25.03.1926
Efri deild: 37. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1132 í B-deild Alþingistíðinda. (725)

8. mál, skipströnd og vogrek

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Þó að þetta mál sje einkar þýðingarmikið, mun jeg ekki verða langorður. Eins og öllum hv. þdm. er kunnugt, eru strandlög þau, sem nú gilda, frá 14. janúar 1876, og því orðin 50 ára gömul. Eins og nærri má geta, eru þau orðin úrelt nú, þar sem þau eru sett á þeim tíma, þegar samgöngur voru mjög ófullkomnar og enginn sími kominn. Í Nd. var í fyrra samin þingsályktun þess efnis, að skorað var á hæstv. stjórn að taka strandlöggjöfina til athugunar. Hæstv. stjórn hefir orðið við þessu, og hún hefir gert meira. Hún hefir líka tekið lagaákvæðin um vogrek til athugunar, og fjallar síðari partur frv. um þau. Þarna var þörfin enn brýnni, því að lagafyrirmæli um vogrek eru ennþá eldri en hin. Ákvæðin um vogrek í frv. koma í stað opins brjefs frá 4. maí 1778, 1.–4. gr., kansbr. frá 26. ágúst 1809 og opins brjefs frá 2. apríl 1853. Auk þess eru gömlu ákvæðin um vogrek óskýr og ruglingsleg. Jeg tel því vel farið, að í sambandi við strandlöggjöfina hafi farið fram endurskoðun á ákvæðunum um vogrek.

Allshn. getur ekki annað en lokið lofsorði á samningu frv. og leggur eindregið til, að það verði samþykt með fáeinum breytingum og leiðrjettingum, sem nefndin hefir gert.

Brtt. eru á þskj. 191, og er sú fyrsta við 2. málsgr. 5. gr. Þar er svo ákveðið, að hjeraðsdómari skuli láta skipstjóra staðfesta áður nefnda skýrslu sína fyrir dómi, svo og að halda sjóferðapróf yfir skipbrotsmönnum með þeim hætti o. s. frv. Nefndinni þykir nú ekki ástæða til að einskorða þetta ákvæði við skipbrotsmenn. Þeir menn geta verið á landi, sem eins mikið gætu borið um strandið og skipbrotsmenn sjálfir. Nefndin leggur því til að orðin „yfir skipbrotsmönnum“ falli burtu, þar sem hún lítur svo á, að ef frv. er orðað svona eins og það er nú, verði það skilið þannig, að prófið eigi bara að ná til skipbrotsmanna. Þá er brtt. b við sömu gr. Í frv. stendur: „Sjóferðapróf þarf þó ekki að halda, ef fyrirsvarsmaður þess ríkis, sem skip er frá, telur þess ekki þörf, nema manntjón hafi orðið eða slys á mönnum“. Nefndinni virðist, að þetta eigi einnig að gilda um staðfestingu áður nefndrar skýrslu, og vill því bæta inn í greinina orðunum: „og staðfesting skýrslu“, á milli orðanna „sjóferðapróf“ og „þarf.“

Næsta brtt. er við 12. gr. 3. málsgr. Þar stendur: „Hverju sinni er bókun er lokið, ritar hreppstjóri nafn sitt undir hana, ásamt skipstjóra eða þeim, er í stað hans kemur, og 2 öðrum valinkunnum mönnum, eftir að bókun hefir verið lesin upp fyrir þeim. Túlk skal hafa, ef hans er kostur og þörf.“ Nefndin sjer ekki ástæðu til að láta þessi fyrirmæli standa óbreytt og láta menn skrifa undir bókunina, ef þeir vita alls ekki, hvað í henni felst, þar sem oft getur komið fyrir, að ekki sje hægt að ná í túlk. Á eftir orðunum „er í hans stað kemur“ vill nefndin því setja orðin: ef hægt er að gera honum bókunina skiljanlega.

3. brtt., við 18. gr., er orðabreyting. Í frv. stendur „.... þar á meðal kostnaður af farningu skipbrotsmanna ....“ Þetta orð „farning“ er mjög óvenjulegt. Jeg hefi flett því upp í orðabók dr. Sigfúsar Blöndals, og þar segir, að orðið sje úrelt, en þýði eiginlega flutningur á sjó. Nefndin leggur því til, að í þess stað komi orðið „flutningur.“

4. brtt., við 19. gr., er einnig orðabreyting. Í frv. stendur: „Þá daga, er hreppstjóri heldur uppboð á strandgóssi, fær hann þó aðeins ferðakostnað og lögmælt sölulaun.“ Ástæðan til þessa orðalags var sú, að áður í sömu grein er kveðið svo á, að uppboðshaldari skuli hafa ferðakotnað eftir reikningi og líka uppboðsdaga. Meining frv. er, að þá dagana, sem uppboðið stendur, eigi þetta að koma í stað dagpeninga. Vill nefndin því, að í stað orðanna: „fær hann þó aðeins ferðakostnað og lögmælt sölulaun“, komi: „fær hann lögmælt sölulaun í stað fæðispeninga.“

5. brtt. er við 21. gr., um að í stað „1., 3., 6., 9. og 11. gr.“ komi: l., 8., 6., 9., 70. og 11. gr. Meðal þeirra ákvæða, sem nefndin telur rjett, að taki til stranda, eru ákvæði 10. gr., og held jeg, að mjer sje óhætt að segja, að svo hafi upphaflega staðið í frv., en verið felt niður, og efast jeg um, að það hafi verið að nægilega yfirhuguðu ráði.

6. brtt. er við 22. gr. Þar hefir auðsjáanlega fallið úr orðið „mannlaust“, og er því hjer líklega aðeins um leiðrjettingu að ræða. En sje orðalag frv. látið haldast mundu öll skipströnd falla undir vogrek.

Þá kann nefndin ekki við orðið .,neyslumaður“ í byrjun 23. gr., en leggur til, að í stað þess komi: „notandi“. Svo er brtt. b. við 23. gr., síðast í greininni, sem er raunar bara leiðrjetting. Á undan orðunum „glöggva lýsingu“ hafa fallið burt orðin „í tje.“

8. brtt. er við 24. gr. Í frv. stendur: „enda sendir dómsmálaráðuneytið eitt eintak af auglýsingunni hverjum fyrirsvarsmanni annara ríkja hjer á landi.“ Nefndinni þykir þetta óþarflega víðtækt.

Hjer í bænum er t. d. einn norskur aðalræðismaður, og úti um landið fjöldi óæðri ræðismanna. Væri það því aðeins aukinn kostnaður og fyrirhöfn að vera að senda þeim öllum slíka auglýsingu, og kæmi að fullum notum að senda hana aðeins til aðalræðismannsins. Leggur nefndin til, að breyting sje gerð í þá átt á orðalagi greinarinnar.

Þá er 9. brtt. nefndarinnar við 25. gr. Þar stendur í 3. málsgr.: „ólöglega hafi með málið farið“, og þykir nefndinni auðsætt, að orðið „verið“ hafi fallið niður. Er þetta því aðeins leiðrjetting.

Í 28. gr. er það ákveðið, að skip eða flak þurfi að hafa legið óhirt í fjöru 4 ár eða lengur, og þá fyrst geti lögreglustjóri auglýst, að það verði fengið þeim til eignar, er í greininni getur. — Þetta virðist nefndinni óþarflega langur frestur, og það því fremur, sem í 17. gr. frv. er ákveðinn aðeins tveggja ára frestur. Virðist óþarfi að hafa hann lengri hjer. Þó vill nefndin hafa það ákvæði, að frestur sje talinn frá því, er eigandi hefir leitt sig að vogrekinu, ef svo á stendur. Nefndin fær ekki sjeð, að neinum verði óleikur ger með þessu, því að eigandi ætti að hafa nægan tíma til að gefa sig fram og gera sínar ráðstafanir á þeim 9 mán., sem líða skulu frá birtingu auglýsingarinnar þar til skipið fellur til ríkissjóðs eða fjörueiganda.

Næsta brtt. nefndarinnar er við 33. gr. Nefndin kann ekki við það orðalag, að málin „fari að hætti“ einhverra mála, því að vitanlega „fara“ málin ekkert án þess, að yfirvöld eða aðrir „fari með“ þau.

Að öðru leyti vil jeg aðeins vísa til aths. við frv. stjórnarinnar, og leggur nefndin til, að frv. verði samþykt með þeim breytingum, er hún hefir fram borið.