04.05.1926
Efri deild: 66. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1114 í B-deild Alþingistíðinda. (691)

7. mál, fræðsla barna

Frsm. (Jónas Jónsson):

Jeg held, að ræða hv. 1. þm. Rang. (EP) skýri vel eðli þessa máls, enda hefir hann mikla reynslu í þessu efni samfara sínu aðalstarfi. Mjer líkar betur sú aðferð að breyta frv. eftir því, sem þurfa þykir, heldur en láta það falla niður af ótta við, að einhverjir hv. þm. í Nd. muni ekki fallast á þær breytingar. Jeg held líka, að hæstv. stjórn þurfi ekki að vera neitt hrædd um afdrif þessa frv., eða að það dagi uppi, því að það mun vera sameiginlegur áhugi allra flokka í þinginu að ljúka þessu máli nú á þessu þingi. Að því leyti, sem hv. þm. (EP) mintist á Íslendingasögur, er hann alveg á sama máli og jeg um nauðsyn þess, að börnum sje haldið að að lesa þær, en hvað snertir bækurnar álít jeg, að sjálfsagt sje að ákveða með reglugerð, hvaða bækur skuli lesa. Og jeg held, að þar sem lestrarfjelög eru, muni bækur þeirra nægja. Við það að heyra hv. 1. þm. Rang. tala styrktist jeg í trúnni á það, að rjett væri að fella niður almennu brotin. Það munu flestir sammála um það, að sú kensla komi alment ekki að tilætluðum notum. Það er venjan í barnaskólum, þegar lokið er við einskonartölur, að byrja á brotum strax, og svo áfram, og mun sú kensla víða koma að litlum notum. Á einum stað vissi jeg til þess, að kennari, sem álitinn var mjög vel fær í sinni grein, ljet barn á 11. ári læra brot, og barnið hafði auðvitað engan skilning á þeim. Þessi kennari var talinn ágætur, en hann drýgði þó þessa höfuðsynd, að láta börnin halda viðstöðulaust áfram og fara yfir sem mest án þess að hirða um hitt, hvort þau höfðu nokkurn skilning á því. Líklega ættu brot helst að lærast á unglingsaldrinum. Við það, sem hv. 1. þm. Rang. hafði eftir Eiríki Briem, get jeg bætt því, sem hinn ágæti stærðfræðingur dr. Ólafur Daníelsson sagði við mig, sem sje að daglega lífið útheimti ekki kunnáttu í öðrum reikningi en einskonartölum. Svona leit nú þessi mikli stærðfræðingur á málið. Hvað snertir till. nefndarinnar um lítilsháttar kenslu í veraldarsögu, í stað þess að læra um tímabil í okkar sögu, skal jeg geta þess, að það er til ein bók, jeg held mjög viðunandi kenslubók, í mannkynssögu eftir Þorleif H. Bjarnason. Sú bók er ætluð unglingum, er einföld og óbrotin, en með nýtískubrag. Jeg álít samt, að æfisögur sjeu heppilegri og betur við hæfi barna en menningarsöguágrip. Til er líka sögubók, sem Björn heitinn Jónsson þýddi og er ágæt, það sem hún nær.

Háttv. þm. (EP) mintist á, að börnin þyrfti fyrst að fræða um .að, sem næst þeim væri, átthaga sína o. s. frv., og víkka svo hringinn smám saman. Þetta er að mörgu leyti rjett, en jeg vil þú benda á eitt atriði í sambandi við þetta. T. d. er nú í nýrri útgáfu af landafræði ágætur kafli um Ísland eftir einhvern besta landafræðing hjerlendan, Ögmund Sigurðsson skólastjóra. Þessi kafli er mjög vel skrifaður og ágætar lýsingar á einstökum hjeruðum, en hætt er við, að ljelegur kennari þreyti nemendur með slíkri minniskenslu. Nöfnin verða of mörg, svo sem Lón, Mýrar, Suðursveit o. s. frv., og slík kensla kemur ekki að tilætluðum notum fyrir börn.

Þá ætla jeg að víkja nokkrum orðum að skoðun hv. þm. (EP) á því, hvað geri muninn á uppeldi barna í sveitum og í kaupstöðum. Okkur ber saman að niðurstöðunni til, en um hitt, hver ástæðan sje til þessa, virðist vera nokkur meiningamunur. Háttv. þm. leit svo á, að yfirburðir sveitanna stöfuðu aðallega af því, að þar væri færra um að vera. Jeg álít, að aðalmunurinn sje sá, að í sveitunum er það miklu fleira og fjölbreyttara, sem er við hæfi barna, heldur en í kaupstöðum, sem sje náttúran sjálf; hún hefir altaf verið stærsti og besti skólinn fyrir okkar þjóð. Í bæjunum er þetta alt öðruvísi. Barn, sem t. d. er fætt og uppalið á Grettisgötu og kemst sjaldan út úr bænum, sjer lítið af þeirri fjölbreytni náttúrunnar, sem sveitirnar hafa að bjóða og er svo vel fallin til þess að laða að sjer athygli barna. — Annars er þetta utan við efnið.

Jeg get tekið undir það, sem hv. 4. landsk. (IHB) sagði um það, að ekki væri ástæða til að vera hræddur við að gera þær breytingar á þessu frv. hjer í þessari hv. deild, sem miða til bóta, og mjer þykir leitt, ef frv., sem hefir tíma til að vera 11 vikur í hv. Nd., hefir ekki tíma til að vera 1 viku hjer, þú að síðar þurfi að athuga það við eina umr. í Nd.