04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1140 í B-deild Alþingistíðinda. (735)

8. mál, skipströnd og vogrek

Frsm. (Pjetur Þórðarson):

Þetta er merkilegt mál og þess vert, að vel sje frá því gengið. Skipströnd hjer við land eru miklu tíðari en á sjer stað víða erlendis, og eru til þess þær orsakir, að landið okkar er eyland og auðug og fjölsótt fiskimið alt umhverfis það. Nú er það algengt orðið, að skip kosta frá 100 þús. kr. alt að einni, miljón króna, og farmur og annað verðmæti innanborðs getur oft kostað eins mikið. Af þessu er augljóst, að hjer er ekki um smámuni að ræða oft og tíðum. Skipströnd eru svo algeng hjer við land, að það ber oft við hvert árið eftir annað, að stórir skipskaðar verða. Það er því ekki aðeins um að ræða björgun margra mannslífa, heldur eru einnig miklir og verðmætir farmar oft í húfi. Það getur því verið, að það verðmæti skifti miljónum króna, sem um er að ræða að glatist að meira eða minna leyti. Þess vegna er mikil nauðsyn á, að til sjeu góð lög og glögg fyrirmæli um alt það, sem að björgun lýtur. Fyrirmæli, sem skipi nákvæmlega fyrir um, hvaða íhlutun einstakir menn, allur almenningur og hið opinbera á að eiga um björgunarstarfsemina. Þess vegna er, eins og jeg sagði áðan, afarnauðsynlegt, að til sjeu góð lög um þetta efni, og það hefir líka þessi háttv. deild viðurkent með því að samþykkja þál. um þessa hluti á síðasta þingi. Árangurinn af þeirri samþykt er frv. það, sem hjer er til umræðu.

Nefndin telur rjett að lýsa því yfir, að hún álítur frv. þetta mjög vel úr garði gert og að í það vanti ekki nein ákvæði, sem máli skifta, og leggur því til við þessa háttv. deild, að frv. verði samþykt með smávægilegum breytingum, sem nefndin ber fram brtt. um.

Annars ætla jeg ekki að fara í neinar málalengingar um þetta mál, þó að það sje mjög mikilsvarðandi, enda er það ekki venja mín, því í nál. hefir verið tekið flest alt fram, sem segja þarf af nefndarinnar hálfu um þetta mál. Jeg vænti og, að hv. deildarmenn hafi kynt sjer þetta nál. á þskj. 472 og gert sjer grein fyrir því, sem þar er sagt.

Eins og venja er til við 2. umr., skal jeg stuttlega hlaupa yfir helstu atriði í hinum einstöku greinum frv.

Í 1. gr. eru ákvæði um, hvað gera skuli, ef einhversstaðar verður vart við, að skip sje í hættu statt eða hefir strandað. Aðalákvæðin eru um skyldu manna til að bregða fljótt við til björgunar og hverjum beri fyrst að tilkynna skipreika. Þá eru ákvæði um, hverjir skuli hafa á hendi forystu björgunarathafna o. s. frv. Þessi ákvæði eru að mestu leyti í samræmi við gildandi lagaákvæði erlendis, þar sem þessum málum þykir vel skipað. Lög okkar um þessi efni voru orðin úrelt og áttu ekki lengur við. Nefndin hefir talið rjett að bera fram brtt. við þessa grein, um það, að tilkynna beri eigendum skips og farms, ef kostur er, eða fyrirsvarsmönnum þeirra skipreika, og sömuleiðis þeim, sem trygt hafa skip eða farm, eða hvorttveggja. Þetta verður að telja nauðsynlegt, svo að aðiljar þessir geti gert sínar ráðstafanir viðvíkjandi því, sem í húfi er.

Í 2. gr. eru aðalatriðin þau, að skera úr svo fljótt sem unt er, hvort skip skuli talið strandað eða ekki, og til úrskurðar um þessi efni verður að vanda svo vel, sem kostur er. Vegna þess að björgun verður að framkvæma svo fljótt sem unt er, en skip og farmur er í hættu statt, verður úrskurður um þessa hluti að falla eins fljótt og frekast er kostur, til þess að greiða sem mest fyrir þeim ráðstöfunum, sem á eftir verða að koma og nauðsynlegar eru. Eins og sjá má af nál. á þskj. 472, leggur nefndin til, að breytt verði dálítið 2. gr. frv. Ástæðurnar fyrir þeirri breytingu má sjá í nál.

Ákvæði 3. gr. eru almennar reglur fyrir þann mann, sem fyrstur kemur á vettvang.

Fjórða grein er aðallega um það, hvers beri að gæta, ef skipstjóri eða annar viðstaddur fyrirsvarsmaður skips, vill ekki samþykkja íhlutun af hálfu hins opinbera. Sama er að segja um 5. gr. Hún ákveður, að dómsmálaráðuneytið skuli láta gera eyðublöð á ýmsum tungumálum, með spurningum um ferð skips og skipstjóra, og hvaða ráðstafana sje óskað af hálfu stjórnarvalda um björgun og meðferð skipsmanna. Á skipstjóri svo að skrá svör við spurningunum, en verði misbrestur á því, skal líta svo á, að hann óski ekki eftir aðstoð íslenskra stjórnarvalda.

Í 6. gr. eru aðeins ákvæði um, að lögreglustjóri skuli skipa fyrir um björgun og meðferð skipbrotsmanna eins fljótt og kostur er á.

Efni 7. gr. gengur aðallega út á að tryggja rjett þeirra, sem hlut eiga að máli með skipið, vátryggjanda eða umboðsmanns hans. Greinin kveður því skýrt á um, að sá, sem mestra hagsmuna á að gæta þegar svona stendur á, hafi fullan rjett til að taka í sínar hendur alla forustu við björgunina, ekki aðeins þegar í stað, heldur hvenær sem hann getur komið því við. Geta þeir því ráðið, hvaða aðferð notuð er við björgunina, og jafnframt, hve miklu fje er varið til björgunarinnar.

8. gr. hljóðar um, hvernig fara skuli að, ef vátryggjendur taka ekki björgunina í sínar hendur. Og 9. gr. sömuleiðis.

10. gr. hljóðar um skyldur almennings við slík tækifæri.

11. gr. hljóðar um, hvers beri að gæta um hjálp og aðstoð við skipbrotsmenn. En ef ræðismaður þess ríkis, sem skipið er frá, vill sjálfur sjá um það, þá koma íslensk stjórnarvöld þar ekki til.

12. gr. hljóðar um skyldur hreppstjóra, sem oft er aðili í þessum málum.

13. gr. hljóðar um, hvernig fara skal með þá menn, sem eru óviðriðnir strandið, og jafnframt þá, sem gera sig óhæfa til að vinna við björgun, sökum óreglu og óeirða.

14. gr. hljóðar um, hvernig fara skuli með þau matvæli, sem skemst hafa við strandið og orðin eru skaðvæn heilsu manna.

15. gr. kveður á um, hvers gæta beri um sóttvarnir.

16. gr. hljóðar um, hvernig fara skuli með bannvörur og tollvörur, sem bjargað kunni að verða.

17. gr. er löng og hefir inni að halda mörg ákvæði. Sjerstaklega fjallar hún um, hvernig fara skuli með skip og farm. Þá eru og ýmsar reglur um, hvers lögreglustjóra beri að gæta í þessum tilfellum. Sömuleiðis eru ákvæði um frest þann, sem kaupanda skal settur til þess að vera búinn að koma skipi eða skipsleifum burtu úr fjöru eða flæðarmáli.

18. gr. hljóðar um kostnaðarreikninga.

19. gr. talar aðeins um þóknun til lögreglustjóra og hreppstjóra fyrir störf þeirra

Þá er 20. gr. Hún kveður svo á, að skip og farmur skuli vera sem trygging fyrir öllum kostnaði við björgunina, og þá fyrst og fremst að því er snertir björgun mannanna. Sömuleiðis kveður hún á um, að ef andvirði þessara muna hrökkva ekki fyrir kostnaðinum, þá skuli það, sem á vantar, greiðast úr ríkissjóði, gegn endurgjaldi frá rjettum aðilja.

Þá er vert að taka eftir því, að 21. gr. frv., sem er síðasta greinin í þessum kafla, kveður á um það, að ákvæði frv. hjer að framan nái ekki til íslenskra skipa, nema fyrirmæli 1., 3., 6., 9., 10. og 11. gr. um björgun á mönnum og góssi og tilkynningar til hreppstjóra og lögreglustjóra, og 14., l5. og 16. gr., svo og 20. gr., að því leyti, sem ráðstafanir íslenskra stjórnarvalda vegna strandsins hafa haft kostnað í för með sjer.

Þá er 2. kafli frv. þessa, um vogrek. Lögin um vogrek eru nú orðin mjög óljós og eru á víð og dreif. Elstu ákvæðin munu vera orðin hart nær 150 ára gömul, eftir því sem stendur í síðustu grein frv. þessa.

22. gr. frv., sem er fyrsta grein þessa kafla, kveður á um, hvað teljast skuli vogrek. Og þó hún sje stutt, þá hygg jeg, að hún nái samt yfir það, sem ætla má, að þar til heyri.

23. gr. hljóðar um björgun og tilkynningar um vogrek.

24. gr. hljóðar um eignarheimildir fyrir vogrekum. Er fyrst ákvæði um, að eigandi geti fengið það strax í hendur, ef hann sannar ótvírætt eignarrjett sinn. Annars eru aðallega ákvæði um, með hverjum hætti menn geti leitt sig að vogrekum. Og það er eftir auglýsingum, sem gefnar eru út um vogrekið. En fyrirvarinn er 6 mánuðir.

25. gr. hljóðar um það, hverjir verða þá eigendur að vogreki, þegar alls hefir verið gætt.

Það má segja, að það sje nýtt ákvæði í lögunum, hvernig vogrek verður að lokum eign ríkissjóðs, ef rjettur eigandi gefur sig ekki fram.

Þá er og í þessari grein ákvæði um, að tilkallsmaður geti borið kröfu sína undir dómstólana, ef lögreglustjóri vill ekki að öllu leyti taka hana til greina. Sömuleiðis er í þessari grein ákvæði um, með hvaða hætti maður geti fengið kröfu sinni fullnægt eftir að hinn lögmælti frestur er liðinn.

Þá er 23. gr. Í henni eru ákvæði um, að vogrekið eða andvirði þess skuli vera veð fyrir þeim kostnaði, sem leiðir af auglýsingu og björgun á því.

Ákvæði 27. gr. eru um, hvað setja skuli í uppboðsskilmála o. fl.

Þá er III. kafli þessa frv. Það eru almenn ákvæði.

Fyrsta grein þess kafla er 28. gr. frv. Hún kveður á um, hvernig fara skuli að, þegar skip liggur óhirt í fjöru eftir að eigandi hefir leitt sig að því. Er tiltekið, að selja megi slíkt skip eða vogrek, þegar liðin eru tvö ár frá því að eigandi leiddi sig að því, og það hefir legið óhirt þann tíma.

Eins og sjá má í nál., kom til tals í nefndinni að stytta þennan frest. Ástæðan fyrir því var sú, að því lengur sem slíkir hlutir liggja óhirtir, því minna verðmæti verða þeir. Það er því tjón fyrir þjóðfjelagið öll sú rýrnun, sem á þeim verður. Er því rjett að láta sölu slíkra hluta fara fram sem fyrst, ef þeir eru ekki hirtir, því að það er betra að einhver njóti þeirra heldur en enginn. En eins og sjá má í nál., hefir það orðið að samkomulagi í nefndinni að bera ekki fram brtt. um, að fresturinn væri styttur. Þessi grein og sú næsta hafa inni að halda ákvæði um það, hve lengi skip megi liggja á fjöru, svo að eigandi missi ekki rjett sinn, og hvenær ríkissjóður og fjörueigandi fái rjett yfir skipinu. — Ákvæði 30. gr. eru nokkuð sjerstök, um það, hve fara skuli með strandað skip eða flak, ef ætla má, að það verði til hættu eða tálma.

31. gr. segir, að fyrirmæli laga þessara haggi ekki reglum þeim um skipsflök á höfnum inni, sem settar eru eða settar kunna að verða í löggiltum reglugerðum kaupstaða eða kauptúna.

32. gr. er um hegningarákvæði og sektir út af brotum á lögum þessum.

33. segir, að sektir samkvæmt lögum þessum renni í ríkissjóð, og hver sje meðferð mála þeirra, sem rísi út af þessum lögum.

34. gr. gefur fyrirmæli um þýðingar á lögunum á erlend mál og sjerprentun. 35. gr. er síðasta greinin. Þar eru upptalin þau lög, sem úr gildi falla samkvæmt þessum. Það er fyrst opið brjef 4. maí 1778, 1.–4. gr., sem fjallar um vogrek. Opið brjef 2. apríl 1853 fjallar einnig að mestu um vogrek. Lög nr. 1. 14. jan. 1876, eru núgildandi strandlög. Innan um þau eru einnig ákvæði um vogrek. Öll eru þessi ákvæði orðin gömul og úrelt í ýmsum greinum, og því mikil nauðsyn, að þeim sje breytt. Þá er 6. gr. laga nr. 2, 2. febr. 1894, sem er um borgun fyrir dómkvaðningu. Þá eru nýleg lög, nr. 18, 2. nóv. 1914, sem eru aðeins viðauki við lögin frá 1876. Víða í þessu frv. eru teknir orðrjettir kaflar úr þessum lögum, svo sem 28. og 29. gr. Þá er ákveðið að fella úr gildi 10. kapítula siglingalaganna, nr. 56, 30. nóv. 1914, að því leyti, sem tekur til skipstranda, og loks öll önnur lagafyrirmæli, sem koma í bága við lög þessi.

Jeg skal þá ekki orðlengja þetta frekar, enda vænti jeg þess, að hv. þdm. hafi nú gert sjer nokkra grein fyrir, hve máli þessu er farið. Vona jeg, að þeir láti málið hafa sem greiðastan gang gegnum deildina, því að allshn. er mikið áhugamál, að það geti nú orðið að lögum.