21.04.1926
Neðri deild: 59. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1077 í B-deild Alþingistíðinda. (648)

4. mál, landsreikningar 1924

Fjármálaráðherra (JÞ):

Í nál. hv. fjhn. á þskj. 368 er óskað eftir því, að gerð sje grein fyrir því, hvernig standi á nokkrum greiðslum, sem færðar eru til útgjalda í 24. gr. fjárlaganna, samkvæmt lögum og þingsályktunum.

Fyrsta greiðslan, 5 þús. kr., er færð samkvæmt lögum um kaup á skipum frá 1917. Það eru eftirstöðvar af kostnaði við viðgerð á e/s „Borg“, sem landið átti, og greitt til skipasmíðastöðvar í Kaupmannahöfn.

Því næst eru 625 kr., sem greiddar hafa verið samkvæmt lögum frá 1917, um stofnun alþýðuskóla á Eiðum. Eru það vextir og afborgun af láni, er á eigninni hvíldi, er ríkið tók skólann að sjer til rekstrar, og það hefir verið siður fram að þessu að færa þetta í þessa grein fjárlaganna, þótt það raunar ætti betur heima í 7. gr. ásamt öðrum slíkum greiðslum.

Þá er greiðsla til kornforðabúrs, 102 kr., sem er styrkur til Fellahrepps 1923–24, fyrir þá sök, að þessi hreppur hefir fullnægt þeim skilyrðum, sem lögum samkvæmt gefa þennan rjett.

Enn eru 11 þús. kr., sem greiddar hafa verið samkvæmt lögum um húsagerð ríkissjóðs, frá 1919. Þessu fje var varið til undirbúnings viðbótarbyggingar spítalans á Kleppi veturinn 1923–24, áður en sú stjórn tók við, er nú situr.

Loks eru 1750 kr., sem greiddar hafa verið í sambandi við þál. frá 1917, um skipun fossanefndar. Er það kostnaður við vatnsrenslismælingar, sem framkvæmdar hafa verið á ýmsum stöðum nú í nokkur ár.