04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1063 í B-deild Alþingistíðinda. (599)

70. mál, veiting ríkisborgararéttar

Jóhann Jósefsson:

Þegar þetta mál átti að vera hjer til 3. umræðu fyrir nokkrum dögum, bað jeg um, að það yrði tekið út af dagskrá vegna lítilsháttar aths., sem mjer hafði borist viðvíkjandi 3. lið frv. Vildi jeg út af þessari athugasemd gera tilraun til að ganga úr skugga um, hvort veruleg ástæða væri til þess að gera brtt. við þennan lið við 3. umr. Jeg hefi nú komist að þeirri niðurstöðu, að til þess sje ekki fullnægjandi ástæða, þar sem umsækjandi sá, er um er að ræða, hefir öll skjöl í lagi, sem þurfa þykir til þess að öðlast þennan rjett, sem um er að ræða. Það, sem fært hefir verið fram til mótmæla því, að hann fengi þennan rjett, er það, að sumarið 1924 er hann skráður eigandi skips, sem komst undir rannsókn sumarið á undan vegna vöntunar á þjóðernisskírteini. Jeg skal taka það fram, að þegar skipið var sett fast, var ekki hægt að sjá, að þessi maður væri neitt við það riðinn. Hann kemur fyrst til sögunnar í sambandi við þetta skip árið eftir. Um skip þetta liggja fyrir þessar upplýsingar: Það heitir „Rolf“ og var fært til Siglufjarðar sumarið 1923 af því að ekki var hægt að sjá, að það væri íslenskt skip. Meðferð málsins sýnist hafa verið næsta kynleg. Það er ekki til lykta leitt þar á staðnum, heldur eru öll skjöl þess send til Akureyrar. Núverandi forseti Fiskifjelagsins segir mjer, að hann viti ekki til þess, að meira hafi verið gert í málinu. Jeg leyfi mjer að beina því til stjórnarinnar, að hún hafi betra eftirlit með því, hvernig lögunum er framfylgt í þessu efni.

Viðvíkjandi þessum umsækjanda er það að segja, eins og jeg hefi tekið fram, að þó hugsast geti, að hann sje skrásettur fyrir skipi, sem hann ekki á, þá eru ekki svo miklu meiri líkur til þess um hann en suma aðra, að ástæða sje til þess að neita umsókn hans, þar sem öll skjöl hans viðvíkjandi þessari rjettarveitingu eru í lagi. Jeg sje því ekki ástæðu til að koma fram með brtt.