06.04.1926
Neðri deild: 46. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1085 í B-deild Alþingistíðinda. (665)

7. mál, fræðsla barna

Þórarinn Jónsson:

Það er aðeins örstutt aths. Jeg vildi aðeins geta þess, að jeg er ekki samdóma hv. nefnd um eina brtt., nr. 5 á þskj. 146. Brtt. er um það, að fella niður það ákvæði frv., að fara skuli eftir fjárveitingu fjárlaganna um tillag til byggingar skólahúsa, heldur veita úr ríkissjóði eins og um væri beðið til þessara bygginga, án íhlutunar þingsins, að 1/3 hluta. Það er alveg rjett, sem hv. frsm. (ÁÁ) tók fram, að um nokkurra ára bil hafa legið niðri byggingar skólahúsa, svo að þörfin er orðin nokkuð brýn, en það verða menn að athuga, að búast má við, að kröfurnar verði líka miklar. Það eru sjálfsagt 6–7 af hverjum 10 hreppum á landinu, sem ekki hafa bygt sjer skólahús, svo að búast mætti við, að fram gætu komið kröfur um 100 þús. kr. eða meira til skólabygginga á næstunni árlega. Það er líka rjett hjá hv. frsm., að ríkissjóður á ekki að greiða nema nokkurn hluta af þessum kostnaði, en það hlýtur að valda ósamræmi við aðrar fjárveitingar, sem geta verið eins þarfar, ef þetta þarf ekki að vera komið undir vilja þingsins á hverjum tíma. Heimilin hafa nú að undanförnu verið notuð til þessarar fræðslu, og þótt það sje ekki allskostar gott og fullnægi ekki þeim kröfum, sem gera má, held jeg, að ekki saki, þótt það dragist í 3–4 ár að bæta úr því.

Menn hafa talið það töluverða ástæðu fyrir því, að hrepparnir ráðist ekki í skólahúsbyggingu nema vel ári, að þeir eigi sjálfir að greiða 2/3 af kostnaðinum. En nú er það að athuga, að margir hreppar eiga óuppkomin samkomuhús, sem hafa mætti í sömu byggingu og skólahúsin, og mundi það ýta undir marga þeirra að ráðast sem fyrst í bygginguna, einkum þegar þeir vissu, að þeir ættu von á þessari hjálp frá ríkissjóði hvenær sem þeir óskuðu. Jeg hygg því varhugavert að taka þessi mál undan meðferð þingsins, og álít betra að halda þeim í sama horfi og áður.

Hv. frsm. sagði, að 14 hjeruð hefðu sótt um styrk á þessu ári til byggingar skólahúsa og að fræðslumálastjóri hafi sagt, að 30 þús. kr. mundu vera nægilegt fje. Í þessu liggur auðvitað þannig, að hann álítur ekki farandi lengra á þessu ári en að veita 30 þús.

Jeg er hv. nefnd sammála að öðru leyti, en vil leggjast eindregið á móti þessari brtt. hennar.