04.05.1926
Neðri deild: 69. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1149 í B-deild Alþingistíðinda. (737)

8. mál, skipströnd og vogrek

Jón Kjartansson:

Mjer þykir rjett að svara örfáum orðum aðfinslum hv. þm. N.-Ísf. (JAJ). Svipuð mótmæli hafa borist til nefndarinnar, en þau hafa reynst á litlum rökum bygð. — Hv. þm. (JAJ) taldi frv. vel samið fyrir V.-Skaftafellssýslu og Mýrasýslu. Ef hv. þm. hefir kynt sjer gildandi strandlög og borið þau saman við frv., fer varla hjá því, að hann hefir sjeð, að þau eru þrædd í flestum atriðum, aðeins gerð fyllri og lagfærð þau ákvæði, sem úrelt eru orðin. M. a. er svo um ákvæðin um björgun. Þau eru samhljóða ákvæðum siglingalaganna. Hv. þm. hafði mikið út á það að setja, að skip og góss væri að veði fyrir strandkostnaði; einkum fann hann að því, að kostnaður við heimsending skipsmanna væri talinn þar með. Þetta var ein umkvörtunin, sem kom frá vátryggingarfjelögunum. Nefndin gerði fyrirspurn um þetta til stjórnarráðsins, og sagði það, að það væri föst regla nú, og hefði altaf verið, að skip og góss væri að veði fyrir öllum slíkum kostnaði, og mundi svo alstaðar vera, a. m. k. á Norðurlöndum. Ef hv. þm. N.-Ísf. rengir þetta, getur hann kallað á hæstv. forsrh. (JM) innan úr Ed. og spurt hann. Tal hv. þm. um það, að í frv. sje hugsað um að ná sem mestu til björgunarmanna, tel jeg vera fjarstæðu, sem ekki er svara verð.

Háttv. þm. virðist ekki hafa tekið eftir þeim skyldum, sem lagðar eru á menn í frv. til þess að aðstoða við björgun. Frv. gengur út á það, að öllu verði bjargað, mönnum og góssi, þegar unt er.

Þau andmæli, sem virtust vera á mestum rökum bygð, að ilt væri að láta skipstjóra ákveða, hvenær skip skyldi talið strandað, hefir nefndin fyrir sitt leyti tekið til greina með brtt. sinni við 2. gr. Er þar gert ráð fyrir að fela hreppstjóra eða lögreglustjóra ásamt tveim valinkunnum mönnum að skera úr þessu. — Það er mikill misskilningur, sem fram hefir komið, bæði hjá hv. þm. N.-Ísf. og fleirum, að halda, að frv. þetta segi nokkuð fyrir um rjettarsambandið milli eiganda skips og farms annarsvegar og vátryggjanda hinsvegar, eða m. ö. o. hvenær skip skuli teljast á vegum vátryggjenda. Frv. segir aðeins fyrir um það, hvenær skip skuli talið strandað að ísl. lögum og með það farið samkv. þeim lögum. Annað felst ekki í frv. Jeg álít nóg að vitna í 7. gr. frv. til að sanna, að á engan hátt er gripið fram fyrir hendurnar á eigendum eða vátryggjendum með frv. — Sje jeg ekki ástæðu til að hafa um þetta fleiri orð; hv. frsm. (PÞ) hefir gengið svo vel í gegnum frv. í framsöguræðu sinni, að allir, sem hlýtt hafa á eða lesið hafa frv., vita, að mótbárurnar gegn því eru ekki á rökum bygðar.