29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 263 í B-deild Alþingistíðinda. (65)

1. mál, fjárlög 1927

Hákon Kristófersson:

Það var ekki ólíklegt, að það kæmi á daginn, að það hefði ekki aðeins verið smeygt inn fingrinum heldur allri hendinni í fyrra, þegar hinn svo kallaði húsmæðraskóli á Staðarfelli var samþyktur með fylgi hv. þm. N.-Ísf. (JAJ) o. fl. hv. þm. hjer í deildinni. Það sýnist nú svo, sem það hafi aðeins verið byrjunin, því að nú heyri jeg, að háttv. þm. (JAJ) ætlast til þess, að ríkissjóður leggi nokkuð af mörkum fyrir það, að viðkomandi heiðarleg persóna fái ekki jörðina til ábúðar á næstkomandi vori. Þeim möguleika mátti gera ráð fyrir í fyrra, því þá var það kunnugt, engu síður en nú, með hvaða skilmálum núverandi ábúandi hafði tekið jörðina til ábúðar. Hv. þm. (JAJ) las upp áskorun frá ýmsum merkum mönnum, þar sem þeir láta í ljós, hvað þeim þyki leitt, að það dregst svo mjög að koma upp hinum svo kallaða húsmæðraskóla. En hvaðan eru nú þessi nöfn? Háttv. þm. nefndi ekki nöfn annara manna en þeirra, sem búsettir eru hjer í bænum og í grendinni. Vill ekki hv. þm. (JAJ) benda mjer á, þó ekki sje nema eitt nafn úr Barðastrandarsýslu, því að það er sýsla, sem liggur náið þessum skóla, sem háttv. þm. hefir lagt svo mikið kapp á að koma upp. Að því ógleymdu, að einmitt úr þeirri sýslu hafa komið fram eindregin mótmæli gegn þessari skólastofnun, svo fremi að gjafasjóð frú Herdísar sál. Benediktsen væri saman við það blandað. (JAJ: Það er ekki kominn sími þangað). Jú, það er kominn sími til þeirra manna, sem háttv. þm. myndi trúa til rjettdæmis í þessu máli. Annars verð jeg að geta þess, að svo fremi almennur áhugi væri fyrir þessari skólastofnun, þá mundi hafa verið hægt að senda áskoranir um það brjeflega fyr en svo var áliðið, að flutningsmönnum málsins hjer á þingi þótti ástæða til að hóa þeim saman símleiðis. Jeg fyrir mitt leyti get ekki sjeð, að hjer fari neitt öðruvísi fram en við var búist í fyrstunni; það var vitanlegt, að ábúandinn myndi ekki fara af jörðinni í næstu fardögum, og þó að hann fari árið 1927, sem jeg leyfi mjer að efast um, — og fylgir þá ekki einhver böggull því skammrifi? — verður þá ekki að sýna honum einhverja tilhliðrunarsemi fyrir að standa einmitt þá upp? Jeg gæti vel fallist á það, að þessi virðulega kona, Sigurborg Kristjánsdóttir, færi fyrirlestraferðir um sveitir landsins, en trauðla trúi jeg, að hún geti annað því að fara um alt land, allra síst á einu ári. Nei, jeg hygg, að það hafi verið undinn of bráður bugur að þessu í fyrra, og þó að það heiti svo, að þetta eigi að vera húsmæðraskóli, þá er það í raun og veru svo, að það mun eiga að stofna hjer skóla í sambandi við það fje, sem Herdís sál. Benediktsen lagði fram til þess, eða sú mun hafa verið hugsun forgöngumanna. Og þykir mjer það þó ekki trúlegt, því að þá yrði hið háa Alþingi að koma svo fram, að óvirða síðustu ráðstöfun dáins manns, því að öllum, sem rjett og satt vilja segja, er það vitanlegt, að gjafabrjef hennar hljóðar upp á alt annað en slíka samsteypu sem þessa, sem jeg er ekki að hafa á móti að öðru leyti en því, að hún er algerlega röng, þegar litið er til gjafabrjefsins. Þessi orð mín eiga alls ekki að skiljast á þann hátt, að jeg vilji að neinu leyti rýra álit þeirrar heiðurskonu, Sigurborgar Kristjánsdóttur, sem hjer á hlut að máli. En hitt er álit mitt, að aðferð þeirra manna, sem að þessari skólastofnun hafa staðið, sje á þann veg, að betra hefði verið, að þeir hefðu hugsað sig lengur um áður en þeir rjeðust í hana. Jeg ætla þó ekki að ræða það frekar nú, enda hygg jeg, að segja megi um það eins og sagt var í fyrra: svo voru net úr garði gerð, að gegnum smugu fáir. Jeg hygg, að vinfengi og frændsemi og kannske fleira hafi tekið og taki svo fast höndum saman, að þýðingarlítið sje að spyrna á móti, þó að jeg eins og fyr sje algerlega á móti því, og þykist jeg gera það í fullu samræmi við mína umbjóðendur. Jeg held, að það sje ekki hætt við því, að háttv. þm. N.-Ísf. gleymi neinu í þessu máli, sem til málsbóta horfir, en ætíð getur þó verið gott að fá góðar leiðbeiningar. En annars verður aldrei að því fundið, þó að samherjar standi fast hver með öðrum, hvort sem er að ræða um eitt mál eða fleiri.

Jeg á hjer brtt. á þskj. 230, XXXVI. Það er lítilfjörleg útgjaldaaukning til gamallar prestsekkju, en hæstv. fjrh. ( JÞ), og fjvn. víst sömuleiðis, óskar þess, að sú nefnd fái brtt. til ítarlegri athugunar og skal jeg þess vegna ekkert hafa á móti því að taka hana aftur til 3. umr., en jeg skal strax taka það fram, að jeg álít, að þessi till., þótt hún verði kannske ekki samþykt, eigi ekki minni rjett á sjer heldur en sumar þær fjárupphæðir sama efnis, sem nú þegar eru lögfestar í fjárlögunum. En sem sagt, þar sem þessum tveim aðiljum virðist koma það betur, að þessi brtt. mín sje tekin aftur til 3. umr., þá hefi jeg ekkert á móti því.

Þá á jeg hjer aðra brtt. á sama þskj. XXVI, sem fer í þá átt, að niður falli styrkur til Þórbergs Þórðarsonar til að safna orðum úr alþýðumáli. Það er nú svo, að það er dálítið óþægilegt að koma með þannig lagaða till., sem sje þær till., sem fara í þá átt að fella eitthvað niður, því að það er meira að segja svo, að þm. geta ekki, fyrir reykvíkskum aðdróttunum og illum tilgátum, borið — þær fram og talað fyrir þeim, ef maður kemur með slíkar till. sem þessa. Jeg kem með hana í því skyni, að jeg álít, að viðkomandi maður hafi upphaflega fengið þennan styrk sem hjálp til að lifa af, og hafi hann því verið bundinn við eitthvert starf til málamynda, og svo verða framkvæmdirnar eftir því, sem við þykir eiga. En jeg skal strax geta þess, að ef styrkurinn væri bundinn við það, að maðurinn þyrfti að leita sjer heilsubótar, þá skyldi jeg vera mjög svo reiðubúinn til að greiða atkv. með honum. Jeg sje, að hv. 2. þm. Reykv. (JBald) hefir komið með (KlJ: Móteitur). Já, það má víst kalla það svo, og náttúrlega verð jeg að telja, að sú till. hv. þm. (JBald) byggist á hans persónulegu aðstöðu gagnvart manninum og eins því, hve sá heiðursmaður sje þessa styrks maklegur, því að ekki vil jeg slá því föstu, sem mjer þykir þó ekki ótrúlegt, að þar geti verið um að ræða flokksfylgi. Meðal annara brígsla, sem mjer hafa verið borin á brýn, er það að jeg skipi mjer í flokk þeirra manna, sem hafi svift hann atvinnu. En á jeg nokkra sök á því? Ef eitthvað er gert rangt þar, þá er að snúa sjer til þeirra manna, sem þar eiga hlut að máli; því að þó sá maður hafi farið miður lofsamlegum orðum um mig, þá er langt frá því, að jeg sje honum reiður fyrir það. Þó að hann hafi sagt, að jeg sje fákunnandi og á ýmsan hátt farið um mig svívirðilegum orðum, er jeg ekkert ósáttur við hann út af því. Að vera fávís er vitaskuld enginn glæpur á mína hlið, enda er það miklu verra að vera dálítið vitur og nota gáfur sínar til þess, er síður skyldi. En þegar litið er á það, hvernig framkoma þessa manns er, að hann sýnist ráðast á alt, sem öðrum er heilagt, þá verð jeg að halda því fram, að ekki sje hægt að styrkja slíkan mann til ritstarfa af opinberu fje. Það mætti nú ætla, að jeg reyndi að finna einhverjum af þessum orðum mínum stað, og jeg skal þá byrja á orðum, sem hann hefir látið falla um jafnheiðarlega stjett manna og prestastjett vora. Hann segir meðal annars í einu blaði þessa bæjar um hana, með leyfi hæstv. forseta.:

„Þeir braska, ágirnast peninga, okra, safna auði, ljúga, baknaga og blossa af reiði. Þeir hakka í sig dauða kindarskrokka, jeta tóbak, drekka áfengi og drýgja hór.“ (Eldvígslan, Alþbl., 6. nóv. 1925).

Þarna er dómur þessa rithöfundar um þessa stjett manna. Þó að máske megi finna, að einhver sauður úr hjörðinni sje blettóttur, þá verðum við að viðurkenna. að meiri hluti þeirrar stjettar hafi borið uppi íslenska, andlega menningu fram á síðustu áratugi. Og hvað segja nú málsvarar íslensku prestastjettarinnar, sem hjer eiga sæti innan þessarar hv. deildar? Taka þeir þessi ummæli með ljettu geði, eða fá þeir alvarlegar hugsanirt (Hlátur). Já, jeg veit, að þeir bera sig vel, en þeim er í rauninni ofraun að heyra þetta. Og þessi maður segist vera sannleikans boðberi.

Um einn virðulegan mann úr prestastjett, hv. 4. þm. Reykv. (MJ), segir hann, að hann (MJ) hafi gefið í skyn, að Kristur hafi fæðst fyrir vörusýningu í búðarglugga.

Þessi ummæli munu stafa af því, að þessi heiðursmaður mun einhverntíma hafa sagt, að svo mikil væri virðing manna fyrir Kristi, að nú, eftir 1900 ár, væri öllu því, sem menn þektu best, stilt út í búðarglugga, til þess að hafa það til jólanna. Og til híbýlaprýði væri stilt út myndum af honum.

Þegar kemur til bændamenningarinnar, þá segir hann, að við sjeum lúsugir, níðumst á þeim, sem minni máttar eru, o. s. frv. Ef þið viljið sannfærast um þetta, þá skuluð þið afla ykkur Brjefa til Láru. Þar eru sannanirnar fyrir orðum mínum. Af því, sem jeg þegar hefi sagt, verð jeg að telja það fyllilega óviðkunnanlegt að veita manni þessum styrk til ritstarfa; þegar hann notar hann til slíkra ritsmíða. En væri hjer um að ræða styrk til að leita sjer heilsubótar, af því að maðurinn væri sjúkur, þá gæti jeg fylgt honum. Og það er sannfæring mín, að sálarástandi þessa manns sje þannig varið, að styrkveiting honum til heilsubótar væri ekki ónauðsynleg.

Hann segir, að sjer gangi ekki pólitík til, því að hann sje maður ópólitískur. En í blaði, sem heitir Eldvígslan, telur hann alla þá, sem illvirki fremja, tilheyra Íhalds flokknum. Jeg vil nú spyrja: Er þessi skilgreining rjett? Mjer finst þetta vera níð um pólitíska andstæðinga, sem sje algerlega laust við alt rjettdæmi, og hafa á sjer mark hins hlutdræga dómara, sem aldrei getur sjeð neitt gott í fari þeirra manna, er tilheyra öðrum flokki en þeim, sem hann sjálfur telur sig til. Þeirra manna háttur er það, að níða í ræðu og riti marga af þeim mönnum, er standa þeim langtum framar í dáð og drengskap, bara af því, að þeir eru ekki skoðanabræður í róg og níði um náungann.

Hvernig farið sje með skynlausar skepnurnar, sem mönnunum er trúað fyrir, segir hann meðal annars, að á hafnargarðinum sjeu grindhoraðir, úttaugaðir hestar barðir áfram með svipum af böðlum þeim, sem með þá fara. Jeg vil nú spyrja: Hefir nokkur sá, sem hjer er staddur nú í háttv. deild, sjeð þetta, eða nokkuð líkt þessu, sem þessi sannleikspostuli segir frá? Jeg hugsa ekki; a. m. k. hefi jeg aldrei sjeð neitt þessu líkt síðan jeg fyrst fór að vera hjer. Það sanna er að mínu áliti, að notkunarhestar hjer í bænum sjeu mjög vel útlítandi. Þar af leiðandi leyfi jeg mjer að slá því föstu, að þessi áburður Þórbergs sje einn liðurinn í hinni löngu ósannindakeðju hans.

Þá er dálítil klausa til sjálfrar hátignarinnar, sem jeg vil leyfa mjer að lesa upp:

„Drottinn allsherjar situr uppi á himinbungunni og stjórnar þaðan svona með höppum og glöppum (sbr. samsullið forlög og frjálst val). Hann er fávís, veiklundaður og hefnigjarn. Hann setur mönnum lögmál til þess að breyta eftir, sem hann hefir margbrotið sjálfur. Hann grætur yfir syndum, sem hann hefir sjálfur komið inn í heiminn. Hann refsar fyrir afbrot, sem hann er sjálfur orsök í. Hann hefir sjerstök trúarbrögð. Þessi trúarbrögð hefir hann gefið sinni útvöldu þjóð í bók þeirri, sem biblía heitir. Þá, sem trúa biblíunni, gerir hann að stríðsgenerölum á himnum. Vantrúarmenn og heiðingja gerir hann að leikfangi djöfla úti í ystu myrkrum. Honum er meinilla við rússneska byltingamenn og bolsivika. En sjálfur fer hann eldi og fellibyljum um blómleg hjeruð og drekkir heilum þjóðflokkum í djúpum hafsins. Hann elskar „friðsæla borgara“, meðan þeir geta fjeflett aðra í skjóli heilags friðar.“ (JBald: Þetta er vel mælt). „Þetta er vel mælt,“ segir hv. 2. þm. Reykv. Hann má vita, að drottinn allsherjar lætur ekki að sjer hæða, og komið getur sú tíð, að þessi hv. þm. komist að raun um það, að þau orð eru ekki ósannindi, þó honum ef til vill finnist nú, að hann geti treyst á sinn eiginn mátt og megin.

Að sjálfsögðu viðurkenni jeg, að maður þessi skrifar góðan stíl, og því vildi jeg óska, að hann beitti sínum góðu rithæfileikum til einhvers nytsamara en að saurga helgustu tilfinningar manna og svívirða alt, sem öðrum er heilagt.

Því hefir verið haldið fram, að manni þessum gangi ekkert annað til en hreinskilni og sannleiksást. Þeir geta haft það álit, sem vilja; jeg hefi það ekki. En meðan ríkisvaldið styrkir eina trú, þá getur það ekki jafnhliða styrkt mann til þess að ráðast á hana.

Jeg skal viðurkenna, að jeg hefi ekki komið með þessa till. af því, að jeg búist við, að hún verði samþykt, því að jeg veit, hvað er að eiga við sósíalistana, þegar þeir taka höndum saman. En mjer þykir gaman að minna stjettarbræður mína, bændurna, á þau fögru orð, sem þeir kalla. Og vil jafnframt skora á þá að snúa styrk þessum við og láta það heita svo, að maður þessi fái þetta sjer til heilsubótar, því að það væri það eina rjetta, því að eitthvað hlýtur að vera að heilsu mannsins, og það svo mjög að stór nauðsyn er á að láta rannsaka hana af sjerfræðingum.

Að síðustu skal jeg taka það fram, að jeg er yfirleitt mjög hlyntur rithöfundum, þó jeg að sjálfsögðu vilji, að þeir haldi sig innan þeirra takmarka, sem við á og heiðarlegum mönnum er sæmandi. En að styrkja menn af opinberu fje til að skrifa svívirðingar bæði um guð og menn, það tel jeg langt fyrir utan alt velsæmi og vil engan þátt eiga í því.

Það má vel vera, að sumum finnist, að jeg persónulega hljóti að þekkja eitthvað ósæmilegt til þessa manns og sje því að ráðast á hann, en svo er ekki. Jeg þekki manninn ekki neitt. Hefi aðeins sjeð hann, en jeg dæmi hann ekki eftir öðru en hans eigin skrifum.

Jeg þykist nú hafa stilt orðum mínum svo í hóf, að ekki sje ástæða til, að hann fari að rjúka upp á norðan. En fari svo, verð jeg að taka því. En andsvörin verður að skrifa á reikning þeirra, sem telja sig „stuðaða“ af ummælum mínum.