27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1164 í B-deild Alþingistíðinda. (757)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Ingvar Pálmason:

Það var eiginlega aðeins örstutt athugasemd, sem jeg vildi beina til hv. nefndar.

Í upphafi 7. gr. frv. er gert ráð fyrir því, að kosning í hreppsnefnd fari fram á vorhreppaskilaþingi.

Í frv. því um útsvör, sem lagt er fyrir þetta þing, er meðal annars lagt til, að reikningsári sveitarfjelaganna sje breytt þannig, að það verði almanaksár, í stað þess, að það hefir verið fardagaár. Verði nú till. þessar samþyktar, þá ætti hreppsnefnd, ef svo fjelli, að fara frá á miðju reikningsári sveitarinnar. Slíkt er auðvitað ófært. En kannske á að skilja svo þetta fyrirmæli um kosninguna, að þó kosið sje svona snemma, þá eigi ekki að skifta um fyr en við nýár. Mjer þykir samt rjett að benda hv. nefnd og hv. þd. á þetta.