29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 271 í B-deild Alþingistíðinda. (66)

1. mál, fjárlög 1927

Jón Auðunn Jónsson:

Jeg þarf að svara hv. þm. Barð. (HK) nokkrum orðum. Jeg hjelt, að þessum háttv. þm. þyrfti ekki að vera það þyrnir í augum, þó að tillagan um Staðarfellsskólann væri borin fram af rjettdæmi. En að hún sje borin fram af frændsemi, kannast jeg ekki við. En ef svo er, þá hlýtur sú frændsemi að vera langt fram í ættir.

Þessi hv. þm. virtist vera mjög hræddur um, að sýslumaður Dalamanna ljeti kaupa sig til að flytja af jörðinni. En svo er ekki. Það er með góðu samkomulagi, að hann flytur burtu í fardögum 1927. (HK: Ekki með góðu samkomulagi). Jú, áreiðanlega. Honum var bygt út síðastl. haust. En þegar hann kom suður í vetur, varð það að samkomulagi, að hann þyrfti ekki að flytja frá Staðarfelli fyr en næsta ár.

Þá saknaði hv. þm. nokkurra nafna undir skjal það, er jeg las upp áðan. Skal jeg því nefna nokkur, sem undir því standa, t. d.: Sigríður Ásgeirsdóttir. Hjarðarholti, Ragnhildur Jónasdóttir, Borgarnesi, Guðm. Þorbjarnarson, Stóra-Hofi, (form. Búnaðarsambands Suðurlands), Björgvin Vigfússon sýslumaður, Efra-Hvoli, Helga Ólafsdóttir, form. kvenfjel. í Vík í Mýrdal. Í stjórn kvenfjel. Vatnsleysustrandar: Anna Guðmundsdóttir, Guðríður Andrjesdóttir. Guðrún Egilsdóttir. Í stjórn kvenfjelags Lágafellssóknar: Kristín Jósafatsdóttir, Blikastöðum, Guðrún Jóhannsdóttir, Kollafirði, Ásta Jónsdóttir, Reykjum. Nenni jeg svo ekki að lesa fleiri nöfn; þessi ættu að vera nægileg til þess að sýna, að hjer eru fleiri að verki en Reykvíkingar. (HK: Það er enginn úr Barðastrandarsýslu). Já, alveg rjett. En það var enginn tími til að leita langt utan Reykjavíkur, en áreiðanlega hefði verið hægt að fá mörg nöfn þaðan undir áskorun þessa.

Að kona þessi geti farið um alt landið á einu ári, nær vitanlega engri átt. En hinsvegar býst jeg við, að þar sem stjórn Búnaðarfjelags Íslands á að gera tillögur um þessar fyrirlestraferðir, þá verði þeim hagað svo, að sem flestir hafi not af.

Annars er hjer ekki um aðrar upphæðir að ræða en þær, sem flytja þarf frá ári til árs, sem orsakast af því, að ekki var hægt að stofna skólann í fardögum 1926, nema þessar 3000 kr., sem jeg fer fram á að víkja stúlkunni fyrir alla þá fyrirhöfn og allan þann undirbúning, sem hún var búin að hafa, þar sem hún bjóst við að taka við skólanum í vor, og til þess að hún geti haldið áfram að vinna að mentun kvenna, einkum sveitakvenna.

Þá vil jeg geta þess, að bróðir hennar, sem ætlar að verða ráðsmaður hjá henni, sagði upp góðri stöðu og verður nú atvinnulaus næsta ár, aðeins fyrir þennan drátt á stofnun skólans. Annars get jeg ekki verið að karpa við hv. þm. Barð. (HK) um þetta mál, því að jeg veit, að honum er illa við að skóli komi á Staðarfelli, af því að hann býst við, að slík skólastofnun komi í bága við, að Herdísarskólinn komi í Flatey. En mjer finst, að þegar talað er um þetta mál, þá eigi að sleppa reipdrættinum um þann skóla, því að um hann hafa komið fram fleiri en ein ósk. Þannig vilja Snæfellingar fá hann á Helgafelli, Ísfirðingar og fleiri Vestfirðingar við Ísafjarðardjúp.

Það, sem hjer er því um að ræða, er að gefa sveitakonum kost á dálítilli sjermentun, þangað til hinn stóri Herdísarskóli kemur.