29.03.1926
Neðri deild: 43. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 281 í B-deild Alþingistíðinda. (69)

1. mál, fjárlög 1927

Pjetur Ottesen:

Hv. frsm. fjvn. (TrÞ) gat þess í ræðu sinni, að brtt. mín væri fallin, en það er á valdi forseta að úrskurða það. Jeg get ekki fallist á, að hún sje fallin.

Þá sagði hv. frsm., að mikil runa mundi koma á eftir, en samkvæmt upplýsingum, sem jeg hefi fengið hjá hæstv. fjrh., þá er aðeins um þrjú slík lán að ræða og hjer er um að tala. Það er lán, sem Reykjavíkurbæ var veitt, og nú eru komnir á fastir samningar um greiðslu á því. Og svo lán til Ísafjarðarkaupstaðar, sem nú á að gefa eftir. Þó því sje nú haldið fram, að þar sje ekki um eftirgjöf að ræða, heldur sje það styrkur til bryggjunnar á Ísafirði, þá verður þó ekki um það deilt, að þar sem niður á að falla greiðsla á margra ára vangoldnum vöxtum, þá er þó um fullkomna eftirgjöf að ræða, og nemur sú eftirgjöf 1/3 af þeirri upphæð, sem jeg fer fram á að eftir sje gefin. Um fleiri lán af þessu tægi er ekki að ræða, því að það eru þá lán úr viðlagasjóði.