06.05.1926
Efri deild: 68. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1123 í B-deild Alþingistíðinda. (702)

7. mál, fræðsla barna

Ingibjörg H. Bjarnason:

Jeg vildi aðeins undirstrika það, að enda þótt í þessu frv. standi ekki neitt í þá átt að útiloka konur frá kosningu í fræðslunefnd með því að veita þeim rjett til að skorast undan kosningu, þá virðist mjer rjettara að taka það skýrt fram í sjálfum lögunum, að þær skuli ekki hafa þessa heimild. Ekki veldur sá, er varar. Það er leitt að eyða þingtímanum ár eftir ár í umræður um það, hvort konum sje rjett og leyfilegt að skorast undan kosningum. Það má því skoða þessa brtt. við 24. gr. frv., um að konum skuli skylt að taka við kosningu í skólanefnd, sem einskonar varnagla. Hjer er ekki að ræða um neina hlífð, heldur beina skyldu samfara auknum rjettindum.