04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1110 í B-deild Alþingistíðinda. (689)

7. mál, fræðsla barna

Jóhannes Jóhannesson:

Jeg hefi skrifað undir brtt. nefndarinnar án fyrirvara. en jeg vil þó því aðeins, að þær verði samþyktar, að það verði ekki málinu að falli. Allir þeir, sem jeg hefi talað við um þetta efni og hafa vit á kenslumálum, telja frv. stórum betra en núgildandi lög.

Við höfðum tal af 3 mönnum úr mentmn. hv. Nd. En nú hefir öll nefndin haldið fund í morgun og tekið brtt. okkar til athugunar, og tveir þeirra, að minsta kosti, eru eindregið á móti brtt. l, a. og h. Og þegar svo stór minni hluti nefndarinnar legst á móti brtt., sýnist mjer málinu stofnað í hættu, ef brtt. yrði samþ. hjer í deildinni. En jeg vil ekki stuðla að því, og mun þess vegna greiða atkv. á móti þessari brtt. En hinar brtt. eru ekki svo, að nefndin í hv. Nd. sje á móti þeim, enda þótt hún telji þær lítilsvirði.