10.05.1926
Efri deild: 71. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1155 í B-deild Alþingistíðinda. (746)

8. mál, skipströnd og vogrek

Frsm. (Jóhannes Jóhannesson):

Eins og framhaldsnál. ber með sjer, hefir allshn. athugað þetta frv. með breytingum Nd.; sem eru mjög smávægilegar, og leyfir hún sjer að leggja til, að frv. verði samþ. eins og það liggur nú fyrir. Nefndin er samþykk þeirri breytingu, sem hv. Nd. hefir gert á 1. gr., að lögreglustjóri tilkynni dómsmálaráðherra, svo og eigendum og vátryggjendum skips og farms, frá skipströndum.

Í 2. gr. hefir verið breytt dálítið ákvæði, sem lýtur að því, hverjir skuli kveða á um, hvort skip skuli telja strandað. Eftir frv. eins og það er nú á hreppstjóri eða lögreglustjóri að tilnefna tvo valinkunna menn til að kveða á um þetta með honum. Við 9. gr. hefir Nd. skotið því inn, að við björgun skuli þess gætt, að merki og auðkenni á góssi skemmist sem minst. Nefndin telur þessar smábreytingar yfirleitt til bóta og leggur til, að frv. verði samþykt.