27.02.1926
Efri deild: 15. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1166 í B-deild Alþingistíðinda. (759)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Einar Árnason:

Jeg get fallist á, að flestar brtt. hv. nefndar sjeu til bóta. Að vísu eru sumar þeirra fremur lítilsverðar og breyta svo sem engu. Jeg mun nú samt fylgja þeim öllum, nema þeirri fyrstu. Í frv. er konum gefinn rjettur til að skorast undan kosningu, en brtt. fer fram á, að aðeins giftar konur öðlist þann rjett. Jeg lít svo á, að aðstaða kvenna til þess að taka þátt í opinberum störfum sje svo miklu erfiðari og verri en aðstaða karlmanna, að ekki sje nema sjálfsagt, að þær hafi þessi rjettindi. Það er fjarri sanni, að hjer sje nokkur rjettur tekinn frá konunum, því að hver kona, sem vill, getur komist að, ef hún á annað borð hefir til þess traust kjósenda sinna. En nú getur vel komið fyrir, þegar kosið er í hreppsnefnd í sveit, að fyrir kosningu verði kona, og ef brtt. er samþykt, ógift kona. Nú er sú sama kona ekki þar viðstödd, og getur því ekki neytt þessa rjettar. Verður hún þá að sætta sig við kosninguna, hversu andstætt sem það er vilja hennar. Sem sagt, jeg vil kvenþjóðinni svo vel, að jeg get ekki verið með þessari brtt. hv. nefndar.