02.03.1926
Efri deild: 17. fundur, 38. löggjafarþing.
Sjá dálk 1171 í B-deild Alþingistíðinda. (766)

16. mál, kosningar í málum sveita og kaupstaða

Frsm. (Guðmundur Ólafsson):

Allshn. hefir athugað þetta frv. síðan við 2. umr., einkum þó í sambandi við brjef borgarstjóra. Að þörf hafi verið á að athuga frv. nánar en gert var fyrir 2. umr., sjest best á brtt. þeim, sem fram hafa komið við 3. gr. þess, því að ekki hefir minna dugað en að tveir þm. kæmu með sína brtt. hvor um sama efni, og jafnframt nefndin, alt við þessa sömu grein. Er því vonandi, að hún lagist við þessa umræðu.

Þá hefir nefndin komið með brtt. við 4. gr., um að úrskurður sýslunefndaroddvita og atvinnumálaráðherra eftir þeirri grein verði ekki fullnaðarúrskurður, heldur að skjóta megi þeim úrskurði til dómstólanna, ef hlutaðeigandi vill.

Þá tók nefndin eftir því, að hvergi var tekið fram í lögunum, hver væri oddviti kjörstjórnar. Fyrir þá sök hefir nefndin orðað upp fyrri málsgrein 9. gr. frv., til þess að ráða bót á þessu.

Sje jeg svo ekki ástæðu til að fjölyrða frekar um þetta. En út af brtt. háttv. 4. landsk. (IHB) vil jeg taka það fram, að við síðustu umræðu þessa máls hjer í deildinni gat jeg þess, að mjer fyndist rjettast, að allar konur væru skyldar að taka við kosningu, þó að jeg til samkomulags við hina nefndarmennina gengi inn á að undanþiggja giftar konur. Mun jeg því nú greiða atkvæði með till. háttv. 4. landsk.