04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1111 í B-deild Alþingistíðinda. (690)

7. mál, fræðsla barna

Eggert Pálsson:

Þetta er vitanlega mjög merkilegt mál, og það er því eðlilegt, að mönnum sýnist sitt hvað um það. Jeg vil ekki leggja stein í götu frv. en jeg fæ ekki skilið, að það verði því að falli í Nd., þótt breytingar sjeu gerðar á því hjer. Um sumar brtt. nefndarinnar er það að segja, að jeg felli mig miklu betur við þær en það, sem í frv. stendur.

1. brtt. finst mjer hafa mikið til síns máls. Það er leiðinlegt, að allur almenningur skuli ekki hafa meiri þekkingu á fornsögunum en raun er á. Hún var meiri áður en unglingafræðslan byrjaði. En þó lít jeg svo á, að það sje varhugavert að krefjast þess af börnum, að þau kunni efnið úr þremur Íslendingasögum, enda yrði það foreldrum ærinn kostnaðarauki í bókakaupum. (JJ: Menn geta haft lestrarfjelög). Það dugir ekki. Það leiðir að sjálfsögðu af þessari brtt., að kennarar verða að heimta það af foreldrum, að þeir kaupi þær bækur, sem börnin eiga að lesa. Þetta væri þó sök sjer, ef heimili kæmist af með að eiga einhverjar þrjár Íslendingasögur; en það nægir ekki, því að alt of víða mun það við brenna, að kennarar eru helst til ónærgætnir í því efni að heimta skifti á bókum. Þegar nýr kennari kemur, þykist hann ekki vilja eða geta notað samskonar bækur og kennarinn á undan hafði, og heimtar af foreldrunum, að keyptar sjeu nýjar eða aðrar námsbækur handa barninu. Og svo mundi fara með þessar Íslendingasögur, er hjer ræðir um. Nýr kennari heimtaði máske þekkingu á öðrum en þeim, sem kennarinn næsti á undan vildi hafa. Þetta er það, sem jeg hefi á móti brtt., enda þótt jeg telji til bóta, að æskulýðurinn fengi meiri fræðslu í þessu efni en nú á sjer stað. Að lestrarfjelögin geti bætt úr í þessu efni, tel jeg vafamál. Þótt þau hafi óneitanlega nokkra kosti og gefi fleirum færi á að kynnast bókum en áður var, þá hafa þau jafnframt eyðilagt bókamarkaðinn, dregið stórkostlega úr bókakaupum einstaklinga, þannig, að á nýrri myndarheimilum sjer maður varla bók. En þar sem bækur hafa fallið í arf, eru enn til góðir bókaskápar, og í þá mun að jafnaði bætt einhverju árlega.

Um 2. brtt. tek jeg undir það með hv. frsm. (JJ), að það væri mjög til bóta að fella niður kenslu í almennum brotum. Jeg lít á það eins og hann, að þótt börn geti með tímanum reiknað þau dæmi, sem eru í bókinni, þá skorti þau allan skilning á að reikna þau dæmi, sem ekki eru þar. Og jeg hefi fyrir satt, að hinn ágæti stærðfræðingur prófessor Eiríkur Briem vilji ekki láta kenna börnum meira fram að fermingaraldri en einfalda samlagningu, frádrátt og margföldun — ekki deilingu. Hún komi alveg af sjálfu sjer, þegar leikni er fengin í margfölduninni.

Með c-lið þykir mjer nokkuð langt gengið og heimtuð of víðtæk þekking í því efni. (JJ: Það er ekki víðtæk þekking). Þar koma enn bókakaup til greina, sem flestum eru ofviða, og svo er ekkert handhægt kenslukver til um þetta.

Um d-lið er það að segja, að jeg kann ekki eins vel við hann og orðalag frv. sjálfs. Jeg held, að það sje rjett hugsað að láta börn athuga sem best alt í kringum sig, því að á þann hátt geta þau smátt og smátt víkkað sjóndeildarhring sinn. Börn í sveitum eru nú miklu athugulli en börn í kaupstöðum. Er það sennilegt, að það stafi meðal annars af því, að í sveitunum er færra, sem glepur hugann, og þau þess vegna taki betur eftir því, sem þau sjá og heyra. Og viðvíkjandi kunnáttu barna í kaupstöðum, þá hefi jeg sömu söguna að segja og hv. 1. þm. Eyf. (EÁ), að það er sorglegt að bera saman þekkingu barna, sem þó eru talin í efri bekkjum barnaskólans hjer, og þekking sveitabarnanna, sem ekki njóta nema 8 vikna tilsagnar á vetri.

Þá er e-liður, og tel jeg hann til stórbóta, þar sem svo er ákveðið, að börn fái þekkingu á skaðsemi áfengis og tóbaks. Það er nauðsynlegt, að þetta komist sem fyrst inn hjá unglingunum, því að „smekkurinn sá, er kemst í ker, keiminn lengi eftir ber.“

Þá er líklega seinni málsgreinin, um plöntur og dýr, einnig til bóta og að mínu áliti miklu skynsamlegri en það, sem í frv. stendur, að börnum sje kend líffræði jurta. Þetta getur nú stafað af því, að jeg hefi aldrei grasafræðingur verið, en mjer hefir jafnan fundist, sem erfitt mundi fyrir börn að komast inn í lifnaðarháttu jurta.

Það er líka eðlilegt, að svo sje, því að jurtirnar eru fíngerðari og margbrotnari en dýrin, og því erfiðara fyrir börnin að átta sig á þeim.

Viðvíkjandi 3. brtt., við 20. gr., get jeg tekið það fram, að mjer stendur nokkuð á sama um hana. Því að ef barnið er fábjáni, getur ekki komið til greina að heimta af því neina kunnáttu í lestri og skrift.

Jeg skal svo ekki fjölyrða meira um þetta, en skal geta þess, að jeg geri ráð fyrir, að svo mikið sje eftir af þingsetutímanum, að þessar breytingar ættu ekki að hindra framgang þessa máls nú, enda eru þær ekki stórvægilegar.