15.04.1926
Efri deild: 51. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1066 í B-deild Alþingistíðinda. (606)

85. mál, ríkisborgararéttur

Eggert Pálsson:

Eins og hæstv. forseti tók fram er form. og frsm. allshn. (JóhJóh) fjarverandi. En hann fór þess á leit við mig, að jeg fylgdi frv. úr hlaði með fáeinum orðum. Býst jeg við, að það verði vandalítið, enda mun enginn ágreiningur vera um þetta mál.

Eins og tekið er fram í nál., álítur nefndin frv. þannig vaxið, að sjálfsagt sje að samþykkja það. Tilgangurinn með því er að samræma löggjöf vora löggjöf þeirri, er gildir á Norðurlöndum um þessi efni, og haga henni eftir breyttum kringumstæðum að því er snertir konurnar. Því að nú hafa þær jafnrjetti við karlmenn, og þykir rjett, að það komi fram í lögunum.

Nefndin hefir gert nokkrar breytingar á frv., en það eru ekki efnisbreytingar, heldur aðeins orðabreytingar.

Í 1. gr., upphafi 2. málsgr., fanst okkur óviðfeldið að tala um, ef barn fyndist, eins og einhver hlutur hafi týnst, en vildum leggja til, að það yrði orðað eins og í brtt. Er það líka í samræmi við lögin, því að 8. gr. byrjar á sömu orðum.

2. brtt. þarf engrar skýringar við. Í 4. gr. 2. málsgr. stendur: samkvæmt 1. málsgr. En það bendir til, að um fleiri málsgreinar sje að ræða. Þótti nefndinni því viðfeldnara að hafa í staðinn: undanfarandi málsgr.

Hvað snertir 3. brtt., við 6. gr., þá er það aðeins orðabreyting, eins og allir sjá. Þar stóð áður: „sem fæddur er“, en verði: „sem fædd er“, — og lagi sig þannig hvað eftir öðru.

Hygg jeg svo, að ekki þurfi hjer meira að segja, en eins og jeg tók fram áðan, leggur nefndin til, að frv. verði samþ.