert Pálsson):

Mjer þykja allundarleg mótmæli þau, er nú koma fram gegn frv., og þykir mjer þau koma nokkuð eftir dúk og disk. Málið hefir verið hjer tvisvar til umræðu, og gefið eftir hætti allgreinilegt nál. um það, og einmitt í nál. gerð grein fyrir því, hvers vegna þriðji liðurinn kom fyrst inn við meðferð málsins í hv. Nd. Við framsögu hjer skýrði jeg frá því, að eftir því, sem fyrir lægi í skjölunum, væri ekki annað að sjá en að stjórnin hefði haft það eitt til afsökunar því eða ástæðu, að 3. liðurinn var ekki tekinn strax í byrjun með, að það vantaði vottorð frá sveitarstjórn og lögreglustjóra. En áður en málið fór úr hv. Nd. lágu þessi vottorð fyrir, og var þá lokið því, sem hæstv. stjórn þótti á vanta, til þess að ríkisborgararjett mætti veita þessum umrædda manni. Hv. Nd. hefir látið þetta nægja og samþykt, að þessum manni væri bætt við. Skil jeg því ekki, hvers vegna þessi alda rís nú upp við 3. umr. málsins, þegar öll skjöl liggja fyrir. Það er eins og menn hafi ekkert tekið eftir, hvað var verið að gera við 2. umr.