29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 259 í B-deild Alþingistíðinda. (62)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Auðunn Jónsson:

* Jeg á aðeins eina brtt. við þennan kafla fjárlaganna að þessu sinni. Ástæðan til þess, að jeg hefi komið með þessa brtt., er sú, að Staðarfellsskólinn getur ekki tekið til starfa á næstkomandi vori, eins og ráð var fyrir gert vegna þess, að það hefir orðið að samkomulagi milli ábúandans á Staðarfelli og hlutaðeigenda, að ábúandinn haldi ábúðarrjettinum þar til í fardögum 1927. Þess vegna er nauðsynlegt að flytja þær upphæðir, sem veittar eru í fjárlögum 1926, yfir á fjárlög fyrir árið 1927, og hefi jeg komið með brtt. í þessu skyni. Það verður auðvitað heldur ekki varið neinu til endurbóta á húsinu þar á þessu ári, en till. fer fram á það, að sömu upphæð verði til þess varið árið 1927 eins og ráð er fyrir gert 1926, til endurbóta, en þar að auki hefi jeg leyft mjer að koma með till. um það, að þær 3 þús. kr., sem áætlað var, að gengju til starfrækslu skólans á yfirstandandi ári, verði veittar forstöðukonu skólans, bæði sem uppbót fyrir það, að hún verður að bíða eitt ár enn, þótt hún hafi búið sig undir að taka við skólanum í vor, og svo til þess, að hún geti haldið vekjandi fyrirlestra fyrir sveitakonur og leiðbeint þeim á yfirstandandi ári. Jeg skal geta þess, að mjer hefir borist skjal frá ýmsum kvenfjelögum og ýmsum málsmetandi konum og körlum, þess efnis að skora á Alþingi áð láta það ekki dragast lengi, að skólinn verði stofnaður. Með leyfi hæstv. forseta skal jeg leyfa mjer að lesa upp þetta erindi, það er ekki langt og er svo hljóðandi:

„Við undirrituð leyfum okkur hjer með að skora á hið háa Alþingi Íslendinga, að það standi fast við ákvörðun sína um stofnun húsmæðraskóla á Staðarfelli, og að það dragist ekki lengur en til vorsins 1927, að skólajörðin losni og skólinn byrji. Við erum mjög óánægð yfir þeim drætti, sem orðið hefir á stofnun skólans.

Til að bæta íslenskum konum, og þá sjerstaklega sveitakonunum, upp það misrjetti, sem hlýst af þeim drætti, sem verður á stofnun skólans, æskjum við þess, að þar þrjár þúsundir króna, sem ætlaðar voru til rekstrar skólans þetta ár, falli óskertar til Sigurborgar Kristjánsdóttur frá Múla, gegn því að hún ferðist um landið og flytji vekjandi og fræðandi erindi og leiðbeini konum verklega (verði það sem Svíar kalla „Hemkonsulent“).

Það er mjög hætt við því, að Sigurborg Kristjánsdóttir geti ekki til lengdar beðið í óvissu eftir stofnun skólans. Þess vegna þarf hún að fá vissan starfa þetta ár, og það ætti öllum að vera ljúft að veita henni, fyrir þann dugnað og ósjerhlífni, er hún hefir sýnt í fræðslustarfi sínu undanfarin ár (umferðakenslu).

Sigurborg Kristjánsdóttir hefir einhuga traust okkar til að takast forstöðu Staðarfellsskólans á hendur, sakir þekkingar sinnar og mannkosta og sakir hinnar miklu reynslu, sem hún hefir fengið við að vera umferðakennari í matreiðslu síðustu fjögur árin.

Með mikilli virðingu.

Ragnhildur Pjetursdóttir, Háteigi,

p. t. form. Hins ísl. kvenfjelags.“

Og svo er fjöldi af öðrum konum og kvenfjelögum og körlum, þar á meðal Sigurður Sigurðsson búnaðarmálastjóri, Magnús Þorláksson, Blikastöðum, form. Búnaðarsambands Kjalarnesþings. Vænti jeg þess, að hv. deild geti fallist á þessa till. mína og að jeg þurfi ekki að hafa ítarlegri framsögu að þessu sinni.

Jeg á hjer að vísu eina brtt., sem háttv. fjvn. hefir tekið upp, það er erfiðleikauppbót til prestsins í Ögurþingum; en jeg skal spara tímann með því að mæla ekki með henni, en jeg vænti þess, að þessi litla uppbót verði samþykt, og að kannske verði bætt við hana síðar.

*óyfirlesið af ræðumanni.